Vextir og kjarasamningar

109. fundur
Þriðjudaginn 16. febrúar 1993, kl. 13:37:38 (5103)

     Halldór Ásgrímsson :
    Virðulegi forseti. Svör hæstv. fjmrh. eru mjög ófullnægjandi. Í fyrsta lagi sagði hann að ekki væri til neins að lækka vextina og lét í það skína að ríkisstjórnin réði þar engu. A.m.k. getur ríkisstjórnin haft áhrif á vaxtastigið með því að taka þau erlendu lán sem á að taka á árinu með þeim hætti að það hafi sem jákvæðust áhrif. Jafnframt getur Seðlabankinn keypt meira af ríkispappírum til þess að hafa áhrif á vaxtastigið fyrst ríkisstjórnin vill ekki hafa áhrif á það með neinum öðrum hætti. Ég lít á svar hæstv. fjmrh. þannig að ríkisstjórnin vilji nánast ekkert beita sér í málinu og til hvers eru þá þessar viðræður við lífeyrissjóðina?
    Í öðru lagi tek ég fram að ég er sammála því að færa skattbyrðina að einhverju leyti frá fyrirtækjum yfir á einstaklingana. En það var gert meira. Skattar voru hækkaðir á lágtekjufólki og meiri hluti Alþingis neitaði því að hækka frekar skatta á þeim sem hærri hafa tekjurnar en kaus þess í stað að lækka persónuafsláttinn eins og hæstv. fjmrh. veit.