Kjarasamningar

109. fundur
Þriðjudaginn 16. febrúar 1993, kl. 13:49:39 (5115)

     Kristín Ástgeirsdóttir :
    Virðulegi forseti. Hér er um það að ræða hvort ríkisstjórnin hefur einhverja stefnu í kjaramálum. Fróðlegt væri að fá að heyra af því. Þetta er ekkert svar hjá hæstv. forsrh. Ég er ekki að fara þess á leit að við hefjum hér kjarasamninga enda hef ég ekkert umboð til þess. En ég vil gjarnan fá að heyra hvaða aðgerðir eru fyrirhugaðar af hálfu ríkisstjórnarinnar til að jafna kjörin í kjölfar þeirrar aðgerðar sem gripið var til fyrir áramótin og sem við vitum að bitnuðu mjög illilega á hinum lægst launuðu í landinu. Hvað ætlar ríkisstjórnin að gera til að jafna kjörin í landinu?