Skyndilokanir á afréttum

109. fundur
Þriðjudaginn 16. febrúar 1993, kl. 13:53:48 (5121)

     Valgerður Sverrisdóttir :
    Hæstv. forseti. Í máli hæstv. ráðherra fannst mér eins og hann teldi að ekkert hefði verið gert í þessum efnum. Það er einhverju öðru nær. Stór landsvæði hafa verið friðuð og heilum svæðum hefur verið lokað, t.d. Hólsfjöllum. Hólsfjöllum hefur verið lokað, girt hefur verið neðan úr Öxarfirði þannig að fé kemst ekki á þetta svæði. Þess vegna vil ég mótmæla því sem hér kemur fram, mér finnst ég heyra í máli hæstv. ráðherra eins og ekkert hafi verið gert.
    Hann kom m.a. inn á það í viðtalinu að allt of mikið væri um það að Landgræðslan væri að sá í land eða bera á land sem síðan væri beitt eins og þetta væri eitthvert aðalverkefni Landgræðslunnar. Það er rétt að það er eitthvað um það að Landgræðslan ber á land sem síðan er beitt en það er af hluta til vegna samninga við sveitarfélög og vegna búvörusamnings. Það er í mjög litlum mæli þannig að þetta er hreint og beint rangt sem kemur fram hjá ráðherranum.