Skyndilokanir á afréttum

109. fundur
Þriðjudaginn 16. febrúar 1993, kl. 13:56:15 (5123)

     Valgerður Sverrisdóttir :
    Hæstv. forseti. Mér þykir hæstv. ráðherra vera farinn að gera mér upp skoðanir. Að sjálfsögðu er ég sammála hæstv. ráðherra um það að við þurfum að gæta að landinu okkar og við þurfum að beita öllum brögðum til þess að snúa við þeirri þróun sem þar hefur átt sér stað. En aðalspurning mín til ráðherrans, sem ég bar fram í upphafi, var aldrei svarað. Þegar ráðherra umhverfismála ber það á borð að hægt sé að beita einhverjum skyndifriðunum og það sé ráðið er það náttúrlega út í hött. Ekki er hægt að gefa út boð til sauðkindarinnar um að hún eigi að fara út af ákveðnum svæðum. Og hvert ætti að reka það fé sem væri rekið af þessum afréttum þegar allir afréttir sem ekki eru friðaðir eru notaðir? Þetta er því bara til þess að villa um fyrir þjóðinni að koma fram með svona fullyrðingar eins og hæstv. ráðherra gerði.