Fjárþörf Atvinnuleysistryggingasjóðs

109. fundur
Þriðjudaginn 16. febrúar 1993, kl. 13:58:00 (5125)

     Anna Ólafsdóttir Björnsson :
    Virðulegi forseti. Mig langar að beina spurningu minni til hæstv. fjmrh. og spyrja hann hvort einhver áætlun hafi verið gerð á vegum ríkisstjórnarinnar um það hvernig fjárþörf Atvinnuleysistryggingasjóðs verði mætt á þessu ári þar sem nú er mjög líklegt að hún verði a.m.k. milljarði meiri en það fé sem er til ráðstöfunar.
    Í útvarpsviðtali við hv. varaþm. Pétur Sigurðsson, formann Atvinnuleysistryggingasjóðs, nú í morgun kom fram að eins og nú horfir vantar milljarð upp á og að það væri ríkissjóðs að brúa þetta bil og því hljótum við að spyrja hvernig á að afla þessa fjár? Er verið að íhuga að leggja auknar skattbyrðar á láglaunafólk? Á að auka þjónustugjöld eða er e.t.v. ekkert farið að huga að þessu?