Fjárþörf Atvinnuleysistryggingasjóðs

109. fundur
Þriðjudaginn 16. febrúar 1993, kl. 14:00:38 (5127)

     Anna Ólafsdóttir Björnsson :
    Virðulegi forseti. Út af fyrir sig er gott að heyra það ef ríkissjóður stendur á bak við sjóðinn því að ekki mun hann vera burðugur til þess að standa undir þeim skuldbindingum sem honum er ætlað að mæta miðað við þær horfur sem nú eru og ætti raunar ekki að þurfa að taka það fram. Á hinn bóginn er það athyglisvert að heyra að e.t.v. eigi að velta þessu áfram með því að hækka gjaldið. Sem betur fer nefndi hæstv. fjmrh. ekki það sem heyrst hefur en sem betur fer ekki frá neinum ábyrgum aðilum mér vitanlega um að til greina komi að skerða bæturnar því að þær eru svo sannarlega ekki til skiptanna. Út af fyrir sig er guðsþakkarvert að heyra ekki slíkt úr stólnum.
    Mér þykir þá nokkuð hafa miðað með að fá upplýsingar ef helstu hugmyndir eru að hækka gjaldið en ekki að taka upp aðra skatta og ég tel það gilt svar. En að sjálfsögðu þarf það að koma fyrir þingið.