Upplýsingabréf fjármálaráðherra

109. fundur
Þriðjudaginn 16. febrúar 1993, kl. 14:04:45 (5130)

     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að mótmæla því að um einhvern áróðursbækling sé að ræða. Það er auðvitað þannig að hér koma fram sjónarmið fjmrh. Við höfum orðið vör við það að ýmsir aðilar hafa talið sér skylt að skýra út hvað felist í því sem kom fram í efnahagsaðgerðum ríkisstjórnarinnar, þar á meðal hafa t.d. sum verkalýðsfélög tekið upp hjá sjálfum sér að auglýsa í dagblöðum. Ég minni á að Alþýðusamband Íslands nýtur styrkja af hálfu fjárveitingavaldsins, líklega yfir 10 millj. kr. og þeir styrkir eru m.a. notaðir til þess að koma sjónarmiðum þessara félaga á framfæri. Því er ekki óeðlilegt að ríkisvaldið, eins og t.d. fjmrn. og fjmrh. í þessu tilviki, komi til skila þeim upplýsingum sem hann veit bestar um þau mál sem hér eru til umræðu.
    Um kostnað af þessu skal það tekið fram að þetta er skráð sem blað, það skýrir það að það stendur þarna fyrsta tölublað. Það gerir það að verkum að það er ódýrara að senda blaðið út. Það er sent völdum hópi, alþingismönnum, trúnaðarmönnum í verkalýðsfélögum, atvinnurekendum og hópi aðila sem hægt var að ná í í gegnum skrár frá viðkomandi félögum. Ætlunin er að gefa það út í 7.000 eintökum og kostnaður er áætlaður vera um 600 þús. kr. þegar tekið er tillit til útsendingarkostnaðar til viðbótar eða brúttókostnaðar að frátöldum virðisaukaskatti.
    Vegna fyrirspurnar úr sal um það hvort blaðið njóti dagblaðsstyrks þá er skiljanlegt að sú spurning komi frá viðkomandi þingmanni. Ég tek fram að svo er ekki en bendi á að meira að segja vikublöð sem eru gefin út í fjórum hlutum í viku hverri njóta samt dagblaðsstyrks frá fjmrn.