Upplýsingabréf fjármálaráðherra

109. fundur
Þriðjudaginn 16. febrúar 1993, kl. 14:09:39 (5133)

     Kristín Einarsdóttir :
    Frú forseti. Ráðuneytið hefur auðvitað rétt á að koma sínum sjónarmiðum á framfæri en það er spurning hvaðan peningarnir eru teknir. Hvers eigum við t.d. að gjalda í stjórnarandstöðunni? Eigum við þá að fá fé úr ríkissjóði til að bera fram skoðanir okkar á aðgerðum ríkisstjórnarinnar? Verkalýðsfélögin hafa vissulega birt auglýsingar með sjónarmiðum sínum en ef ég tek Kvennalistann sem dæmi þá höfum við ekki yfir það miklu fé að ráða að við getum gefið út þvílíka bæklinga eins og þetta og sagt hvaða skoðanir við höfum á aðgerðum ríkisstjórnarinnar.
    Ég endurtek það, frú forseti, að ég tel óeðlilegt hvort sem það er þessi ríkisstjórn eða einhver önnur að nota fé skattborgaranna með þeim hætti sem hér er gert.