Viðvera ráðherra í fyrirspurnatímum

109. fundur
Þriðjudaginn 16. febrúar 1993, kl. 14:12:25 (5135)

     Jón Kristjánsson :
    Frú forseti. Í upphafi fyrirspurnatímans kom fram að ekki lá ljóst fyrir hvaða ráðherrar yrðu viðstaddir. Kynnti forseti það og baðst velvirðingar á því og ég tek það gilt að það komi fyrir einu sinni. En auðvitað má þetta ekki koma fyrir aftur. Það var svo núna að eftir að hv. þm. höfðu beðið um orðið þá bættust að ég held tveir eða þrír ráðherrar í salinn.
    Ég hafði hugsað mér að beina fsp. til hv. forsrh., en gerði það að sjálfsögðu ekki vegna þess að hann var ekki kominn í salinn og það lá ekki fyrir að hann yrði hér. Ég vil því beina því til forseta að það liggi fyrir hreint og klárt hvaða ráðherrar eru til svara og það sem gerðist nú endurtaki sig ekki og þetta verði undantekningartilvik.