Vegáætlun 1993--1996

109. fundur
Þriðjudaginn 16. febrúar 1993, kl. 15:18:55 (5152)

     Guðmundur Bjarnason :
    Virðulegur forseti. Hér er vissulega stórt mál til umræðu og vil ég taka undir það með hv. síðasta ræðumanni að það er slæmt að hafa ekki nægjanlega rúman tíma til þess að ræða um það. Þetta er með stærri fjárveitingum í fjárlögum yfirstandandi árs og langsamlega stærsta framkvæmdafjárveiting, eins og reyndar hefur verið mörg undanfarin ár, sem varið er til vegaframkvæmdanna ef borið er saman við aðra framkvæmdaflokka sem hið opinbera hefur á sinni forsjá.
    Hér er þar að auki um að ræða verkefni sem varðar alla landsmenn og er mjög þýðingarmikið að vel takist til og að um framkvæmdir í vegagerð og vegamálum sé bærileg sátt, bæði á Alþingi og svo auðvitað við þá sem eiga að njóta eftir því sem þess er kostur þegar fjármunir eru nú eins og oftast áður minni en það sem við hefðum gjarnan viljað sjá.
    Í greinargerð með fjárlagafrv. fyrir þetta ár segir m.a. svo, með leyfi forseta:
    ,,Heildarframlag til Vegagerðarinnar á árinu 1993 er áætlað 7.516 millj. kr., þar af 1.800 millj. kr. til sérstakra framkvæmda til að örva atvinnu. Fjár þessa verður aflað með lántöku á þeirri forsendu að það lán verði síðar endurgreitt af mörkuðum tekjustofnum Vegagerðarinnar.``
    Að vísu er búið að breyta þessum tölum aðeins, en hér er gumað af því mjög að það eigi að taka stóra peninga til viðbótarframkvæmda til þess að örva atvinnu. Þessi upphæð, sem í upphafi átti að vera

1.800 millj. kr., endar reyndar í 1.550 millj. Ef grannt er skoðað og borin saman eldri vegáætlun og sú sem hér liggur fyrir til umræðu þá sést að ekki er allt sem sýnist. Því miður, getum við kannski sagt. En í viðbót við það er svo ætlað að taka af mörkuðum tekjustofnum Vegagerðar beint í ríkissjóð bæði á þessu ári og næstu árum í stað þess að reyna fremur að standa við vegáætlunina eins og hún er samþykkt og liggur fyrir og gera þá ráð fyrir því að ríkissjóður taki fjármuni til sinna eigin verkefna eða annarra verkefna að láni í stað þess að taka úr Vegasjóði fé á sama tíma og verið er að láta Vegagerðina taka stórkostlegar upphæðir að láni.
    En ég sagði að ekki væri allt sem sýndist og mig langar aðeins til þess að rekja það.
    Í þeirri vegáætlun sem liggur fyrir samþykkt fyrir árið 1991--1994 var gert ráð fyrir því að verja á árinu 1993 6.556 millj. kr. til framkvæmda. Ef viðbótarféð, 1.550 millj., er tekið út úr þeirri nýju vegáætlun sem hér liggur fyrir til umræðu er nettótalan 5.716 millj. Mismunurinn er þá 840 millj. kr. sem hin nýja áætlun er lægri en sú eldri. Í viðbót við þetta er síðan ætlað að greiða 330 millj. í rekstur ferja og flóabáta af þessari áætlun sem fyrir liggur. Þá er lækkunin til vegaframkvæmda orðin 1.170 millj. kr. af þessum 1.550 millj. sem hæstv. ríkisstjórn hefur gumað mikið af að ætla að setja í viðbótarframkvæmdir og örva með atvinnu. Nettótalan sýnist mér vera 380 millj. Nú kann að vera, og ég ætla þá að hafa á því fyrirvara, að hér séu eitthvað mismunandi verðlagsforsendur en það getur ekki verið svo mikill mismunur að skipti sköpum.
    Þetta finnst mér benda til þess að þau fyrirheit sem gefin eru um verulega auknar framkvæmdir séu því miður minni en margir hafa vænst og hér sé því um ótrúlegan leikaraskap að ræða hjá hæstv. ríkisstjórn við uppsetningu á þessum málum.
    Nú er það svo að þau verkefni sem áætlað er að fara í fyrir þessar viðbótarkrónur, 1,5 milljarða, eru að sjálfsögðu brýn og áhugaverð mál sem ekki er auðvelt að leggjast gegn eða hafa á móti. En það sem er óvenjulegt við vinnubrögðin og framkvæmdina er að hæstv. ríkisstjórn og hæstv. samgrh. gera tillögu um hvernig þessu fé skuli úthlutað til einstakra stórra verkefna, en á móti er hins vegar Alþingi og hv. þm. ætlað að skera niður hina eldri áætlun frá því sem þeir höfðu áður ákveðið og fyrirhugað hafði verið. Það verður ekki auðvelt verk, hæstv. samgrh., og því miður hygg ég að það kunni að verða erfitt að ná um það samkomulagi í þingmannahópunum þó ég ætli ekki að hafa fyrir fram uppi neinar hótanir um það. Ég get a.m.k. látið þess getið að í þingmannahópi Norðurlands eystra hefur alla jafnan náðst um þessar framkvæmdir og þessa úthlutun fjár nokkuð gott samkomulag þó að menn kunni að hafa greint á um einstaka þætti.
    Talandi um það langar mig aðeins að nefna að við þingmenn Norðurlands eystra höfum hist einu sinni til að fjalla um þessa áætlun. Það verður að segjast að þrátt fyrir viðbótarfé sem varið er til stórra verkefna, tveggja eða þriggja framkvæmda í okkar kjördæmi, verðum við því miður að skera niður mjög stórar upphæðir og mjög mörg brýn verkefni vegna hins almenna niðurskurðar á vegáætlun. Nú er þetta aðeins vinnuplagg sem hefur verið lagt fyrir okkur hér í upphafi og ekki ástæða til þess að fjölyrða um það á þessu stigi. Það verður unnið nánar, bæði í samgn. þingsins og svo í þingmannahópnum á ég von á. Við munum að sjálfsögðu ræða þar nánar um málið.
    Máli mínu til rökstuðnings vil ég geta þess að átaksféð, ef svo má kalla það, þessar 1.550 millj. sem reyndar verða nettó miklu minna en það, eru í okkar kjördæmi 128 millj. 128 millj. eiga að renna til Norðurlands eystra af þessari upphæð samkvæmt þessum fyrstu drögum. En þær upphæðir sem við þurfum hins vegar að skera niður af þeirri áætlun sem við höfðum þegar ákveðið og samþykkt í þinginu eru rúmar 100 millj. kr. Það eru 17 millj. kr. í kafla norður frá Húsavík út á Tjörnesið. Það eru 27 millj. kr. í Kelduhverfinu. Það eru 42 millj. kr. á Brekknaheiðinni. Það eru 6 millj. kr. í vegarkafla á Aðaldalsvegi og 17 millj. kr. í vegarkafla í Reykjadal í Suður-Þingeyjarsýslu. Allir þessir kaflar eru, eins og hugmyndirnar liggja nú fyrir, felldir niður vegna þess að okkar hlutverk er það að skera niður 110 millj. kr. á sama tíma og það er hlutverk hæstv. ráðherra að úthluta í önnur verkefni 130 millj. kr.
    Þetta vildi ég draga hér fram, virðulegur forseti, til þess að benda á að það er því miður ekki allt sem sýnist og hefði verið ánægjulegt að geta fengið til viðbótar 1,5 milljarða kr. til þess að framkvæma fyrir í vegakerfi landsins á nýbyrjuðu ári.
    Varðandi svo þessar lántökur. Því miður er tími minn alveg að renna út en margt í raun ósagt en það verður að bíða 2. umr. að fara nánar yfir málið. Til viðbótar við þessar lántökur er, eins og ég nefndi í upphafi, gert ráð fyrir því að skerða tekjur til Vegasjóðs og láta þær renna beint í ríkissjóð. En ekki nóg með það. Við samþykktum í lok seinasta árs lög um breytingar í skattamálum þar sem gert er ráð fyrir því að verulegar upphæðir renni nú beint í ríkissjóð af bensíngjaldi sem hingað til hafa verið markaðir tekjustofnar Vegagerðarinnar. Nú á bensíngjald án viðkomu í Vegasjóði að renna beint í ríkissjóð, virðulegur forseti. Það hefði verið gaman að heyra þá yfirlýsingu frá hæstv. samgrh. að hann mundi beita sér fyrir því að sú fjárveiting, þeir sérstöku skattar sem Alþingi lagði á með lögum fyrir jólin, rynnu til þess að endurgreiða þetta lán. Í greinargerð með vegáætluninni sem við erum að ræða segir m.a.: ,,Ekki hefur enn verið tekin ákvörðun um lánstíma eða tilhögun á endurgreiðslu þessa láns``. Það mundi sannarlega létta aðeins á manni brúnina ef við vissum að endurgreiðslan yrði þó þannig en ekki af þeim takmörkuðu fjármunum sem Vegagerðin hefur nú þegar til framkvæmda og mættu gjarnan vera meiri.