Vegáætlun 1993--1996

109. fundur
Þriðjudaginn 16. febrúar 1993, kl. 15:36:41 (5154)

     Guðmundur Bjarnason (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Aðeins út af því sem fram kom hér hjá hv. 5. þm. Austurl. um að hann væri undrandi á því að menn skyldu ekki fagna þessum 1.550 millj. kr. sem kæmu til viðbótar til vegaframkvæmda. Ég er jafnundrandi á honum að vera enn að tala um 1.550 millj. kr. til viðbótar framkvæmda í vegamálum. Hann veit það vel sjálfur sitjandi í fjárln. hvernig þessi mál líta út gagnvart þeim niðurskurði sem er í raun á vegáætluninni eins og hún liggur fyrir okkur samþykktri í dag. Það erum við út af fyrir sig fyrst og fremst óánægð með. Ég er ekki að hafa á móti því og fagna því að það skuli hægt að setja 300, 400 eða 500 millj. kr. í viðbót í þetta verkefni. Það er áhugavert en það er á sama tíma jafnfurðulegt að hæstv. ríkisstjórn skuli gera það sem aðalmál í sínu atvinnuuppbyggingarstarfi að setja þessa ,,gífurlegu`` fjármuni í vegagerð eins og hér hefur verið rætt um. Það er því miður það sem okkur virðist að

ekki eigi að standa við.
    Varðandi aftur það að ég hafi látið þau orð falla að það næðist væntanlega góð samstaða um það í þingmannahópi Norðurlands eystra að afgreiða vegáætlunina að þessu sinni með sama sniði og verið hefur að undanförnu, þá ítreka ég að ég vonast til þess. En ég árétta að það verður erfitt að gera það á sama tíma og búið er að ákveða verulega stór verkefni sem ekki voru á vegáætlun en ætla síðan þingmönnum að skera niður þau verkefni sem við vorum fyrir tveimur árum búin að ákveða að fara í. Það er vandinn. Þess vegna mun fólk spyrja þegar það sér nýja áætlun: Hvernig í ósköpunum stendur á því að ráðast þarf í allan þennan niðurskurð þegar verið er að hrópa það út og hæla sér af því að verið sé að setja stóraukna fjármuni í vegaframkvæmdir?