Vegáætlun 1993--1996

109. fundur
Þriðjudaginn 16. febrúar 1993, kl. 16:00:00 (5164)

     Jóhann Ársælsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Ég tek undir það að það eru þarna á ferðinni veruleg sinnaskipti því að þegar við vorum að ræða um vegáætlun hér í fyrra, þá vorum við að reyna að fá stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar til þess að hverfa frá villu síns vegar, þ.e. þeim niðurskurði sem þeir fá voru að berja hér í gegnum þingið. Það eru auðvitað sinnaskipti og hv. 5. þm. Austurl. getur kallað þetta kaflaskipti ef hann lítur svo stórt á málið. Og ég ætla alls ekki að draga úr því að þarna sé á ferðinni veruleg breyting. Ég býst við því að hv. þm. sé svona mikið niðri fyrir vegna þess að hann hafi lagt mikið á sig til að fá þessa breytingu í gegn í stjórnarflokkunum. Og það er auðvitað vel að honum hefur tekist það.
    En af því að hann nefndi hæstv. fyrrv. samgrh. og hvað hefði verið í gildi ef þær áætlanir sem hann lagði hér fyrir þingið hefðu staðið áfram, þá vil ég bara minna á það sem ég hef hér í höndunum og er plagg frá Vegagerðinni frá því í fyrra. Þar var gert ráð fyrir því að á vegáætlun 1992 yrðu 6.318 millj. kr. og eftir að það hefði verið reiknað til verðlags aftur og tekjurnar endurskoðaðar, þá væri þarna um að ræða rúma 6 milljarða. Þetta var skorið verulega niður og um rúmlega hálfan milljarð á því ári. Og þannig var gert ráð fyrir að vegáætlunin yrði yfir 6 milljarða á þessum árum sem þarna er verið að tala um. Ég tel þess vegna og það er ekki vafi að ef þær tölur yrðu skoðaðar og þær áætlanir sem lágu fyrir, þá hefði verið meira til skiptanna til vegaframkvæmda ef engu hefði verið breytt heldur en ef hefði verið farið að

hringla í þessum málum með sama hætti og gert hefur verið.