Vegáætlun 1993--1996

109. fundur
Þriðjudaginn 16. febrúar 1993, kl. 16:05:36 (5167)

     Jón Kristjánsson :
    Frú forseti. Ég fer nú að halda að opnufrétt í Alþýðublaðinu sem ég las í morgun sé rétt og hér hafi stigið samgönguráðherraefni Alþfl. í stólinn, hv. 5. þm. Austurl., þar sem hæstv. samgrh. er nú orðinn bara statisti í þessum umræðum, en það stendur hér að ráðherraskipti hafi verið rædd þannig að hér kunna að vera kaflaskil ( ÓÞÞ: Sinnaskipti, þá væru sinnaskipti.) eða kaflaskil mundi ég segja.
    Vegamál og vegáætlun hverju sinni eru málefni sem þarfnast ítarlegrar umræðu og þau þarfnast samstöðu þingmanna. Og vegamál eru ekki svo pólitísk í sjálfu sér. Takmarkið er það sama: að bæta samgöngur. Ég hef ekki trú á öðru en allir þingmenn séu sammála um það og það er nauðsynlegt að halda þannig á þeim málum að þar sé litið á heildarhagsmuni og málum sé þokað nokkuð á leið.
    Ég fagna því auðvitað þegar ríkisstjórnin tekur þá ákvörðun að veita viðbótarfjármagni til vegagerðar, en það viðbótarfjármagn, eins og hefur verið rakið hér, er auðvitað háð ýmsum skilyrðum. Það er lántaka sem á að greiða síðar og það er eins og fram kemur í vegáætluninni ekki ákveðið hvernig þeirri endurgreiðslu verður háttað. Verður byrjað að endurgreiða þetta lán á næsta ári? Verður byrjað að endurgreiða það einhvern tíma seinna eftir þetta kjörtímabil eða hvernig verður þessari endurgreiðslu háttað? Það þarf auðvitað að koma í ljós áður en þessi vegáætlun er afgreidd hér og e.t.v. getur hæstv. samgrh. upplýst eitthvað um það, því að hann á vafalaust eftir að tala hér við þessa umræðu, um stöðu þeirra mála nú. En það er alveg rétt sem fram hefur komið trekk í trekk að hér er ekki allt sem sýnist. Menn leggja ekki vegi fyrir fjármagn sem ferjusiglingar eru kostaðar með og það hafa verið teknar ákvarðanir um að taka endurgreiðslu og lántöku vegna Vestfjarðaganga inn í vegáætlun. Ég þarf ekki að rekja það því að það hefur verið rakið hér á undan í þessum stutta tíma sem ég hef til ráðstöfunar hér.
    Ég vil koma hér inn á vegi sem hafa verið lítið ræddir varðandi vegáætlun og kannski lítið ræddir í gegnum árin og það eru sýsluvegirnir. En það er því miður þannig að það er dregið saman fjármagn til þeirra við þessa vegáætlun. Hér er ekki um ýkjamiklar fjárhæðir að ræða miðað við heildina en eigi að síður er það þó tilfinnanlegt og það er vegna þess að það er ekkert langt síðan að þessir sýsluvegir komu yfir á ríkið eingöngu og það hefur ekki verið staðið við af ríkisins hálfu að leggja það fjármagn í sýsluvegina sem var lagt til þeirra áður, meðan þetta var sameiginlegt verkefni ríkis og sveitarfélaga. Sveitarfélögin lögðu yfirleitt fram mótframlag. Þess hefur ekki verið gætt að það fjármagn héldi sér að raungildi sem lagt er til sýsluveganna. Ég beini því nú til samgn. að hún skoði þetta sýsluvegamál, kynni sér það rækilega og leiti leiða til úrbóta því að víða á landinu hagar þannig til að það eru mjög mikil verkefni eftir í sýsluvegunum. En ég vil minnast á þetta mál sérstaklega þó að hér sé talað um ýmis stærri málefni og miklar tengingar og mikil verkefni í vegagerð.
    Ég vil einnig nota þetta tækifæri til þess að inna hæstv. samgrh. eftir því og spyrja hann að því hvort það séu uppi áform um að breyta áherslum í jarðgangagerð á Íslandi. Það var samstaða um það að

ég hélt þegar jarðgangagerð var hafin á ný á Vestfjörðum að forsendan fyrir jarðgangagerð væri sú að rjúfa einangrun byggða. En nú heyri ég það, og sá í sjónvarpsviðtali hæstv. samgrh. ýja að því, að það væri ekkert sjálfgefið að þetta yrði áfram við lýði og það gæti alveg eins komið til að jarðgöng undir Hvalfjörð yrðu næst á eftir Vestfjarðagöngum. Nú er það hin ágætasta framkvæmd í sjálfu sér og styttir leiðir á milli byggðarlaga en það gilda þar um sérstök lög og áætlun um að taka þar veggjald og taka þá framkvæmd ekki inn í vegáætlun. Ég vil inna hæstv. samgrh. eftir því hvað liggi að baki slíkum yfirlýsingum eins og ég hlýddi á að hann gaf í sjónvarpi nú nýverið.
    Það hefur verið rætt um vinnubrögðin varðandi þessa vegáætlun og hv. 1. þm. Austurl. gerði því skil og ég hef í rauninni litlu við það að bæta. Það hefur verið tilkynnt og er öllum kunnugt um lista ríkisstjórnarinnar yfir það hvernig á að verja þessu viðbótarfjármagni sem hún kallar. Og það er sagt frá því í vegáætlun að sú skrá sé lögð fram með vegáætlun nú, það er hér á bls. 27, með leyfi forseta:
    ,,Ákvörðun ríkisstjórnarinnar fylgdi skrá yfir þau verkefni sem njóta skyldu hins aukna fjármagns. Verður sú skrá lögð fram við meðferð málsins á Alþingi.``
    Ég vil nú beina þeirri fyrirspurn til hæstv. samgrh. hvort það er ætlunin að leggja þetta fyrir Alþingi þannig að Alþingi geti breytt einhverju þarna um. Ég er sammála því sem fram hefur komið að það er ekkert auðvelt að breyta slíku eftir að búið er að leggja fram skrá um hin þörfustu verkefni ( Gripið fram í: Og búið að bjóða þau út.) og búið að bjóða sum út. Ég á ekkert frekar von á að það verði gert (Forseti hringir.) en það er mikilvægt að það komi fram hvort Alþingi hefur leyfi til, sem ég veit að það hefur leyfi til því að það er lögbundið, að skipta þessum fjármunum. Ef það hefur ekki verið ætlunin að hreyfa þarna við neinu, þá er það hreinlega lögbrot vegna þess að það stendur í vegalögum: ,,Við meðferð tillögunnar fyrir Alþingi skal ákveðin skipting útgjalda til einstakra framkvæmdaliða og tillagan afgreidd í endanlegu formi sem þál. um vegáætlun fyrir fjögurra ára tímabil.`` (Forseti hringir.) Ég er alveg að ljúka máli mínu, virðulegi forseti. ,,Sé fé veitt til þjóðvegagerðar eftir öðrum leiðum en getið er um í till. til þál. um vegáætlun, svo sem í landshlutaáætlun eða á annan slíkan hátt skal fjalla um skiptingu þess innan ramma vegáætlunar á sama hátt og að framan getur.``
    Það þarf engum blöðum um það hér að fletta að ef það er ekki meining ráðherra að Alþingi geti breytt hér stafkrók, þá er það að sjálfsögðu lögbrot.