Vegáætlun 1993--1996

109. fundur
Þriðjudaginn 16. febrúar 1993, kl. 16:17:38 (5171)

     Jón Kristjánsson (andsvar) :
    Frú forseti. Stundum getur nú málflutningur hæstv. ráðherra verið með þeim hætti að maður hikar við að fara upp í stólinn til andsvara. Það er náttúrlega lýðum ljóst að ráðherrann hefur skotið sér undan því að svara þeirri spurningu minni, sem er ósköp einföld, hvort hann líti svo á að sú skrá yfir framkvæmdir og skiptingu framkvæmda, sem er lögð fyrir Alþingi með vegáætluninni frá ríkisstjórninni, sé óumbreytanleg eða hvort hann líti svo á að Alþingi eigi að fjalla um þetta á venjulegan hátt. Ég óska eftir því að hæstv. ráðherra fjalli um þessi mál öðruvísi en með útúrsnúningum og orðhengilshætti. Og ég krefst þess að þessum spurningum sé svarað því að svarið við þeim er einfalt.