Vegáætlun 1993--1996

109. fundur
Þriðjudaginn 16. febrúar 1993, kl. 16:59:00 (5179)

     Jón Kristjánsson (andsvar) :
    Frú forseti. Það voru eitt eða tvö atriði í ræðu ráðherra sem ég vildi sérstaklega koma inn enda þótt margt fleira væri athugavert. En hann sagði sem svo að þingmönnum, sem höfðu talað í þessari umræðu, þætti það ósvinna að setja sér það mark að loka hringveginum. Málið snýst einfaldlega ekkert um það. Auðvitað er það gott og gilt markmið í sjálfu sér. Hins vegar verða menn að koma sér niður á það hvar sá vegur á að liggja og komast að skynsamlegri niðurstöðu í því. Ég heyri bara á máli hæstv. ráðherra þegar hann talar um jarðgöng undir Hellisheiði og vitnar í mál hv. 1. þm. Austurl. að hann veit afskaplega lítið hvað hann er að tala um í þessu sambandi. Ef hann talar um jarðgöng upp á 2--3 milljarða þá hefur hann bara ekkert hlustað á eða kynnt sér hvað er verið að tala um þegar verið er að tala um þessa tengingu. Það er fullkomin ástæða til að koma sér niður á það fyrst hvar þessi vegur á að liggja milli landshluta.