Vegáætlun 1993--1996

109. fundur
Þriðjudaginn 16. febrúar 1993, kl. 17:06:18 (5186)

     Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Það eru mér algerlega ný sannindi ef hv. þm. hefur haft sérstakan áhuga á því að fullgera veginn til norðurs frá Vopnafirði og er auðvitað ekki sannleikanum samkvæmt. Hitt er rétt að ég hef ævinlega lagt á það höfuðáherslu að ljúka fyrst veginum frá Húsavík til Akureyrar --- ef hv. þm. vill vita um það --- milli kauptúnanna til Ólafsfjarðar og síðan var komin röðin að því að fara upp Öxnadal og gert er ráð fyrir því að því verki ljúki endanlega á næsta ári. Ég er hins vegar fullkomlega ósáttur við þá ákvörðun sem tekin var fyrir nokkrum árum að öræfin milli Norður- og Austurlands skyldu ekki talin til stórverkefna. Þá bundu menn sig við það að um brú eða jarðgöng yrði að vera að ræða en ekki heiðar. Áður var talað um heiðar í því sambandi. Þessi ákvörðun byggðist á því hvernig þá stóð á spori. Nú er hins vegar kominn tími til að velta því fyrir sér að breyta skilgreiningunni á stórverkefnum og fella veginn frá Mývatnssveit til Jökuldals þar undir.