Skipulags- og byggingarlög

113. fundur
Mánudaginn 22. febrúar 1993, kl. 13:36:55 (5332)

     Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (frh.) :
    Virðulegur forseti. Ég var aðeins byrjuð að fara yfir þetta frv. til skipulags- og byggingarlaga þegar fundi var frestað á miðvikudaginn og mun halda því áfram. Ég ætla öðru fremur að líta á skipulagsþátt þessa frv. en skipulagsmál eru málaflokkur sem ég hef nokkuð komið nálægt sem borgarfulltrúi í Reykjavík.
    Mér finnst það út af fyrir sig kostur við þetta frv. og vera til bóta að það er gert ráð fyrir auknu frumkvæði sveitarfélaga í skipulagsmálum og að deiliskipulags- og aðalskipulagsgerð verði á þeirra vegum og unnin á þeirra vegum. Það er til bóta frá því sem er að mínu mati og almennt tel ég eðlilegt að auka frumkvæði og ábyrgð sveitarfélaga í sem flestum málaflokkum. Hins vegar benti ég á það á miðvikudaginn og vil ítreka það að þó að það sé auðvitað jákvætt að unnið sé að málum sem næst vettvangi, og hjá sveitarfélögum frekar en ríkisvaldi, þá eru sveitarstjórnir sem stjórnvald ekki óskeikular og það er alveg hugsanlegt að upp komi miklir hagsmunaárekstrar milli sveitarstjórnar og íbúa í sveitarfélagi einmitt í málaflokk eins og skipulagsmálum. Reynslan hefur sýnt okkur að það er helst í þessum málaflokki sem kastast í kekki milli sveitarstjórnar og íbúa og þá finnst mér nauðsynlegt að íbúarnir eigi einhvern möguleika á að áfrýja, til skipulagsstjórnar eins og það var eða þá til Skipulagsstofnunar gæti það hugsanlega verið eins og frv. er núna eða einhvers annars aðila. Mér finnst vanta inn í þetta frv. eitthvert slíkt ferli þó að ég sé almennt fylgjandi því, eins og ég segi, að flytja sem mest af málaflokkum til sveitarstjórnar. Ég vil bæta því við hér að mér finnst stundum brenna við í umræðum um málaflokka hér á þingi þar sem hér er mikið af fólki sem hefur setið í sveitarstjórnum og vill hlut sveitarstjórnanna sem mestan, að við gleymum kannski að auðvitað geta sveitarstjórnir misbeitt valdi sínu rétt eins og ríkisstjórnir eða ríkisvald og því þurfa íbúar að hafa ákveðna tryggingu fyrir því að þeir geti sótt sinn rétt ef þeim finnst honum hallað.
    Í 1. gr. þessa frv. kemur fram markmið laganna og þar segir að markmið laga þessara sé að byggð verði mótuð eftir skipulagsálætlunum og gæðakröfum og felld sem best að umhverfinu. Síðan er þarna áfram lýsing á markmiðunum. Mér fannst, þó að það sé kannski ekki stórmál, dálítið sérkennilegt að orða markmið með þessum hætti vegna þess að ég lít á áætlun og skipulagsáætlun sem tæki til að ná fram ákveðnum markmiðum. Það ætti ekki að vera markmið í sjálfu sér að byggja samkvæmt skipulagsáætlunum heldur ætti áætlunin að vera tæki til þess að ná tilteknum markmiðum, tilteknum gæðum í umhverfi og til þess að farið sé með mál með ákveðnum hætti. Þess vegna fyndist mér að markmiðið hlyti að vera eitthvað á þann veg að auka gæði byggðar og fella byggðina sem best að umhverfi. Það væri kannski svona æðsta markmiðið í skipulagsmálum.
    Þá finnst mér vanta inn í markmiðssetninguna eða það mætti vera, --- ég skal ekki segja, nú eru þetta auðvitað bara mínar vangaveltur eftir fljótlegan yfirlestur á þessu frv. --- að sem mest samráð skuli haft við íbúa í tilteknu byggðarlagi eða á tilteknu svæði við mótun byggðarinnar og það hefði verið metnaðarfullt markmið að setja inn í þetta frv. eitthvert samráð við íbúana og tryggja þeirra hlut.
    Í 2. gr. er fjallað um skilgreiningar og skilgreind ákveðin hugtök sem koma fyrir í frv. og koma mjög oft fyrir í skipulags- og byggingarmálum. Þar er m.a. hugtakið landsskipulag og er gert ráð fyrir því að landsskipulag eigi að stuðla að samræmdri stefnu og framkvæmdum ráðuneyta ríkisstofnana og sveitarfélaga og skapa grundvöll að gerð svæðisskipulags og aðalskipulags. Mér fyndist nú ástæða til þess að velta upp hérna og fá útskýringu á því hér hvar mörkin liggja á milli landsskipulagsins og byggðaáætlunar. Ég held að það hljóti að vera dálítil skörun þarna á milli og væri fróðlegt að fá svona aðeins nánari útlistun á því hvar mörkin liggja þarna á milli.
    Varðandi landsskipulag, svæðisskipulag og aðalskipulag, þá er ekkert kveðið á um það í þessari grein til hve langs tíma þetta á að vera, þ.e. á að gera landsskipulag til tiltekins árafjölda, t.d. 10 ára, á aðalskipulagið að vera til 10 ára, 20 ára o.s.frv. og hversu oft á þá að endurskoða slíkt skipulag. Ég veit að það er síðar í frv. gert ráð fyrir því að eftir hverjar sveitarstjórnarskosningar skuli sveitarstjórn skoða aðalskipulagið og velta því fyrir sér þá hvort hún telji að það þurfi endurskoðunar við. Það má því segja að

það sé komin inn einhvers konar fjögurra ára regla varðandi aðalskipulagið í frv. en þetta er ekki mér vitanlega fest neitt niður hvað varðar landsskipulagið og svæðisskipulagið. Þá er heldur ekki kveðið á um það eins og ég segi til hve langs tíma á það að vera á hverjum tíma. Á það að vera til 10 ára eða 20 ára eða er einhver önnur tímalengd hugsanleg?
    Þarna er líka hugtakið nýtingarhlutfall sem ég veit að hefur oft vafist fyrir mönnum að skilja og er mjög mikið notað í skipulagsmálum almennt. Segja má að þetta sé einhvers konar lykilhugtak í skipulagsmálum vegna þess að nýtingarhlutfallið er mjög stefnumarkandi varðandi yfirbragð byggðar og útlit byggðarinnar því að það segir til um það byggingarmagn sem reisa má á tilteknu svæði. Það kom mér svolítið á óvart að sjá hérna að ekki væri vel skilgreint til hversu stórs svæðis nýtingarhlutfallið ætti að ná því að það segir í frv. að nýtingarhlutfall sé: ,,Hlutfall milli samanlagðs gólfflatar húss og lóðarstærðar.`` En síðan segir: ,,Getur einnig átt við hlutfall milli samanlagðs gólfflatar á reit milli gatna og stærðar reitsins`` --- sem mér finnst líka mjög eðlilegt og er auðvitað notað þannig oft --- ,,eða samanlagðs gólfflatar og stærðar annars skilgreinds svæðis.`` Mér fannst vera nokkuð óljóst hvað átt væri við með þessu, annað skilgreint svæði og hversu stórt það gæti hugsanlega verið. Þetta getur haft mikla þýðingu, sérstaklega fyrir íbúana ef þeir ætla síðar að nota þá skilgreiningu til þess að sækja sinn rétt við deiliskipulagsgerð, þá skiptir öllu máli að svæðið sé afmarkað því þeim mun stærra sem svæðið er, þeim mun minna segir nýtingarhlutfallið í rauninni um yfirbragðið.
    Í þessari grein er líka nýtt hugtak sem er ,,hverfisvernd``. Þar segir: ,,Með hverfisvernd er átt við að við breytingar á byggð beri að taka sérstakt tillit til svipmóts og heildaryfirbragðs þeirrar byggðar sem fyrir er.`` Mér finnst það út af fyrir sig mjög jákvætt að koma með þetta inn í skipulagið vegna þess að það er mikilvægt að sveitarfélög taki afstöðu til ekki síst eldri byggðakjarna, en nú hefur eitt hugtak a.m.k. komist inn í skipulagsmál í Reykjavík sem ég sé ekki í þessu frv. og það er borgarvernd sem er þá sett á ákveðið útvistarsvæði. Það er spurning hvort það þyrfti ekki að vera eitthvað í skipulagslögunum um verndun útivistarsvæða eða náttúrulegra gæða í byggðarlagi og hvort eitthvert slíkt hugtak sem nær þá yfir ekki mannvirki heldur náttúruna, ætti að vera í skipulagslögum. Borgarvernd getur ekki átt við nema hér í Reykjavík en hvort eitthvert hugtak því líkt gæti verið þarna inni.
    Í 4. gr. er fjallað um skipulagsreglugerð og þar segir að umhvrh. skuli setja reglugerð um gerð skipulagsáætlana og síðan segir:
    ,,Þar skal m.a. kveðið á um mælikvarða, gerð og frágang skipulagsuppdrátta, hvert skuli vera efni greinargerða og hvaða lágmarkskröfur gildi um einstaka þætti skipulagsáætlana, svo og um menntun og starfsreynslu þeirra sem falin er stjórn vinnu við skipulagsáætlanir.``
    Mér sýnist að í rauninni sé afskaplega margt sem eigi að fara inn í reglugerð samkvæmt þessu frv. og það sé ekki mikið kveðið á um það í lögunum sjálfum hvað nákvæmlega beri að sýna á skipulagsuppdráttum, aðalskipulagsuppdrætti og ekki síst deiliskipulagsuppdrætti. Ég held að það geti verið mikilvægt, sérstaklega fyrir íbúana til þess að sækja sinn rétt, að lögin kveði nokkuð skýrt á um það hvað skuli sýna á uppdráttum. Auðvitað mega lög aldrei fara út í of mikil smáatriði því að þau eru rammi utan um hlutina. En engu að síður þarf að vera eitthvað í lögunum sem fólk getur þá byggt sinn rétt á þegar kemur að því að skipuleggja. Þó að lög og reglugerðir megi ekki vera of ítarleg, þá mega þau heldur ekki vera svo opin að íbúar hafi ekkert til þess að standa á gagnvart yfirvöldum þegar þeir ætla að sækja sinn rétt.
    Í 6. gr. er m.a. verið að fjalla um hvernig staðið skuli að svæðisskipulagi og þar segir: ,,Hlutaðeigandi sveitarfélög skulu þá gera með sér samning um stofnun svæðisnefndar. Umhvrn. skal staðfesta slíka samninga og útskurða jafnframt um ágreininingsatriði sem upp kunna að koma.`` Ég fór að velta því fyrir mér einmitt í því sambandi hvernig eigi að vinna að svæðisskipulagi. Hver á að sinna svæðisskipulaginu og hver á að vinna það? Í sumum tilvikum eru sveitarfélögin með skipulagsstofur og þá geta þau verið með kannski sitt hvora skipulagsstofuna eins og við höfum hér á höfuðborgarsvæðinu. Hver ætti hugsanlega að vinna það? Er það þá samkomulagsatriði á milli sveitarstjórnanna eða á þá umhvrn. eða Skipulagsstofnun ríkisins að hafa þar hönd í bagga?
    Í 10. gr. þessa frv. er kveðið á um aðalskipulag og þar segir að gert skuli aðalskipulag fyrir öll sveitarfélög. Ég vék nokkuð að því hér á fimmtudaginn að í 10. gr. núgildandi laga er kveðið nokkuð skýrt á um það hvað skuli sýna á aðalskipulagsuppdrætti en þar segir m.a. að þar skuli sýna aðalumferðaræðar, skiptingu fyrirhugaðrar byggðar í íbúðahverfi, iðnaðarhverfi, hafnarhverfi og opin svæði, svo og staðsetningu nauðsynlegra bygginga til almenningsþarfa o.s.frv. Þar skal einnig gera grein fyrir nýtingarhlutfalli eins og segir í núgildandi lögum. Hér í þessu frv. er afskaplega lítið sagt um það hvað skuli sýna á aðalskipulagsuppdrætti. Það segir bara að þar skuli gera grein fyrir þeirri byggð sem þegar er risin, atvinnuháttum og stefnu sveitarstjórnar um landnotkun, landnýtingu og þróun byggðar næstu 10 árin, tímamörkin koma reyndar hérna fram í þessu sambandi. Og síðan skal gæta umhverfissjónarmiða, náttúru landsins, heildstæðra eldri húsaþyrpinga og byggðahverfa og annarra sögulegra minja. Það er ýmislegt sem mér fyndist spurning hvort ekki ætti að vera þarna inni eins og þetta með aðalumferðaræðar, hvar eigi að staðsetja nauðsynlegar byggingar til almenningsþarfa o.s.frv. og nýtingarhlutfallið. Nú reikna ég með að menn ætli sér að setja eitthvað slíkt í skipulagsreglugerðina en eins og ég sagði áðan, fólk þarf ekki síst að byggja sinn rétt á lögunum og þar þarf að setja ákveðnar lágmarkskröfur um það í hverju aðalskipulag skuli felast.

    Ég fjallaði hér nokkuð á miðvikudaginn um hverfisverndina og sagði þá að mér fyndist orka tvímælis að það væri alfarið lagt í hendur sveitarstjórna að meta hvar skuli vera hverfisvernd og hvar ekki. Í því sambandi fyndist mér kannski ástæða til þess að það væri með einhverjum hætti skilgreint í lögunum að t.d. um byggð sem er orðin eldri en eitthvert tiltekið mark sem sett væri skuli sjálfkrafa vera hverfisvernduð, aldurssjónarmið varðandi byggðirnar ráði þar úrslitum. Síðan geti þá sveitarfélögin ákveðið að taka upp hverfisvernd víðar ef þeim sýnist svo. En ég er þá ekki síst að hugsa þetta út frá Reykjavík og mér fyndist að ákveðið svæði hér í gamla bænum í Reykjavík ætti að vera hverfisverndað bara aldursins vegna, vegna aldurs byggðarinnar og það væri kannski ástæða til þess að hafa eitthvað slíkt í lögunum en ég varpa því fram hér a.m.k. til umhugsunar.
    Í 11., 12. og 13. gr. er kveðið á um það hvernig farið skuli með aðalskipulagstillögur og þarna er komið inn á ágætt ákvæði sem kveður á um að það skuli efnt til almenns borgarafundar og aðalskipulagstillögur skuli kynntar áður en sveitarstjórn fjallar um þær í fyrsta sinn. Hún er þá ekki búin að festa sig með neinum ákvörðunum þegar kynningin á að fara fram og ég held að það sé mikill kostur. Síðan er gert ráð fyrir þegar sveitarstjórn hefur fjallað um skipulagstillöguna og samþykkt hana, að hún sé auglýst fyrir íbúa sveitarfélags á þann hátt sem venja er til um auglýsingar stjórnvalda. Í auglýsingunni á að tilgreina til hvaða svæðis tillagan nái, hvar hún sé til sýnis og hún skal vera til sýnis eigi skemur en 4 vikur segir hér í frv. Þarna er verið að stytta þann tíma sem hún er til kynningar og sýnis því að í núgildandi skipulagslögum eru þetta 6 vikur. Þá er líka sagt þarna að almenningi og stofnunum skuli boðið að gera athugasemdir við tillöguna innan 6 vikna frá birtingu auglýsingarinnar. Í dag eru þetta 8 vikur þannig að það hefur heldur dregið úr þeim tíma sem almenningur hefur til þess að kynna sér tillöguna og til að gera athugasemdir við hana.
    Mér finnst skjóta svolítið skökku við að þetta skuli gert, þ.e. að það skuli dregið úr þeim tíma sem almenningur hefur til þess að kynna sér málin en á sama tíma eru öll tímamörk tekin af hjá sveitarstjórnum. Í dag er það þannig að eftir að frestur er liðinn til þess að gera athugasemdir þá hefur sveitarstjórn 8 vikur til þess að skila athugasemdum og ganga frá málinu. Samkvæmt 13. gr. frv. segir bara:
    ,,Þegar frestur til athugasemda skv. 12. gr. er liðinn skal sveitarstjórn fjalla um tillöguna á nýjan leik að undangenginni umfjöllun skipulags- og byggingarnefndar.`` Sveitarstjórn hefur í rauninni hvern þann tíma sem hún vill frá því að frestur til að gera athugasemdir rennur út og þar til sveitarstjórnin tekur málið til 2. umr. Eftir að hún hefur tekið málið til 2. umr. og staðfest skipulagið skal hún tilkynna eða skila athugasemdum og umsögn til Skipulagsstofnunar innan fjögurra vikna, en þá er hún líka búin að ganga frá sínum málum endanlega við síðari umræðu. Mér finnst skjóta svolítið skökku við að tímamörk almennings til þess að fjalla um málið skuli vera þrengd í þessu frv. en tímasvigrúm sveitarstjórnar skuli vera aukið og ég vildi gjarnan fá einhverjar skýringar á þessu. Ég veit að það kemur fram í athugasemdum við frv. að þetta eigi að flýta fyrir málsmeðferð. Í sjálfu sér þarf það ekki að gera það ef sveitarstjórn tekur sér þann tíma sem henni hentar.
    Þá er í þessu frv. talað um það að við umfjöllun skuli sveitarstjórn m.a. taka afstöðu til þeirra athugasemda við tillögur sem borist hafa, en ef ég man rétt, þá er það í núgildandi lögum að sveitarstjórn á að gefa umsögn um hverja athugasemd. Þarna finnst mér vera nokkur munur á vegna þess að ef sveitarstjórn á að gefa umsögn eins og í dag, þá þarf hún að rökstyðja sitt svar, en eins og þetta hljómar þarna, að hún eigi að taka afstöðu til athugasemdanna, þá er ekkert sem segir að hún þurfi að rökstyðja afstöðu sína með einum eða öðrum hætti. Hún geti bara hafnað athugasemd eða tekið hana gilda. Mér finnst nauðsynlegt að það komi fram krafa á sveitarstjórn að hún rökstyðji það af hverju hún hafnar þeim athugasemdum sem almenningur eða stofnanir gera við uppdráttinn.
    Þá er eitt sem mig langar til þess að koma hér á framfæri sem ég held reyndar að sé í dönsku skipulagslögunum og það er ákvæði þar sem segir að sjónarmið minni hluta í sveitarstjórn skuli kynnt ekki síður en sjónarmið meiri hluta. Þ.e. eftir að sveitarstjórnin er búin að samþykkja skipulagsuppdrátt og leggur hann fram til kynningar, þá fylgir auðvitað greinargerð meiri hlutans og skipulagsuppdráttur er skipulagsuppdráttur meiri hlutans en jafnframt skuli á sama stað kynnt sjónarmið minni hluta sveitarstjórnar eins og þau eru bókuð í sveitarstjórn. Það er oft þannig að þegar skipulagsuppdráttur er afgreiddur frá skipulagsnefnd eða sveitarstjórn, þá bókar minni hlutinn, ef hann er ekki sammála þeim sjónarmiðum sem þar koma fram, sína skoðun. Ég veit að í dönsku skipulagslögunum var það a.m.k. þannig til skamms tíma að þessi sjónarmið skyldu kynnt samhliða sjónarmiðum meiri hlutans og ég vil koma því hér á framfæri að það væri eitthvað sem kannski mætti skoða.
    Um deiliskipulag er fjallað í 18., 19., 20., 21. og 22. gr. og þar er einmitt ákvæðið um hverfisvernd sem ég hef minnst á áður. Í 18. gr. finnst mér líka vanta einhverjar upplýsingar um það hvað beri að sýna á deiliskipulagsuppdrætti eða hvers beri að gæta á deiliskipulagsuppdrætti. Það er jafnvel enn minna um það hvað eigi að vera á deiliskipulagsuppdrætti heldur en þó er sagt um aðalskipulagið í 10. gr. hér að framan.
    Í 11. gr. núgildandi laga er fjallað um séruppdrætti, þ.e. deiliskipulagsuppdrætti, og þar segir m.a.:
    ,,Á séruppdrætti skal gerð nánari grein fyrir skipulaginu í einstökum atriðum, svo sem legu og breidd gatna, breidd akbrauta og gangstétta, lóðamörkum, staðsetningu bygginga, stærð þeirra og hæð. Þar má og kveða nánar á um gerð húsa og útlit eftir því sem ástæða þykir til.`` Þetta er nokkuð ítarlegt í núgildandi lögum en í rauninni er allt þetta farið miðað við frv. eins og það er hérna og það eina sem segir er:
    ,,Við gerð deiliskipulags skal taka sérstakt tillit til sérþarfa barna, fatlaðra og aldraðra eftir því sem aðstæður leyfa.``
    Finnst mér þetta nokkuð lítið sem lögin segja og óttast ég að það dragi nokkuð úr réttarstöðu almennings gagnvart sveitarstjórn ef lögin eru svona opin og almenns eðlis því að hvað hefur fólk til þess að standa á gagnvart sveitarstjórninni þegar upp kemur ágreiningur? Ég þekki einn þeirra sem samdi þetta frv. sem er núna formaður Sambands ísl. sveitarfélaga og mér finnst ég þekkja svolítið hans sjónarmið í þessu og get út af fyrir sig skilið þau. Hann horfir fyrst og fremst á þetta út frá sjónarmiðum sveitarstjórnanna en ég vil gjarnan horfa á þetta út frá sjónarhól íbúanna og ég veit og við vitum það öll að það kemur mjög oft til ágreinings út af þessum málum milli íbúa og sveitarstjórna.
    Um kynningu á deiliskipulagi segir að tillaga að deiluskipulagi skuli auglýst og höfð til sýnis í þrjár vikur og hagsmunaaðilum skuli boðið að gera athugasemdir við tillöguna innan ákveðins frests sem eigi skal vera skemmri en 5 vikur frá birtingu auglýsingar. Þ.e. þá eru það tvær vikur umfram þær þrjár sem fara í kynninguna. Mér finnst þessi tímamörk vera í knappara lagi. Það er líka annað sem ég vil benda á í þessu sambandi og það er að það er tvennt ólíkt að deiliskipuleggja í nýju hverfi eða nýlegu hverfi eða þá gömlu hverfi því að þar eru mjög ólíkir hagsmunir á ferðinni. Við vitum það að ágreiningsefnin koma langhelst upp þegar farið er að skipuleggja í gömlu hverfunum. Einhvern tíma vissi ég að uppi voru hugmyndir um að það ætti að vera eitthvað sem héti endurnýjunarsvæði eða eitthvað slíkt. Kannski ætti að skilgreina með einhverjum hætti viðkvæm svæði eins og e.t.v. er gert að hluta til hér um hverfisverndina en þá er líka spurning hvort það ætti að áskilja í lögum einhverja aðra meðferð deiliskipulagstillagna á þessum viðkvæmu svæðum eins og þeim svæðum sem hverfisvernd er á.
    Í 21. gr. kemur aftur þetta orðalag að sveitarstjórn skuli taka afstöðu til athugasemda. Þetta er mjög almennt orðalag og þyrfti kannski að vera ítarlegra, þ.e. sveitarstjórn skuli rökstyðja afstöðu sína, þannig að þeir sem gera athugasemdir viti hvers vegna þeirra athugasemdum er hafnað ef svo er.
    Fjallað er um svæðisskipulag og landsskipulag í nokkrum greinum og þarf í sjálfu sér ekki að hafa mikið fleiri orð um það, en ég mundi gjarnan vilja fá upplýsingar um hvernig mörkin eru á milli landsskipulags og svo byggðaáætlunar og eins hvernig hugmyndin sé að unnið sé að þessu svæðisskipulagi.
    Í 34. gr. er fjallað um skipulagsgjald og þar hefur orðið breyting á orðalagi því að það er talað um að skipulagsgjald skuli nema 3‰ af brunabótamati hvers mannvirkis. Áður var það hverrar nýbyggingar og ég mundi gjarnan vilja spyrja hvort þessi breytta skilgreining hafi í för með sér auknar tekjur eða breyti einhverju að öðru leyti varðandi skipulagsgjaldið.
    Í 35. gr. er fjallað um mannvirkjagerð og þar sé ég að ákveðin mannvirki eru undanþegin ákvæðum þessara laga, þ.e. götur, vegir, brýr, flugbrautir, holræsi, dreifikerfi orku, vatns og fjarskipta, hafnarmannvirki, virkjunarmannvirki o.s.frv. Þetta er auðvitað skiljanlegt að ýmsu leyti því að það eru opinberir aðilar sem yfirleitt hafa framkvæmdina með höndum og því hæg heimatökin fyrir sveitarstjórnir að hafa áhrif á það, en mér finnst þó að vissu leyti orka tvímælis að undanþiggja brýr frá þessari deiliskipulagsmeðferð vegna þess að við höfum dæmi um það sérstaklega hér í Reykjavík að brýr geta haft mjög mótandi áhrif á umhverfi sitt. Við sjáum það bæði með brúna yfir Bústaðaveginn, Höfðabakkabrúna, Gullinbrú, sem talsverðar deilur urðu um á sínum tíma, þ.e. þá umhverfismótun sem þar fór fram. Brýr eru oft það áberandi mannvirki í umhverfinu að mér finnst að það geti orkað tvímælis að undanskilja þær ákvæðum þessara laga.
    Ég ætla ekki að hafa mikið fleiri orð um þetta en þó langar mig til þess að spyrja hér út í 38. gr. frv. þar sem talað er um að telji einhver rétti sínum hallað með samþykkt byggingarnefndar eða sveitarstjórnar er heimilt innan mánaðar frá afgreiðslu sveitarstjórnar að skjóta málinu til úrskurðar þriggja manna nefndar sem skipuð skal einum fulltrúa frá Sambandi ísl. sveitarfélaga, einum fulltrúa umhvrn. og einum fulltrúa skipuðum af Hæstarétti. Þetta er sem sagt ef fólk telur að á rétt sinn sé hallað eftir að grenndarkynning eða nágrannakynning hefur farið fram. Nú veit ég að í Reykjavík sérstaklega hafa komið upp fjölmörg deilumál í byggingarmálum og þess vegna langar mig til þess að spyrja hvort menn hafi einhverjar hugmyndir um það hversu mörg mál færu til þessarar úrskurðarnefndar og þá ekki síst í Reykjavík, ef það væri horft yfir sl. ár, hversu mörg mál á ári hefðu ef lög þessi hefðu verið í gildi farið til þessarar úrskurðarnefndar miðað við þetta ákvæði og hvers lags mál það hefðu verið. Það getur verið erfitt að svara þessu hér í umræðunni en ég held að þessar upplýsingar þyrftu þá a.m.k. að koma fram í þeirri nefnd sem fjallar um frv.
    Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri. Ég tel margt jákvætt í þessu frv. en það þarfnist eigi að síður talsverðrar skoðunar, enda hefur mér sýnst eftir að hafa starfað í sveitarstjórn að þarna sé um mjög viðkvæman málaflokk að ræða og þarna séu mál á ferðinni sem mjög oft verði að deiluefni í sveitarstjórninni.