Skipulags- og byggingarlög

113. fundur
Mánudaginn 22. febrúar 1993, kl. 14:06:22 (5333)

     Páll Pétursson :
    Frú forseti. Út af fyrir sig fagna ég þessu frv. en ég tel rétt að ræða það og íhuga mjög gaumgæfilega því að hér er um flókið mál að ræða og mikilsvert að hrapa ekki að neinu. Það er auðvitað svo

að það er mikil nauðsyn á skipulagi og að því ber að stefna að koma viðunandi skipulagi á. En í þessu frv. er ég nokkuð hræddur við stofnanaveldi sem þarna er lagt til og ég vil biðja hv. nefndarmenn í umhvn. að athuga mjög gaumgæfilega þann þátt málsins hvort hér er ekki verið að setja upp bákn sem í fyrsta lagi er mjög flókið og seinvirkt og í sumum tilfellum e.t.v. óþarft --- og af þessu er náttúrlega líka mikill kostnaður. Ég veit að það er atvinna þarna í boði fyrir töluverðan hóp manna og það er út af fyrir sig gott á atvinnuleysistímum eins og við lifum núna en allt kostar þetta peninga og þar af leiðir að ég held að þarna þurfi að gæta hófs.
    Út af fyrir sig finnst húsbyggjendum, a.m.k. allmörgum, alveg orðið nóg um öll þau leyfi sem til framkvæmda þurfa. Hér er verið að fjölga þeim og í staðinn fyrir að byggingarleyfi var látið duga, þá þarf nú framkvæmdaleyfi líka o.s.frv. Þetta vonast ég eftir að nefndin athugi gaumgæfilega hvort hér sé um farsælasta fyrirkomulagið að ræða.
    Í 50. gr. þessa frv. er rætt um áritun hönnuða. Allir hönnuðir skulu árita teikningar sínar og taka þar með ábyrgð á að hönnun þeirra sé í samræmi við lög og reglugerðir um byggingarmál. Þetta er nú gott og blessað svo langt sem það nær. En ég held að það vanti í þetta kostnaðaráætlanir því það er húsbyggjanda eða þeim sem stendur fyrir verki eða á að kosta verk mjög mikilvægt að renna ekki blint í sjóinn með hvað verkið á að kosta. Um það eru ýmis dæmi og ekki gömul að kostnaðaráætlanir hafa farið gersamlega úr böndunum og ég held að það sé alveg óhjákvæmilegt að skerpa á og taka af tvímæli um að kostnaðaráætlanir þurfi að vera sæmilega gerðar og einhver beri ábyrgð á þeim, ekki bara verið að rétta fingurinn upp í loftið eins og komið hefur fyrir. Ég held að ástæða sé til að nefndin athugi það líka. Það er líka ástæða til að velta fyrir sér þeirri skipulagsbreytingu sem af því hlýst ef skipulagsstjórn ríkisins verður lögð niður og verkefnin færð til skipulagsstofnunar sveitarfélaganna. Ég held að þetta séu atriði sem þarf að skoða mjög nákvæmlega.
    Í 54. gr. er talað um að byggingarstjóri þurfi að vera ábyrgur einstaklingur og ég er ekki að draga úr því. Í sumum tilfellum kann þetta að vera gott skipulag sem hér er verið að kortleggja. Hins vegar hefur reynslan af a.m.k. sumum byggingarstjórum ekki verið slík að það sé verulega aðlaðandi embættisheiti á þessu starfi.
    Ég geri athugasemd við ákvæði III til bráðabirgða en þar greinir frá undanþágu varðandi varnarsvæðin. Mér finnst það óskaplegt klúðursfyrirkomulag að ekki skuli vera ein lög í landinu og að varnarsvæðin skuli tekin undan og eigi að vera áfram undir utanrrh. Ég tel að þetta ætti að vera á einum stað. Með tilliti til breyttra aðstæðna í heiminum og friðvænlegri þróunar á alþjóðavettvangi þá sé heldur engin ástæða til að íþyngja utanrrh. eða utanrrn. með málefnum eins og þessu. Þar fyrir utan má bæta því við að skipulags- og byggingarmál á vellinum hafa tekist miklu verr en annars staðar í landinu. Ég hygg að hæstv. umhvrh. sé mér sammála um að a.m.k. á Íslandi sé hvergi að finna ljótari þéttbýliskjarna en þann sem risið hefur innan Keflavíkurflugvallar, þ.e. íbúðarbyggð hersins og þau mannvirki sem þar eru. Þau stinga gjörsamlega í stúf við aðra byggð í landinu. Ég tel að af þessu sé svo slæm reynsla að full ástæða sé til þá þegar af þeirri ástæðu að breyta um.
    Ég vek athygli á hinum mikla kostnaði sem af frv. þessu hlýst. Það er náttúrlega umhugsunarefni hvort réttlætanlegt sé að hækka gjald á þá sem kosta mannvirkjagerð um 50%. Ég vek líka athygli á því að það er verið að víkka mjög út gjaldstofninn þar sem nú er hugmyndin að taka undir skipulagsgjald, vegi, hafnir, flugvelli, virkjanir og veitur. Ég held því að þetta allt þurfi umhugsunar við.
    Þetta mál fer að sjálfsögðu til umhvn. en hér er um mál að ræða sem heyrir líka sveitarfélögunum til beint og þar af leiðandi vildi ég stinga upp á að umhvn. sendi félmn. þetta til undirumsagnar því ég tel að skoðanir félmn. þurfi að koma fram í þessu máli.
    Mér finnst vanta mjög berlega í þetta frv. einn þátt, þ.e. náttúruverndarþáttinn. Varðveisluþáttinn vantar í allt of ríkum mæli í þetta frv. Við höfum á fyrirfarandi árum ekki tekið tillit til náttúruverndar við gerð mannvirkja og af því hafa unnist mikil hervirki í náttúrunni. Þar af leiðandi tel ég ástæðu fyrir hæstv. umhvn. að hugleiða vandlega hvort ekki sé ástæða til að skerpa þarna á og taka inn í frv. ákvæði sem lytu að þessum þætti.
    Þessi fáu orð læt ég duga. Ég á hvorki sæti í umhvn. né félmn. en vildi koma þessum ábendingum mínum á framfæri við þessa umræðu og á þessu stigi málsins.