Skipulags- og byggingarlög

113. fundur
Mánudaginn 22. febrúar 1993, kl. 14:17:30 (5334)

    Umhverfisráðherra (Eiður Guðnason) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka þeim hv. þm. sem tekið hafa þátt í þessari umræðu fyrir jákvæðar undirtektir við frv. og skal nú stuttlega víkja að nokkrum athugasemdum sem fram hafa komið um málið.
    Hv. 4. þm. Austurl., Hjörleifur Guttormsson, er reyndar fjarverandi vegna veikinda í dag að því er tilkynnt var af forsetastóli en ég mun víkja að örfáum atriðum sem hann nefndi hér.
    Hann tók undir meginstefnu frv. og kvað margt góðra gjalda vert. Hann ræddi nokkuð um kortagerð sem væri grundvöllur skipulags. Ég get tekið undir með honum að þar hefur gengið nokkuð seint vegna fjárskorts. Hins vegar tek ég ekki undir að sú vinna sé mjög í skötulíki því það er hún alls ekki. Það er unnið núna að mjög umfangsmiklu verkefni í stafrænni kortagerð, þ.e. að taka upp nútímatækni við kortagerðina. Þar hefur verið efnt til mjög víðtæks samstarfs nánast allra þeirra opinberu aðila á Íslandi sem þurfa að nota kort við vinnu sína og þeir eru margir. Þarna hefur tekist mjög heilladrjúg samvinna sem á

eftir að spara mikla fjármuni í framtíðinni. En það er rétt að þetta mætti ganga greiðar og þarna mætti vera meira fjármagn til að vinna úr.
    Í öðru lagi nefndi hann kortlagningu og kort af sjávarsvæðunum við landið og rannsóknum þar. Ég minni á að þar er nú á döfinni eitt stærsta og viðamesta rannsóknarverkefni sem verið er að fást við hér, rannsóknir á botndýrum á landgrunninu við Ísland. Það er verkefni sem tekur allmörg ár og er eitthvert viðamesta verkefni í grunnrannsóknum sem ráðist hefur verið í. Þar er um að ræða samvinnu margra stofnana. Við fáum þar atbeina og aðstoð m.a. frá nágrönnum okkar Norðmönnum og Færeyingum og þar hefur vel til tekist.
    Hv. þm. nefndi einnig sérstaklega dæmi um frágang opinberra stofnana sem önnuðust framkvæmdir, bæði í dreifbýli og þéttbýli, og nefndi sérstaklega frágang Póst- og símamálastofnunar þar sem unnið hefði verið að lagningu ljósleiðara. Nú veit ég ekki hvaða dæmi hann átti sérstaklega við í þessu tilviki en hitt veit ég að fyrir allmörgum árum þegar verið var að leggja ljósleiðarann yfir Hellisheiði var farin leiðin milli hrauns og hlíðar, þ.e. undir Skarðsmýrarfjallinu. Ég átti þar leið um og þar var frágangur ekki sem skyldi. Ég hafði samband við Póst- og símamálastofnun sem upplýsti að frágangi væri ekki lokið. Nokkru síðar var allt komið í gott lag og ég hygg einmitt að þessi stofnun kosti kapps um að ganga vel um og ganga vel frá, a.m.k. þar sem ég þekki. Er þá auðveldust og hægust leiðin að hafa beint samband.
    Hv. þm. vék einnig að skipulagi á Miðhálendinu. Ég endurtek það sem ég sagði um það mál í minni framsögu: Þar hefur ákveðin tillaga verið send til umsagnar til þeirra sveitarfélaga sem liggja að Miðhálendinu. Umsagnir um hana eru sem óðast að berast og framhald málsins verður ákveðið í ljósi þeirra undirtekta.
    Tveir hv. þm. Kvennalistans hafa talað við þessa umræðu og kom nokkuð á óvart að þar var verulegur áherslumunur á. Raunar á hvorugur umræddra þingmanna sæti í þeirri nefnd sem hér um mun fjalla en hv. þm. Anna Ólafsdóttir Björnsson taldi þessu frv. heldur til kosta að þar væri sveitarfélögunum fengið meira vald sem hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir taldi hins vegar ekki af hinu góða, hafi ég skilið mál hennar rétt.
    Hv. þm. Anna Ólafsdóttir Björnsson talaði nokkuð um verndun gamalla húsa. Hún heyrir reyndar undir þjóðminjalög. Hv. þm. Páll Pétursson nefndi þetta atriði einnig. Það má vel vera að í þessu frv. ætti að koma meira inn á verndunarþáttinn en gert hefur verið, en ákvæði um þetta er að finna í öðrum lögum. Það gæti vel verið að það ætti að flytja þau ákvæði yfir í þessi lög. Ég beini því til nefndarinnar að taka það til umhugsunar.
    Hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir fjallaði allítarlega um þetta mál, enda er hún málunum kunnug. Hún setti fram ýmsar vel grundaðar athugasemdir sem ég hygg að nefndin ætti að taka til athugunar. Hún beindi sömuleiðis nokkrum spurningum til mín og mun ég leitast við að svara þeim en kannski ekki í sömu röð og þær voru fram bornar.
    Varðandi 12. gr., þar sem breytt er fresti almennings til að koma á framfæri athugasemdum, þá er það rétt sem hún vitnaði til að í athugasemdunum segir að sé gert til að flýta nokkuð meðferð málsins þó það sé náttúrlega ekki fullkomin trygging fyrir að svo verði. Hins vegar sé ég ekki að neitt sé gengið á rétt almennings þó þessi frestur sé styttur úr átta vikum í sex. Ég held að það sé bitamunur en ekki fjár og sé í rauninni minni háttar mál.
    Hún spurði með tilvísan til 38. gr. hve mörg mál af þessu tagi kæmu til úrskurðar í umhvrn. á ári hverju. Ég hef ekki nákvæma samantekt yfir það en mér sýnist að þau gætu verið á bilinu 20--30. Þau eru mjög ólík. Mörg þeirra eru það sem einfaldlega mætti kalla nágrannakrytur í sambýlishúsum, fjölbýlishúsum. Það eru deilur um girðingar. Það eru deilur um atriði sem utanaðkomandi mönnum sýnast stundum býsna smá en geta auðvitað verið stór í augum þeirra og hugum sem deila. Þessi mál eru sem sagt mjög ólík.
    Hún spurði um hugtak sem er að finna hjá Reykjavíkurborg þar sem talað er um borgarvernd. Það hugtak hefur verið smíðað hjá skipulagsstofnun Reykjavíkurborgar og er notað í aðalskipulagi Reykjavíkur um útivistarsvæði. Ég hef svo sem ekki mikið meira um það að segja. Borgarvernd hefur enga stoð í lögum eins og nú háttar.
    Hv. þm. spurði um muninn á byggðaáætlun og landsskipulagi. Byggðaáætlun er fyrst og fremst með áherslu á efnahagsþættina en landsskipulag með áherslu á landnotkunina.
    Þá var spurt um svæðisskipulag, hver ætti að gera slíkt. Ég hygg að það verði í framkvæmd þannig að sveitarfélögin ráði ráðgjafa í samráði við Skipulagsstofnun ríkisins.
    Hv. þm. gerði einnig deiliskipulag og hverfisvernd að umræðuefni. Það er rétt að til þess er ætlast að leita skuli staðfestingar deiliskipulags á svæði sem hverfisvernd tekur til. Að slíkt skuli háð sérstakri staðfestingu tengist því að það geti verið um íþyngjandi aðgerð að ræða gagnvart eigendum fasteigna og þá þarf auðvitað að gera það að mjög vel athuguðu máli. Raunar má ætla að það sé í þágu sveitarfélags að leita staðfestingar í slíkum tilvikum. Eins er eðlilegt að staðfesta deiliskipulag ef um önnur atriði, t.d. eignarréttarlegs eðlis, er að ræða. Hitt er svo meginregla, sem hér er gert ráð fyrir, að ekki þurfi að leita staðfestingar á deiliskipulagi svo fremi sem um er að ræða venjulega útfærslu á aðalskipulagi. Reynslan fram að þessu hefur hins vegar sýnt að í dag er leitað staðfestingar á deiliskipulagi þegar ætla má að um einhvers konar ágreining geti verið að ræða.

    Hv. þm. Páll Pétursson kvaðst hræddur við að hér yrði um einhvers konar stofnanaveldi að ræða. Það getur vel verið en ég vona þó að hans ótti sé ástæðulaus því hér er verið að reyna að draga úr miðstýringu og færa meira vald til sveitarfélaganna. Menn geta svo haft ólíkar skoðanir á því hvort sveitarfélögin eru þess umkomin að hafa það vald og beita því. Þau eru ákaflega misjafnlega undir það búin. Það skal viðurkennt.
    Hann gerði einnig að umræðuefni ákvæði III til bráðabirgða um varnarsvæðin. Um það hefur mönnum sýnst ýmislegt á ólíkum tímum. Þetta ákvæði hefur oft orðið að deiluefni. Stundum hefur afstaða flokka til þess mótast mjög af því hver hefur setið í embætti utanrrh. Ég hygg að við hv. þm. Páll Pétursson, og raunar fleiri í þessum sal, munum ýmis dæmi um að umræðan hefur tekið ýmsum vendingum eftir því. Ég ætla ekki að segja margt um þetta. Þetta er í samræmi við þá venju sem verið hefur að mál sem snerta varnarsvæðin heyra undir utanrrh. Ég tek hins vegar ekki undir að íbúðarsvæði sem hafa verið skipulögð innan vallarsvæðisins stingi sérstaklega í stúf við önnur mannvirki hér á landi og bendi á að nýrri íbúðarhverfin sem byggð hafa verið á síðustu árum eru snoturlega úr garði gerð. Margt hefur sjálfsagt tekist illa í skipulagsmálum á þessu svæði á árum áður, enda horfa menn kannski á skipulagsmálin í svolítið öðru ljósi nú en gert var fyrir 25 árum á þessu svæði. En ég hygg að varðandi þau svæði sem byggst hafa á síðari árum og eru sýnilegust þeim sem fara veginn að Leifsstöð t.d. hafi tekist heldur bærilega til. Það er kannski spurning um smekk og um smekk verður ekki deilt.
    Ég ítreka, virðulegi forseti, þakkir til þeirra manna sem tekið hafa þátt í þessari umræðu og góðar undirtektir þeirra og tek undir með hv. þm. Páli Péturssyni að rétt er og eðlilegt, og það hlýtur hv. umhvn. að gera, að senda þetta mál til umsagnar félmn.