Skipulags- og byggingarlög

113. fundur
Mánudaginn 22. febrúar 1993, kl. 15:04:18 (5344)

     Umhverfisráðherra (Eiður Guðnason) (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Ég vil aðeins andmæla því að verið sé að draga úr áfrýjunarmöguleikum almennings eða rétti fólks til að leita réttar síns með þessu frv. Það er rangt. En í staðinn fyrir að það sé ráðherra og þá starfsmenn ráðuneytisins eftir atvikum sem undirbúa og kveða upp úrskurði er gert ráð fyrir að það verði þriggja manna nefnd þar sem er einn fulltrúi ráðuneytisins, annar fulltrúi Sambands ísl. sveitarfélaga og þriðji fulltrúinn tilnefndur af Hæstarétti. Ég held að þetta ákvæði sé til bóta. Ég held að það sé síður en svo verið að draga úr möguleikum almennings á því að sækja sinn rétt í þessu efni.
    Ég ætla hins vegar ekki, virðulegur forseti, að blanda mér verulega í þá ádeilu sem hv. þm. hélt uppi á borgarstjórnarmeirihutann í Reykjavík. Ég bendi bara á að í þessu efni held ég að það eigi að gilda sömu reglur um Reykjavík og önnur sveitarfélög. Ég nefni líka hér að það sætti ámæli á hinu háa Alþingi þegar ég flutti frv. á sínum tíma um skipulags- og byggingarmál á Miðhálendinu. Þá var talað um það sem sérstaka miðstýringaráráttu og farið mjög hart gegn því máli. Hér er verið að flytja vald til sveitarfélaganna. Þá sætir það líka ámæli. Það er vandsiglt í þessum efnum.
    Ég held að hér sé verið að velja rétta leið að fela sveitarfélögunum aukið vald og ef borgararnir í Reykjavík kjósa sér meiri hluta úr þeim flokki sem þingmaðurinn ræddi svo mjög um áðan þá er það partur af lýðræðinu. Ég segi svo sem ekki margt meira um þennan hluta ræðu hv. þm. Svavars Gestssonar. Hann á kannski frekar heima á borgarstjórnarfundi í Reykjavík en á Alþingi.