Skipulags- og byggingarlög

113. fundur
Mánudaginn 22. febrúar 1993, kl. 15:06:42 (5345)

     Svavar Gestsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. umhvrh. fyrir hans andsvar. Það var svo sem eins og við var að búast og ástæðulaust að gagnrýna það á neinn hátt nema ég vil segja að ég tel að það geti verið til bóta að úrskurðarvald verði hjá nefnd. Ég tel það geta verið til bóta. Ég hef aldrei verið hrifinn af því kerfi sem hér hefur verið og var sérstaklega í félmrn. að ráðherra ætti að úrskurða svona hluti í einstökum atriðum. Ég þekki það og lenti mjög oft í að þurfa að úrskurða um garðhýsi og girðingar án þess að þekkja mjög mikið til þeirra mála. Ég tel að það sé þrifnaður að því að það sé á höndum annarra aðila.

    Ég vil hins vegar bara endurtaka það sem ég var að reyna að segja áðan að aðstaða okkar, íbúa Reykjavíkur, er allt önnur en íbúa allra annarra sveitarfélaga af því að við erum svo mörg og búum við það kerfi að borgarstjórn Reykjavíkur hefur ekki verið tilbúin til að skipta borginni niður í stjórnsvæði, eins og oft hafa verið gerðar tillögur um, og skapa þannig meiri nánd á milli íbúanna og stjórnkerfisins á hverjum tíma. Þess vegna horfir það að flytja vald til sveitastjórna allt öðruvísi við okkur en mörgum öðrum íbúum landsins. Það er þannig. Ég var í raun með komu minni í ræðustól ekki síst að hvetja hæstv. umhvrh. og hv. formann umhvn. til að huga alveg sérstaklega að réttindum okkar íbúa Reykjavíkur í sambandi við skipulagsmál, ekki síður og jafnvel enn frekar en annarra sveitarfélaga.