Skipulags- og byggingarlög

113. fundur
Mánudaginn 22. febrúar 1993, kl. 15:19:05 (5349)

     Guðrún Helgadóttir :
    Hæstv. forseti. Ég ætla að gera örfáar athugasemdir. Ég átti sæti í nefndinni frá 1989 sem skilaði til hins háa Alþingis frv. sem nú hefur verið breytt tvisvar. Ég skal ekki endurtaka það sem þegar hefur komið fram. Ég átti þess ekki kost að vera við upphaf umræðunnar svo ég kem sjálfsagt að einhverjum endurtekningum. Bæði í þeirri nefnd sem við sátum í og í hinum voru miklar umræður um stjórn skipulags- og byggingarmála. Ég er eins og aðrir sem hér hafa tekið til máls mjög ósammála þeirri niðurstöðu sem hefur orðið og kemur mér satt að segja á óvart þar sem sama fólkið vann með nefndinni. Nægir að nefna skipulagsstjóra ríkisins, Stefán Thors, sem ég minnist ekki að hafi verið ósammála okkur um það fyrirkomulag, sem við gerðum ráð fyrir, að deiliskipulag teldist ekki samþykkt fyrr en það hefði verið samþykkt bæði í sveitarstjórn og af skipulagsstjóra eða Skipulagsstofnun.
    Ég tek undir það sem hv. þm. Reykvíkinga hafa sagt, mér stendur ógn af því alveldi sem borgarstjórn Reykjavíkur kemur til með að hafa í þessum málum. En ég skal ekki endurtaka það.
    Ég vil aðeins benda á að í 7. gr. frv. þykir mér einnig að hlutur Skipulagsstofnunar sé orðinn óljósari, svo vægt sé til orða tekið. Af þeirri upptalningu sem þar er um hlutverk Skipulagsstofnunar ríkisins er afar óljóst hvert vald þeirrar stofnunar er í raun og veru. Ég bendi á c-lið þar sem segir: ,,Að hafa eftirlit með störfum samstarfsnefnda um svæðisskipulag.`` Ég á erfitt með að sjá ef Skipulagsstofnun líkar ekki það sem er að gerast hvaða vald stofnunin hefur til að gera eitt eða annað. Mér sýnist að hún geti lítið annað gert en láta eitthvert álit í ljós sem enginn er skyldugur að fara eftir. Ég vildi spyrja ráðherra um þetta. Nú kann að vera að einhver annar hafi gert það og þá bið ég afsökunar á því af því ég heyrði ekki upphaf umræðunnar. Ég held að þetta verði að vera alveg skýrt og eins það sem stendur í e-lið: ,,Að láta úrskurðanefnd í té umsagnir um ágreiningsmál á sviði skipulags- og byggingamála . . .  `` Hver sem er getur auðvitað látið í ljós álit sitt og svo fylgst með en það er afar erfitt að sjá að stofnunin hafi í raun og veru eitthvert umboð til að fylgja málum eftir svo eitthvert gagn sé að.
    Mér líkar það illa hversu mikið vald er lagt í 36. gr. yfir til þeirra sem koma til með að semja byggingarreglugerð. Ég held að ákveðin atriði þyrftu að vera í lögunum. Ég fagna því að þar er þó ýmislegt nefnt sem kveða skal nánar á um. Sérstaklega fagna ég að þar er minnst á umhverfi bygginga og gróður og frágang lóða. Fyrir nokkrum árum flutti ég a.m.k. einu sinni, ef ekki tvisvar, frv. til laga um skyldu opinberra aðila til þess að láta ganga frá og samþykkja teikningar af umhverfi ekki síðar en af byggingunni sjálfri og fékk þá loforð frá þáv. hæstv. félmrh. um að það skyldi koma fram frv. um þetta efni en það gerðist aldrei. Þó ber að fagna því að við sjáum það nú að a.m.k. opinberir aðilar ganga betur fram í því en áður var að ganga frá lóðum um leið og gengið er frá byggingunni. Við munum öll þann subbuskap sem vissulega var fyrir hendi víðast hvar varðandi frágang lóða þar sem á hefur orðið mikil breyting á síðustu árum.
    Í nefndinni sem ég sat í og skilaði frv. 1989 þarf ekki að taka fram að ég var mjög ósátt við III. kafla ákvæða til bráðabirgða eða það atriði sem þar er að finna í núverandi frv. Ég átti afar erfitt með að sætta mig við að varnarsvæðið yrði undanskilið öðrum svæðum landsins en fékk ekki þar við ráðið. Ég sé að menn eru enn á því að það skuli vera annað land og heyra undir utanrrn.
    Að öðru leyti er ég mjög sammála því sem hér hefur verið sagt og ég heyrt. En það er eitt atriði sem ég held að enginn hafi komið inn á sem mig langar aðeins að fá frekari upplýsingar um hjá hæstv. umhvrh. Ef við lítum á 27. gr., sem heitir Landmælingar og kortagerð, segir þar: ,,Mæla skal og kortleggja byggð og nærliggjandi svæði eins og ástæða þykir til vegna skipulagsvinnu.``
    Nú var það mjög rætt í nefndinni sem ég sat í hversu lítið markvisst samræmi væri milli Landmælinga Íslands og yfirvalda skipulagsmála. Ef við flettum upp í Lagasafni og lesum um hlutverk Landmælinga Íslands segir þar í 9. gr. að Landmælingar Íslands láti gera til fjögurra ára í senn áætlun um verkefni stofnunarinnar og fjölmörg ákvæði sem þeirri stofnun er falið að gera. Nú heyrðum við á starfsmönnum þar að þeim þætti mjög svo þurfa að reyna að samræma kortagerð í landinu. Það kom fram að til þess vantar mikið fé og menn sögðu auðvitað þar, sem engum þarf að koma á óvart, að ekkert vit væri í umhverfismálum í landinu fyrr en búið væri að gera vísindalegt kort af landinu. Ég minnist þess að þá kom í ljós að þeir, bandaríski herinn, sem eru á því svæði landsins sem menn vilja endilega halda utan garðs hafa yfir að ráða mjög vönduðu korti af öllu landinu. Nákvæmlega því korti sem okkur vantar. En þegar ég spurðist fyrir um hvers vegna ekki væri hægt að nýta þá vinnu var svarið eins og vænta mátti að þetta væri kort sem væri gert með tilliti til hernaðar. En þeir hjá Landmælingum ríkisins töldu að af þessari vinnu væri feikilegur fengur ef það fengist laust.
    Nú veit ég ekki hvort hæstv. umhvrh. hefur eitthvað kannað þetta mál frekar, en ég minnist þess að í nefndinni vakti þetta mikla athygli okkar að þetta mikla verk, sem kostar hundruð milljóna að gera, skyldi ekki fáanlegt heldur yrði að vinna það allt aftur ef af yrði. Nú er hins vegar ljóst að Landmælingar Íslands búa yfir mikilli þekkingu og héldu m.a. sýningu fyrir erlenda aðila, mig minnir í fyrravetur, sem var mjög gaman að skoða og ljóst að töluverð tækniþekking er í landinu í þessum málum, bæði hjá Landmælingum ríkisins og einkafyrirtækjum sem hafa unnið fyrir stjórnvöld að ákveðnum verkefnum.
    Nú hafa Landmælingar ríkisins verið fluttar undir umhvrn. og ég vildi spyrja hæstv. ráðherra hvað menn séu að hugsa í þessum efnum. Það var talað um að gerð korta væri beinlínis undirstaða þess að hægt væri að vinna að frárennslismálum og öllum ræktunarmálum og hverju sem væri. Það væri verið að byrja á öfugum enda að vinna að slíku án þess að fyrir lægju vönduð kort. Þess vegna vildi ég, og sú var ástæðan fyrir að ég kom í ræðustól, inna ráðherra eftir hvað menn eru í raun og veru að hugsa varðandi Landmælingar Íslands. Það er ljóst að sú stofnun á í samkeppni við stofnanir, eða a.m.k. eina stofnun sem mér er kunnugt um, sem hefur aflað sér mikils tækjakostnaðar sem íslenska ríkið hefur ekki talið sig hafa efni á að kaupa. Mig langaði að heyra hvernig þessu samstarfi yrði háttað um kortagerð á vegum skipulagsstjórnar og hins vegar Landmælinga Íslands.
    Að öðru leyti held ég að þetta frv. sé betra en ekki en ég vil biðja hv. umhvn. sem við málinu tekur að íhuga verulega annars vegar hlut hinna stóru bæjarfélaga eins og Reykjavíkur og hins vegar minni byggðarlaga um land allt.