Ályktanir Vestnorræna þingmannaráðsins 1992

113. fundur
Mánudaginn 22. febrúar 1993, kl. 15:39:17 (5352)

     Flm. (Árni Johnsen) :
    Virðulegi forseti. Tillaga þessi er flutt til að koma á framfæri við Alþingi þeim tillögum sem samþykktar voru á fundi Vestnorræna þingmannaráðsins á Akureyri sl. sumar í júnímánuði. Sú venja hefur skapast að leggja ályktanir Vestnorræna þingmannaráðsins fyrir Alþingi og fá samþykki Alþingis fyrir tilmælum til ríkisstjórnar um að vinna að framgangi viðkomandi mála. Þessi tillaga hefur tvímælalaust styrkt starf ráðsins sem hefur verið að þróast á undanförnum árum og gefið því aukna þýðingu.
    Ályktanir Vestnorræna þingmannaráðsins eru margar, að vísu ýmis gamalkunn verkefni og viðfangsefni úr hinu vestnorræna samstarfi, svo sem um aukin samskipti og aukna verslun milli landanna, samvinnu í samgöngu- og ferðamálum og upplýsingamiðlun sem lýtur að almennum lifnaðar- og atvinnuháttum í löndunum og sögulegar áherslur eins og til að mynda að skrá sjávarútvegssögu og samskiptasögu vestnorrænu þjóðanna á sviði fiskveiða. Jafnframt má nefna tillögu um endurbyggingu sögufrægra húsa í Bröttuhlíð á Grænlandi.
    Nánari grein verður gerð fyrir störfum ráðsins síðar á þessum vetri í árlegri skýrslu Íslandsdeildarinnar til Alþingis. Þau atriði sem hæst bar á góma og afgreidd voru á umræddum fundi þingmannaráðsins á Akureyri voru í fyrsta lagi ályktun um að landsstjórnir Færeyja, Grænlands og ríkisstjórn Íslands taki upp samstarf um gagnasöfnun varðandi sameiginlega sjávarútvegssögu vestnorrænu þjóðanna. Það er lagt til að sérstakur gaumur verði gefinn að gögnum um fiskveiðar Færeyinga við Grænland og Ísland við lok 19. aldar og fram á 20. öld. Á þessum tíma voru veruleg umsvif þessara þjóða og þá sérstaklega Færeyinga á Íslandsmiðum, bæði með eigin flota og einnig sem þátttakendur á fiskveiðiflota Íslendinga sjálfra.
    Það er ályktun um að landsstjórnir Færeyja og Grænlands og ríkisstjórn Íslands styrki samstarf landanna um upplýsingamiðlun og kynningu á umsvifum fiskveiðiþjóðanna við Norður-Atlantshaf og að stefna beri að þátttöku í þessu samstarfi frá Noregi og þeim ríkjum Kanada þar sem lífshættir eru svipaðir. Það hefur sýnt sig á undanförnum árum að það er rík ástæða til þess að efla samskipti og samstarf á milli þjóðanna á norðurhveli jarðar og þétta netið í þeim hagsmunamálum sem viðkomandi þjóðir eiga sameiginleg og stuðlar það bæði að hagkvæmni og svo áróðurslegri stöðu sem hefur sýnt sig að skipti miklu máli.

    Það er fjallað um ályktun þess efnis að landsstjórnir Færeyja og Grænlands og ríkisstjórn Íslands láti athuga með hvaða hætti sé unnt að greiða fyrir samskiptum og örva viðskipti milli landanna. Það er nefnt í því sambandi að fara yfir skattalög og viðkomandi reglugerðir, tollalög og viðkomandi reglugerðir, gjaldskrár fyrir póstflutninga og símaþjónustu, gjaldskrár fyrir vöruflutninga milli landanna og fyrir umskipanir og önnur atriði varðandi framkvæmd þjónustu opinberra aðila og gjaldskrá yfirfarin. En í rauninni er mikill misbrestur á að þarna sé samræmi í hlutum og menn sitja ekki við sama borð eftir því í hvaða landi þeir eru. Til að mynda hefur póstþjónustan á Íslandi og tollþjónustan tekið ákveðin gjöld af sjómönnum annarra vestnorrænna ríkja, gjöld sem eru umtalsverð, umtalsverðar álögur á að öðru leyti hefðbundnar póstsamgöngur. Það er mikilvægt að fara yfir þessa þætti þannig að ekki séu óþarfa agnúar og þröskuldar á eðlilegum samskiptum þessara grannþjóða.
    Það er ályktun um að landsstjórnir Færeyja og Grænlands og ríkisstjórn Íslands taki upp virkara samstarf á sviði samgöngu- og ferðamála í því skyni að bæta samgöngur innan vestnorræna svæðisins og tengsl þess út á við ásamt því að styrkja ferðamannaþjónustu sem atvinnugrein á vestnorræna svæðinu.
    Einnig er lagt til að kannaðir verði möguleikar þess að komið verði á föstum skipaflutningasamgöngum milli vestnorræna svæðisins og Stóra-Bretlands. Ferðamannastraumur um Ísland, Færeyjar og Grænland hefur vaxið jafnt og þétt um árabil. Að vísu hefur ferðamannastraumur til Grænlands aukist talsvert í gegnum Ísland, þ.e. erlendir ferðamenn sem koma til Íslands hafa lagt lykkju á leið sína og heimsótt Grænland í leiðinni og þannig hafa samgöngur aukist á milli þessara landa. Bakslag hefur komið í það upp á síðkastið og því mikil ástæða til þess að skoða málin vel og liðka til þannig að það sé eðlilegt rennsli og eðlilegir möguleikar í ferðamannaþjónustu þessara þriggja eyþjóða sem eiga auðvitað verulegra hagsmuna að gæta varðandi aukningu í ferðamannaþjónustu. Því í öllum löndunum þremur hefur verið lögð mikil áhersla á það um nokkurt árabil að byggja upp ferðamannaþjónustuna bæði með fjárfestingum mannvirkja, gistihúsa og einnig með öðrum leiðum varðandi samgöngur, vegi og annan tækjabúnað sem þarf til þess að menn komist eðlilega á milli staða.
    Það hefur lengi verið uppi í norrænni samvinnu að leggja þyrfti mun meiri rækt við eflingu samgangna á milli þessara landa bæði á sjó og lofti, ekki hvað síst á sjó. Á sínum tíma voru uppi hugmyndir um stórt farþegaskip eða að stór ferja gengi á milli Færeyja, Íslands, Grænlands og annarra Norðurlanda eða einhverra Norðurlandanna sem tengjast meginlandi Evrópu beint. Þessu var því miður vikið til hliðar en hlýtur að koma upp á einhverjum þeim tíma sem menn vilja í norrænni samvinnu leggja alvörurækt við samgöngur og samskipti við þessi þrjú lönd í norðurjaðrinum. En það þarf auðvitað að fylgja mikil ákveðni til þess að hrinda slíku fram.
    Það er ályktun í þessari tillögu um að landsstjórnir Færeyja og Grænlands og ríkisstjórn Íslands standi að gerð aðgengilegs upplýsingaefnis um vestnorrænu löndin á færeysku, grænlensku og íslensku. Þetta er auðvitað gert fyrst og fremst til þess að styrkja samkennd og þekkingu þessara þriggja þjóða hverrar á annarri, ekki hvað síst með tilliti til ýmissa breytinga í þróun á sviði tækni og atvinnu og auðvitað er þetta ætlað fyrst og fremst til þess að þétta þá menningarstrauma sem kunna og eiga að liggja saman í farvegi þessara þriggja þjóða.
    Þá er jafnframt vakin athygli á því að stuðla beri að því að ráðherranefnd Norðurlanda breyti reglum þeim sem gilda um styrki til nemendaskipta og námsferða innan Nordplus junior kerfisins þannig að það taki til nemendaskipta og námsferða milli allra vestnorrænu ríkjanna innbyrðis. Þessar reglur eru þannig nú að þær gilda eingöngu á milli landa, þ.e. Íslendingar geta farið í nafni Nordplus junior kerfisins bæði til Grænlands og Færeyja svo að dæmi sé nefnt en Færeyingar geta farið til Íslands en ekki til Grænlands. Það hefur þó sýnt sig að það er rík ástæða til þess að opna þetta þannig að það sé greiður aðgangur á milli landanna allra án tillits til þess að Grænlendingar og Færeyingar eru hvorir tveggja undir handarjaðri Danaveldis.
    Það er ályktun um að landsstjórnir Færeyja og Grænlands og ríkisstjórn Íslands fylgi eftir því samstarfi sem var tekið á vestnorrænu ráðstefnunum þremur sem haldnar voru sl. sumar, þ.e. ráðstefnan um jafnréttismál sem haldin var á Íslandi, en um 300 konur frá þessum þremur löndum komu saman á ráðstefnu á Egilsstöðum sem þótti takast allvel. Síðan var haldin umhverfisráðstefna í Qaqortoq á Suðvestur-Grænlandi þar sem fulltrúar Íslendinga og Færeyinga sóttu Grænlendinga heim og fjölluðu um umhverfismál þessara ríkja allra. Ástæða er til þess að skoða samræmingu og áhersluatriði sem menn telja að megi á margan hátt samræma í eðlilegum framgangi mála á því sviði.
    Þá var þriðja ráðstefnan í nafni Vestnorræna þingmannaráðsins um æskulýðsmál í Færeyjum í ágúst sl. og var þar fjallað um þá þætti mála almennt í þessum þremur löndum.
    Þá má nefna ályktun frá þingmannaráðinu um að unnið verði að því sameiginlega að trygging fáist gegn því að hergögnum verði sökkt í sæ á því mikilvæga nytjasvæði sem þjóðirnar allar búa við.
    Það er ályktað um að landsstjórnir Færeyja og Grænlands og ríkisstjórn Íslands stuðli að samvinnu á sviði tölvumála á vestnorræna sviðinu en í þessum efnum er eins og allir vita hröð þróun. Tillagan byggir á því að kannað sé hvort ekki sé hagkvæmt að löndin þrjú vinni saman að ákveðnum þáttum þessa sviðs og að um leið sé kannað hvernig hægt sé að samræma tölvunýtingu fyrir þessi þrjú lönd.
    Þá er ályktun um að landsstjórnir Færeyja og Grænlands og ríkisstjórn Íslands láti endurbyggja bæ Eiríks rauða í Bröttuhlíð á Grænlandi og Þjóðhildarkirkju á sama stað. Endurbyggingin verði til minningar um 500 ára búsetu norrænna manna á Grænlandi og verði þannig í rauninni merkilegt framlag sem tengist upphafi búsetu norrænna manna á Grænlandi og tengingu Grænlendinga við aðrar norrænar þjóðir.
    Það liggur nokkuð ljóst fyrir að ef menn vissu á Íslandi hvar bær Ingólfs Arnarsonar hefði staðið nákvæmlega og þær rústir væru til væri búið að byggja þann bæ upp. Það liggur jafnframt fyrir að ef menn vissu í Færeyjum hvar bær landnámsmannsins Gríms Kambans hefði staðið og rústirnar væru til væri búið að byggja þann bæ upp. Það er klárt og kvitt hvar bær Eiríks rauða stóð og rústirnar eru við lýði. Það er jafnframt ljóst hvar Þjóðhildarkirkja stóð skammt frá bæ Eiríks rauða, kirkja konu Eiríks rauða. ( Forseti: Ég verð að tilkynna hv. þm. að ræðutíma hans er lokið og biðja hann um að ljúka ræðu sinni.) Já, það vill svo til, virðulegi forseti, að það er mjög auðgert. Það eru eftir nokkrar sekúndur af ræðunni. ( Forseti: Það er ekki spurning um sekúndur. Samkvæmt þingsköpunum er tímanum lokið og ég bið hv. þm. að ljúka ræðu sinni.) Þetta er málið sem um er að ræða, virðulegi forseti, og að lokinni frekari umræðu um þessa tillögu legg ég til að málinu sé vísað til utanrmn.