Verðbréfaviðskipti

114. fundur
Þriðjudaginn 23. febrúar 1993, kl. 13:49:00 (5360)

     Jóhannes Geir Sigurgeirsson :
    Virðulegur forseti. Ég skrifaði undir nál. um þau þrjú mál, 2., 3. og 4. , sem nú eru á dagskrá án

fyrirvara og þyrfti þess vegna e.t.v. ekki að taka til máls en ég ætla þó að fara örfáum orðum um þennan málaflokk.
    Viðskipti með verðbréf og verðbréfafyrirtæki er staðreynd á íslenskum fjármagnsmarkaði og þess vegna er afar nauðsynlegt að löggjafinn á hverjum tíma setji um þetta skýrar leikreglur. Vinna okkar í efh.- og viðskn. hefur miðað að því að þessari starfsemi séu sett skýr ákvæði í lög og að verulegu leyti er stuðst við þá reynslu sem nú þegar hefur fengist af slíkri starfsemi.
    Það er rétt að þessi löggjöf tengist að nokkru samningnum um hið Evrópska efnahagssvæði en að mínu mati eingöngu á jákvæðan hátt sem sést m.a. af því að nefndin er sammála um alla efnisþætti málsins, sammála um að þau níu atriði, sem við tökum upp í okkar löggjöf um þessi atriði og tengjast EES, séu öll til bóta. Ég taldi þess vegna ekki þörf á að hafa neinn fyrirvara á hvað það snertir.
    Síðan getum við náttúrlega velt vöngum yfir því hvaða þýðingu löggjöf á þessu sviði hefur fyrir þróun vaxtamála hjá okkur í dag. Þar sýnist sjálfsagt sitt hverjum en ég er þeirrar skoðunar að það þurfi miklu markvissari umræðu um vaxtamálin en hér hefur verið undanfarið. Það á sérstaklega við af hálfu hæstv. ríkisstjórnar.
    Hæstv. ríkisstjórn sagði okkur á fyrstu dögum síns valdaferils að ef menn kæmu einhverjum böndum á ríkisfjármálin þá kæmi nánast allt annað í sjálfu sér í vaxtamálum. Annað hefur komið á daginn. Það skal viðurkennt að halli á ríkissjóði hefur minnkað. Á sama tíma hefur almenn spenna á lánamarkaði stórminnkað líka en vextirnir hafa ekki lækkað. Það var til að mynda athyglisvert að heyra forstjóra Lánasýslu ríkisins segja við okkur í efh.- og viðskn. að það væri mikill misskilningur að halda að vextir réðust af sjálfu sér á frjálsum markaði. En eftir þeirri kenningu hefur hæstv. ríkisstjórn og hæstv. núv. viðskrh. unnið á umliðnum árum. Með þeim afleiðingum m.a. að í lok ársins 1991 vorum við með 20% raunvexti og ríkisstjórnin bara beið eftir því að þetta lagaðist allt saman á hinum frjálsa markaði af sjálfu sér.
    Á þetta hefur verið margbent hér á Alþingi og sá sem hér talar hefur bent á þetta í ræðu eftir ræðu en það er ekki fyrr en starfsmaður verðbréfafyrirtækis úti í bæ, með fullri viringu fyrir honum, bendir á þetta í sínu fréttabréfi að menn virðast taka við sér. Þessi skógur er nefnilega miklu vandrataðri en hæstv. ríkisstjórn hefur viljað vera láta. Þar hafa margvíslegir þættir áhrif og mikill misskilningur að þetta geti gengið á þann hátt að menn sleppi stýrinu lausu.
    Ég vil taka skýrt fram í þessu sambandi að þeir sem halda því fram að við getum horfið til fyrri tíma, þar sem vextir voru ákvarðaðir með hreinum stjórnvaldsaðgerðum, eru bæði að blekkja sjálfan sig og aðra. Við lifum í opnara samfélagi þar sem vextir ráðast af öðrum þáttum en áður. Engu að síður verður að hafa þar stjórn á og beita öllum stjórntækjum sem til eru á hverjum tíma til þess að hafa áhrif á vextina, en það hefur hæstv. núv. ríkisstjórn ekki gert.
    Virðulegi forseti. Ég er kannski kominn aðeins út fyrir það efni sem hér er til umræðu, þ.e. verðbréfasjóðina, en allt tengist þetta peningamarkaðnum og á hvern hátt menn ætla að vinna þar þannig að hægt sé að halda þar einhverju jafnvægi. Ég vil hafa það sem lokaorð að við náum engum vitrænu samhengi í vextina fyrr en allir aðilar máls gera sér grein fyrir því að hér verða ekki greiddir hærri vextir til lengri tíma litið en atvinnulífið stendur undir.