Verðbréfaviðskipti

114. fundur
Þriðjudaginn 23. febrúar 1993, kl. 14:13:33 (5362)

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) :
    Hæstv. forseti. Ég vil þakka þeim þingmönnum sem tekið hafa þátt í þessari umræðu fyrir framlag þeirra til þessa máls og reyndar vil ég endurtaka þakkir mínar til hv. efh.- og viðskn. fyrir starf hennar að þessum frumvörpum sem hér eru rædd í senn, þ.e. 2., 3. og 4. dagskrármál þessa fundar. Ég vil taka það fram vegna þess sem hv. 14. þm. Reykv. nefndi hér í ræðu sinni að báðar ábendingarnar sem hún vitnaði til komu hér til umræðu við 1. umr. um málið --- sem nokkuð er nú umliðið að fram fór --- og mættu þá strax skilningi af hálfu nefndarmanna í efh.- og viðskn. og þess sem hér stendur, enda eins og í ljós er komið búið að taka mið af þeim ábendingum í störfum nefndarinnar og samstarfi hennar við starfsmenn viðskrn. og aðra.
    Ég vil taka það fram vegna þess sem kom fram í máli hv. 18. þm. Reykv. að það er einmitt ætlunin að gæta varkárni í framkvæmd þessara laga sem tengist að nokkru leyti ábendingu hv. 4. þm. Norðurl. e. um heimildir til verðbréfaviðskipta samkvæmt nýsettum gjaldeyrisviðskiptalögum sem eins og þingmenn muna voru sett hér í nóvember sl. með samhljóða atkvæðum. Í þeim er einmitt frestunarheimild þar til samningurinn um Evrópskt efnahagssvæði hefur öðlast gildi eða til loka þess árs sem nú er að líða, hvað varðar opnar heimildir til viðskipta með og kaupa á erlendum verðbréfum. Seðlabankinn hefur samkvæmt reglum sem um þetta hafa verið settar synjunarvaldið. Seðlabankinn ákvað að synja þessum tveimur lífeyrissjóðum, Lífeyrissjóði bænda og Lífeyrissjóði tæknifræðinga, um heimildir til þess að festa kaup á erlendum verðbréfum umfram þau þök sem eru í gildi samkvæmt ákvæðum til bráðabirgða í hinum nýsettu lögum. Það má deila um þá ákvörðun Seðlabankans en hitt er ljóst að hans er valdið í þessu efni. Ég held hins vegar að það sé fyrst og fremst vegna þess hversu skammt er til þess að þessi þök eða takmarkanir á verðbréfaviðskiptaheimildirnar falla sjálfkrafa brott sem menn geta látið þetta sér í léttu rúmi liggja.
    Mín skoðun er sú að kaup lífeyrissjóða á erlendum verðbréfum séu eðlilegur þáttur í starfsemi þeirra og horfi til þess að draga úr áhættu í ávöxtun sjóðanna ef rétt er á haldið. Fyrir þjóðarbúið allt er það á margan hátt æskileg þróun að við skiptumst á verðbréfum við aðrar þjóðir og eins og fram hefur komið hér í umræðum um verðbréfaviðskiptin fyrr, þá hafa erlendir aðilar þegar keypt nokkuð af innlendum verðbréfum. Það má líka segja að fari svo að lífeyrissjóðirnir kaupi nokkurt magn erlendra verðbréfa, þá skapast líka þar með svigrúm til þess að taka fé að láni erlendis af hálfu innlendra aðila án þess að

nokkurri þenslu valdi. Ég held að þarna sé ekki nein hætta á ferðum. Þarna er einmitt verið að fara eftir þeim ábendingum, sem fram komu hjá hv. 18. þm. Reykv. og reyndar hv. 4. þm. Norðurl. e., að fara fram með gát í þessu máli öllu. Það er alveg rétt sem kom hér fram hjá hv. 4. þm. Norðurl. e. að það kann að virðast að lagaumgjörðin um Verðbréfaþingið og verðbréfaviðskiptin sé nokkuð margbrotin og viðamikil miðað við það hversu umfang þessara viðskipta er takmarkað. En þar vil ég nefna að einmitt vegna þess að þetta eru vaxtarsprotar, þetta er vísir að starfsemi, er ákaflega mikilvægt að í fyrstu gerð sé vandað til verksins, að menn reyni eftir því sem frekast er kostur að setja öruggar og sanngjarnar viðskiptareglur á þessu sviði þannig að menn þurfi ekki að iðrast síðar að hafa ekki byrgt brunna sem börn gætu dottið í. Þess vegna er það mjög þakkarvert að nú hefur tekist að færa íslenska löggjöf á þessu sviði í það horf sem algengast er og best þykir fara í löggjöf okkar nágrannalanda.
    Með þessum orðum, virðulegi forseti, vil ég endurtaka þakkir mínar fyrir þær ábendingar sem fram hafa komið í þessum umræðum og fyrir þær brtt. sem hv. efh.- og viðskn. flytur sameiginlega við verðbréfafrv.