Fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri

114. fundur
Þriðjudaginn 23. febrúar 1993, kl. 14:28:40 (5365)

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) :
    Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir breytingu á lögum um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri, nr. 34 frá 25. mars 1991. Þau lög mörkuðu á ýmsan hátt tímamót en með þeim og fylgifrv. þeirra voru felld úr gildi fjölmörg lagaákvæði sem takmörkuðu erlenda fjárfestingu á Íslandi og nú má segja að í fyrsta sinn sé að finna á einum stað þær reglur og takmarkanir sem menn hafa viljað halda um þetta efni. Skömmu áður en lögin tóku gildi hafði verið gerð breyting á gjaldeyrisreglunum með reglugerð nr. 312/1990. Þar var verulega rýmkað um fjármagnshreyfingar milli Íslands og annarra landa. Í nóvember sl. samþykkti Alþingi svo ný lög um gjaldeyrismál. Nýjar gjaldeyrisreglur á grundvelli þeirra laga tóku gildi um áramótin. Áhrifin af auknu frelsi erlendra aðila í atvinnurekstri og í gjaldeyrismálum hafa komið fram með glöggum hætti. Á liðnu ári nam hreint gjaldeyrisinnstreymi vegna beinnar fjárfestingar 1,6 milljörðum kr. Fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri á Íslandi nam 1,9 milljörðum kr. Þar munar mest um fjármagnsinnstreymið til Íslenska álfélagsins vegna endurnýjunar á tækja- og hreinsibúnaði en einnig var talsvert um fjármagnsinnstreymi vegna erlendrar fjárfestingar í ýmiss konar þjónustu og verslunarfyrirtækjum. Fjárfesting innlendra aðila í útlöndum nam hins vegar miklu lægri fjárhæðum, en hún var 237 millj. kr. samtals, þar af 142 millj. til fasteignakaupa. Hreint fjármagnsinnstreymi vegna verðbréfaviðskipta nam um 1,3 milljörðum kr. á árinu 1991. Verðbréfakaup Íslendinga erlendis hófust í ársbyrjun 1991 og námu þau 229 millj. kr. á fyrri helmingi þess árs en síðan dró mjög úr þeim og námu þau aðeins um 234 millj. kr. á árinu í heild. Viðskipti erlendra aðila með innlend verðbréf voru hins vegar mikil á síðustu mánuðum ársins og námu í heild um 1,5 milljörðum kr. Að stærstum hluta var þar um að ræða tímabundin kaup Norræna fjárfestingabankans á ríkisskuldabréfum og húsbréfum vegna útgáfu hans á skuldabréfum í íslenskum krónum á erlendum fjármagnsmarkaði.
    Bráðabirgðayfirlit fyrir árið 1992 bendir til þess að Íslendingar fari sér enn tiltölulega hægt í fjárfestingum erlendis og fjárfestingu erlendra aðila hér á landi á því ári megi enn að mestu rekja til fjárframlaga erlendra eigenda til Ísal.
    Ég rek þessar tölur hér, virðulegi forseti, til þess að leggja áherslu á það hvað íslenskur fjármagnsmarkaður og íslenskt atvinnulíf eru að taka miklum breytingum um þessar mundir. Einangrunin hefur verið rofin og alþjóðlegt samstarf í báðar áttir setur sívaxandi mark á atvinnulíf okkar. Nýjustu dæmin um það eru áform Útgerðarfélags Akureyringa hf. um að festa kaup á meiri hluta í útgerðarfélagi í Þýskalandi. Þetta er til marks um það að Íslendingar tengist nú atvinnulífi annarra þjóða nánari böndum. Þetta er framtíðarmál fyrir okkar atvinnulíf. Enda er það mál að sannast að viðhorfin hafa verið að breytast á síðari árum. Áður var það almennt viðurkennd stefna að takmarka bæri erlenda fjárfestingu með boðum og bönnum sem mest. E.t.v. má segja að þar hafi lengi eimt eftir sjónarmiðin frá dögum sjálfstæðisbaráttunnar. Lögin frá 1991, sem ég nefndi áðan, mörkuðu þarna þáttaskil en þá voru felld úr gildi margvísleg hamlandi ákvæði gagnvart erlendri fjárfestingu og þær hömlur sem eftir standa felldar í ein lög í stað þess að dreifa þeim um ýmsa atvinnugreinalagabálka. En þrátt fyrir jákvæða reynslu af þessum lögum, svo langt sem hún nær, er það alls ekki svo að erlend fyrirtæki hafi staðið hér í löngum biðröðum að fá að fjárfesta á Íslandi. Þvert á móti þurfum við nú að gera sérstakt átak til þess að hvetja til aukinnar erlendrar fjárfestingar á Íslandi, einmitt til að treysta undirstöður atvinnunnar í landinu. Í flestum nágrannaríkjum okkar er unnið markvisst að því að laða að erlenda fjárfestingu til þess að auka fjölbreytni og styrkja atvinnulífið. Erlendri fjárfestingu fylgja oft ný markaðssambönd og tækniþekking og sérstaklega fylgja henni oft ný störf fyrir sérfræðimenntað fólk. Sem dæmi um fyrirtæki sem sóst er eftir eru lyfjaframleiðslufyrirtæki, fyrirtæki á sviði rafeinda- og raftækjaiðnaðar, fyrirtæki sem sinna hugbúnaðargerð fyrir tölvur, líftæknifyrirtæki, fyrirtæki á sviði umhverfistækni og fleira af nýjum greinum mætti nefna.
    Það er því mikil samkeppni um erlenda fjárfestingu yfirleitt og ríki þurfa einnig að gæta þess að innlend fyrirtæki flytji sig ekki úr landi til landa þar sem samkeppnisstaðan er betri.
    Danir og Norðmenn hafa t.d. sett upp hjá sér alþjóðlega skipaskrá þar sem þeirra skipafélög geta fengið eins konar úrlendisrétt og er ætlað að koma í stað útgerðarrekstrar eigin borgara undir þægindafána, t.d. með skráningu skipanna í Líberíu eða Panama, eins og einkennir mjög siglingar í Evrópulöndum.
    Menn hafa oft rætt að gera þyrfti sérstakt átak til þess að draga að erlenda fjárfestingu. Þar hafa fyrst og fremst verið uppi framkvæmdir hvað varðar orkufrekan iðnað þar sem iðnrn. og Landsvirkjun hafa um nokkurra ára skeið rekið sérstaka markaðsskrifstofu. Í reynd hefur markaðsskrifstofan starfað sem býsna almenn fjárfestingarskrifstofa þar sem erlendum aðilum eru ekki einungis kynntir kostir orkufreks iðnaðar á Íslandi, heldur einnig almenn aðstaða til fyrirtækjarekstrar.
    Ég nefni sem dæmi að Svíar, Norðmenn og Finnar verja miklu fé árlega til þess að laða að erlenda fjárfestingu og þar hefur árangur Dana vakið verulega athygli. Þeir hafa sent til þess menn að ræða beint við forsvarsmenn fyrirtækja í öðrum löndum, haldið kynningarfundi, þeir taka víða þátt í sýningum og auglýsa í sérritum. Það er athyglisvert að í nýlegri könnun, sem svissnesk stofnun gerði meðal fyrirtækja sem stunda alþjóðlegan rekstur og náði til 22 OECD-ríkja, varð Danmörk í fjórða sæti sem eftirsóknarverður staður fyrir nýjan iðnað. Aðeins Japan, Þýskaland og Sviss voru þar talin standa Danmörku framar.
    Það sem vakti athygli mína eru þau átta atriði sem lögð voru til grundvallar við þetta mat en þau voru: Efnahagsástand, grunngerð samfélagsins, rannsóknarstarfsemi, menntunarstig almennings, stjórnunarvenjur, opinber stjórnsýsla, fjármagnsmarkaður og alþjóðleg viðskiptasambönd. Hins vegar virtust skattakjör ekki koma sérstaklega sterkt inn í þetta mat sem virkur þáttur en auðvitað má vera að það stafi fyrst og fremst af því að skattakjörin í þessum 22 OECD-löndum séu með svo líkum hætti og þannig gætu auðvitað óhagstæðari skattakjör virkað hamlandi.
    Ég nefni til marks um árangur Dana á þessu sviði að á árinu 1989 námu erlendar fjárfestingar í dönsku atvinnulífi 13,5 milljörðum danskra kr. eða sem svarar um 135 milljörðum ísl. kr.
    Af öðrum dæmum má nefna að á árinu 1991 gerðu Írar samninga við 92 erlend fyrirtæki sem áformuðu að setja upp framleiðslustarfsemi þar í landi og skapa þar alls um 6.200 störf. Mörg fleiri dæmi um slíka starfsemi mætti telja. Mér virðist full ástæða til þess að sett verði á fót öflugri kynningarstarfsemi en hingað til á þeim kostum sem erlendum fjárfestum býðst hér á landi. Ég tel að þeim fjármunum verði vel varið sem til þess verkefnis renna. Hugsanlega mætti víkka út starfsemi markaðsskrifstofu iðnrn. og Landsvirkjunar þannig að hún tæki að sér víðtækara verkefni en nú er, en vafalaust koma ýmsir aðrir kostir til greina um skipulag þessarar starfsemi.
    Sú víðtæka lagasamræming sem unnið hefur verið að á Alþingi að undanförnu í tilefni af samningnum um Evrópska efnahagssvæði auðveldar okkur vafalaust að sannfæra erlenda fjárfesta um það að hér gildi almennar, sanngjarnar leikreglur fyrir hvers konar atvinnustarfsemi. Sama gildir um þær breytingar sem nýlega hafa verið gerðar á fyrirtækjaskattlagningu með afnámi aðstöðugjaldsins og lækkun tekjuskatts fyrirtækja.
    Virðulegi forseti. Þátttaka okkar í hinu fyrirhugaða Evrópska efnahagssvæði markar þáttaskil. Samningurinn um það er einmitt tilefni þess frv. sem hér er flutt en samkvæmt ákvæðum samningsins þurfum við að breyta ákvæðum laganna um fjárfestingu erlendra aðila í íslenskum atvinnurekstri í nokkrum greinum. Samkvæmt ákvæðum EES-samningsins skal aðilum í einu ríki innan EES vera heimilt án takmarkana að fjárfesta í atvinnurekstri í öðru ríki á svæðinu. Frá þessari meginreglu eru undantekningar sem eru taldar upp í XII. viðauka með samningnum. Í samningnum er Íslandi veitt heimild til að viðhalda án tímatakmörkunar gildandi banni við fjárfestingu erlendra aðila í fiskveiðum og frumvinnslu sjávarafurða. Jafnframt er stjórnvöldum samkvæmt samningnum heimilt að krefjast þess að fyrirtæki losi sig við fjárfestingu í fiskveiðum og fiskvinnslu ef þau komast að öllu leyti eða að hluta til í eigu erlendra aðila. Þá er Íslendingum veittur frestur til 1. jan. 1996 til að laga gildandi reglur um fjárfestingu aðila í öðrum atvinnugreinum að ákvæðum samningsins.
    Ég mun nú víkja að nokkrum einstökum greinum. Ég nefni fyrst að hér er lagt til að gagnkvæmnisskilyrðið í lokagreinum 3. gr. núgildandi laga falli niður en það er orðað svo nú, með leyfi forseta:

,, . . .  enda njóti íslenskir aðilar ekki lakari réttar til fjárfestingar í heimaríki hlutaðeigandi aðila``.
    Eins og nánar er skýrt í athugasemdum með frv. við þessa grein er það álit manna að setningin sem ég las nái ekki tilgangi sínum og sé frekar skaðleg fyrir íslenska hagsmuni en hitt, þess vegna er lagt til að hún falli brott.
    Í lögunum um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri eru taldar upp þær takmarkanir sem núna gilda um hana. Takmarkanirnar eru: Bann við fjárfestingu í félögum sem stunda útgerð fiskiskipa, fiskvinnslu, orkuvinnslu og orkudreifingu, 49% hámark á eignarhlut erlendra aðila í félagi sem stundar flugrekstur, 25% hámark á eignarhlut erlendra aðila í hlutafélagsbanka, bann við fjárfestingu erlends ríkis eða fyrirtækis í eigu erlends ríkis, 200 millj. kr. hámark á árlegri fjárfestingu í eigu eins erlends aðila eða fjárhagslegra tengdra erlendra aðila og 25% hámark á heildarfjárfestingu erlendra aðila af áætlaðri fjárfestingu í tilteknum atvinnugreinum.
    Ég mun nú fjalla nokkuð um þessar takmarkanir og vil fyrst benda á að í þessu frv. eru ekki lagðar til efnislegar breytingar á ákvæðunum um bann við fjárfestingu í fiskveiðum eða fiskvinnslu en til samræmis við ákvæðin í XII. viðauka við EES-samninginn er hér lagt til að viðskrh. geti kveðið upp úrskurð um það að lögaðili sem að hluta til eða að öllu leyti hefur verið keyptur af erlendum aðila skuli losa sig við fjárfestingu á sviði fiskveiða og fiskvinnslu. Jafnframt verði kveðið á um að slíkur úrskurður sé aðfararhæfur.
    Með þessu er stjórnvöldum gert hægara um vik að framfylgja fjárfestingarbanninu en samkvæmt gildandi lagaákvæðum. Slíkur úrskurður yrði kveðinn upp fari viðkomandi aðili ekki að áskorun um að losa sig við óheimilan hlut í fiskveiðum eða vinnslu sjávarafurða.
    Til nánari skýringar á þessu máli skal tekið fram að í samningaviðræðunum um EES mun samningamönnum Evrópubandalagsins hafa verið mikið í mun að koma í veg fyrir að fjárfestingarbannið í fiskveiðum og fiskvinnslu yrði notað til þess að koma í veg fyrir fjárfestingu í fyrirtækjum með alls óskyldan rekstur, þ.e. að fyrirtækin gætu girt sig af með því að kaupa eitt hlutabréf í útgerðar- eða fiskvinnslufyrirtæki. Eftir nokkurt samningaþóf var um það samið að í slíkum tilfellum gætu stjórnvöld skyldað fyrirtæki til þess að losa sig við hinn forboðna ávöxt þótt það væri ekki skyldugt eða fortakslaust ákveðið, enda er hér að sjálfsögðu fyrst og fremst um það að ræða hvernig þessi markalína er dregin, ekki línan sjálf.
    Ég kem þá að því sem í 3. tölul. greinir en þar er haldið áfram núgildandi hömlum varðandi virkjunarréttindi vatnsfalla og jarðhita og hlut í fyrirtækjum á sviði orkuvinnslu og orkudreifingar.
    Í samræmi við ákvæði við XII. viðauka EES-samningsins er hins vegar lagt til að frá og með 1. jan. 1996 njóti ríkisborgarar og lögaðilar frá öðrum EES-ríkjum sama réttar til fjárfestingar á þessu sviði og íslenskir ríkisborgarar og lögaðilar. En ég bendi á hinn bóginn á að í rétti EES er ekkert sem bannar virkjunar- og veitufyrirtæki í eigu ríkis og sveitarfélaga eins og þau fyrirtæki eru sem annast orkuvinnslu og orkudreifingu á Íslandi. Séu þau hins vegar seld er hér áskilnaður um að ekki megi mismuna á grundvelli þjóðernis þeim EES-borgurum eða lögaðilum sem kaupa vildu hlut í slíkum fyrirtækjum.
    Það sem mér finnst mestu varða í þessu máli er hins vegar að tryggja ríkinu, almenningi, þau virkjunarréttindi vatnsfalla og rétt til auðlinda í jörðu sem mestu máli skipta og hafa frv. um þetta efni verið samin í iðnrn. og eru til meðferðar á vegum ríkisstjórnarinnar. Tilgangur þeirra er að tryggja að Alþingi og ríkisstjórn hafi forræði um nýtingu orkulindanna um alla framtíð. Með því móti tel ég tryggilega um þessi málefni búið.
    Í 4. tölul. kemur fram sama takmörkun á eignarhlut erlendra aðila í innlendum viðskiptabönkum og er að finna í núgildandi lögum. Hins vegar er hér lagt til að hún falli úr gildi 1. jan. 1996 þegar hinn almenni aðlögunarfrestur Íslendinga samkvæmt viðauka XII rennur út.
    Þá er hér lagt til að fellt verði niður núgildandi ákvæði um útibú erlendra banka á Íslandi enda er það ákvæði nú óþarft eftir að lögunum um viðskiptabanka og lögunum um Seðlabanka Íslands var breytt í þessu skyni á 115. löggjafarþingi og reyndar voru þær breytingar samþykktar samhljóða.
    Í 5. tölul. er lagt til að haldið verði áfram banni við fjárfestingu erlends stjórnvalds hér á landi. En lagt er til að reglan verði samræmd reglum flestra annarra iðnríkja á þann hátt að ákvæðið taki aðeins til fjárfestingar erlends stjórnvalds en ekki einnig til fjárfestingar fyrirtækis í eigu erlends stjórnvalds. Með slíku ákvæði munu í upphafi einkum hafa verið höfð í huga fjárfestingarfyrirtæki í eigu austantjaldsríkjanna fyrrverandi en nýjar aðstæður hafa gert slík ákvæði úrelt og óþörf. Þá er lagt til í samræmingarskyni að bannákvæðið verði víðtækara en það er nú og nái ekki aðeins til fjárfestingar erlends ríkis heldur einnig til fjárfestingar erlends sveitarfélags eða annars erlends stjórnvalds þar sem ríkisvaldið kann að vera með öðrum hætti en algengast er hér, skipt í fleira en tvennt eða þrennt.
    Þá er í þessu frv. gerð tillaga um það að niður falli 49% takmörkunin á fjárfestingu erlendra aðila í flugrekstri á Íslandi. Slík takmörkun er andstæð EES-samningnum og ekki þykir ástæða til þess að beita þar aðlögunarfresti þar sem slík takmörkun er áreiðanlega andstæð íslenskum atvinnuhagsmunum. Við eigum á Íslandi margt vel þjálfað fagfólk á þessu sviði sem ekki hefur næg verkefni og þess vegna ástæðulaust að útiloka erlenda eignaraðild að fyrirtækjum sem gætu skapað aukin umsvif á sviði flugrekstrar.
    Þá er lagt til í þessu frv. að felld verði brott skilyrði í 7. tölul. núgildandi 4. gr. laganna um leyfisveitingu ráðherra, fari erlend fjárfesting fram úr tilteknu fjárhæðarmarki eða fari hún umfram 25% af

heildarfjárfestingu í ákveðnum atvinnugreinum.
    Í ljósi reynslunnar verður ekki séð nein þörf fyrir lögbindingu ákvæða af þessu tagi. Fjárfesting erlendra aðila hér á landi hefur yfirleitt verið langt undir þessum mörkum. Þá gegna almennt öryggisákvæði og ákvæði væntanlegra samkeppnislaga, sem reyndar eru á dagskrá þessa fundar, svipuðu hlutverki og ákvæðum af þessu tagi var á sínum tíma ætlað að gegna.
    Ég ætla ekki, virðulegi forseti, að ræða um brtt. frv. um næstu greinar enda er þar um fullkomlega tæknileg atriði að ræða eða samræmingu við ákveðin vel þekkt ákvæði EES-samningsins. Hins vegar vil ég víkja að brtt. við 10. gr. nokkrum orðum, en þar er orðalag öryggisákvæðisins samræmt orðalagi 33. gr. EES-samningsins og reyndar orðalagi í samþykkt OECD um afnám hafta á fjármagnshreyfingum.
    Þá er lögð til breyting á ákvæði núgildandi laga um þingkjörna nefnd sem ætlað er að vera viðskrh. til ráðuneytis um tiltekna þætti fjárfestingarmála.
    Í samræmi við önnur ákvæði í frv. fellur reyndar meginverkefni nefndarinnar brott, eins og ég hef þegar skýrt og fram kemur í athugasemdum við frv. Hins vegar er hér lagt til að áfram verði nefnd viðskrh. til ráðuneytis um beitingu öryggisákvæðis laganna og fylgist hún með því að ákvæði laganna um takmarkanir á fjárfestingum erlendra aðila í atvinnurekstri séu virt.
    Þá er lögð til sú breyting að nefndin verði ekki kosin á Alþingi heldur skipuð af viðskrh. enda er hér fyrst og fremst um að ræða framkvæmdarvaldstilhögun. Tillaga er hér gerð um það að fjórir nefndarmanna verði tilnefndir af forsrh., dómsmrh., sjútvrh. og utanrrh., en einn af viðskrh. án tilnefningar.
    Hæstv. forseti. Frv. sem við ræðum í dag er mikilvægt fylgifrv. samningsins um Evrópskt efnahagssvæði og að mínu áliti ekki síður mikilvægt framlag til efnahagsframfara á Íslandi, til þess að efla íslenskt atvinnulíf. Ég vona að þetta mál fái skjóta og örugga þingmeðferð og legg til að því verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. efh.- og viðskn.