Fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri

114. fundur
Þriðjudaginn 23. febrúar 1993, kl. 16:39:03 (5370)

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) :
    Hæstv. forseti. Það er hverju orði sannara sem kom fram í máli hv. 1. þm. Norðurl. v. að hér er um vandasamt og vandmeðfarið stórmál að ræða. Ég heyri það af fjölmörgum athugasemdum og ábendingum þeirra sem talað hafa í umræðunum að hv. efh.- og viðskn. mun hafa ærið viðfangsefni í sínu starfi. Ég treysti því að hún muni huga mjög vandlega að efni frv. og þeim sjónarmiðum sem fram hafa komið í þessari umræðu í starfi sínu eins og hún hefur gert við önnur frv. sem tengjast samningnum um Evrópskt efnahagssvæði.
    Fyrst vil ég víkja nokkrum orðum að því sem kom fram í máli hv. 7. þm. Reykn. Mér fannst nokkurs misskilnings gæta í máli hans. Hann talaði eins og verið væri að breyta ákvæðunum sem banna erlenda fjárfestingu í fiskveiðum og frumvinnslu sjávarafurða. Það er ekki verið að breyta þeim ákvæðum. Reyndar kom það mjög skýrt fram í máli hv. 4. þm. Norðurl. e. og reyndar í máli hv. 1. þm. Norðurl. v. að þeir litu svo á og beinlínis tóku fram að þeir væru samþykkir því að grundvallarreglan um bann við fjárfestingu erlendra aðila í þessum greinum okkar atvinnulífs væri staðfest.
    Ég vil líka í þessu sambandi benda á 2. málsl. 1. og 2. tölul. í 4. gr. núgildandi laga sem er að finna í 2. gr. frv. Þar segir, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Viðskiptaráðherra getur með úrskurði skuldbundið fyrirtæki sem hafa að hluta eða öllu leyti verið keypt af erlendum aðilum eða íslenskum ríkisborgurum sem ekki eiga lögheimili á Íslandi til að losa sig

við fjárfestingar í fiskiskipum.`` Síðan segir í sambærilegum málslið 2. tölul. það sama um fjárfestingu í vinnslu sjávarafurða.
    Þetta ákvæði er beinlínis úrræði til þess að fást við það ef óbein eignaraðild kemur upp fyrir einhverra hluta sakir. Reyndar kom það glöggt fram í máli þeirra sem hér töluðu að menn viðurkenna, sem sjálfsagt er, að slík óbein eignaraðild hefur viðgengist um árabil, áratuga skeið, reyndar í þau 70 ár eða rúmlega það frá því lögin sem áður giltu um fiskveiðar í fiskveiðilögsögu Íslands voru sett. Upphaflega var þar bann við eignarhaldi erlendra manna á fiskiskipum en óbein eignaraðild hefur lengi viðgengist í einni eða annarri mynd án þess að það hafi verið talið valda vandræðum eða óæskilegum áhrifum erlendra manna á þennan mikilvæga atvinnurekstur.
    Hér er sett inn úrræði, þ.e. heimild til þess að viðskrh. skyldi þá sem hafa með einhverjum hætti komist yfir þennan forboðna ávöxt að losa sig við hann. Reyndar er rétt að segja frá því að málið rís eiginlega frá hinni hliðinni, þ.e. viðsemjendum Íslendinga í samningaviðræðunum um Evrópskt efnahagssvæði sýndist að með því að íslenskt fyrirtæki í óskyldri atvinnugrein, t.d. í olíuverslun eða einhverri annarri atvinnustarfsemi, þess vegna vöruverslun hvers konar, gæti með því að eignast eitt hlutabréf í útgerðarfyrirtæki varið sig fyrir því að bréf þess gengju kaupum og sölum og í fyrirtækið kæmi erlent fjármagn. Að þessu var fundið af hálfu okkar viðsemjenda og úrræði líka fundið sem er það sem fram kemur í tilvitnuðu málsliðum 1. og 2. tölul. 2. gr. frv. sem varðar 4. gr. laganna.
    Það vill reyndar svo til að með þessu er líka bætt í lögin úrræði sem ekki var í þeim áður til þess að breyta slíku eignarhaldi ef það er talið valda óæskilegum yfirráðum eða annarlegum sjónarmiðum í rekstri slíkra fyrirtækja.
    Ég vil hafa þetta alveg skýrt og halda því aðskildu frá hugmyndum sem ýmsir hafa um að það sé þessum atvinnuvegi skaðlegt að hafa ekki sama aðgang að erlendu áhættufé og aðrar atvinnugreinar eiga og hafa átt og munu eiga í framtíðinni. Það sjónarmið er ekki til umræðu. Hér er fast fylgt eftir þeim sjónarmiðum sem frá upphafi viðræðna um EES voru ríkjandi af Íslendinga hálfu, þ.e. að gefa ekki aðgang að auðlindinni sjálfri, auðlind sjávar. Um það má síðan deila hvernig á þessu verður haldið, en ég tel að heimildin sé ótvírætt í þá átt sem mér virðist að hv. 7. þm. Reykn. væri að tala og reyndar aðrir sem talað hafa í umræðunni. Ég tók eftir því að ýmsir, bæði hv. 4. þm. Norðurl. e. og hv. 1. þm. Norðurl. v. virtust eftir atvikum una þessari tillögugerð vel hvað sjávarútveginn varðar.
    Um orkufyrirtækin sem margir ræðumanna viku að, bæði hv. 7. þm. Reykn., hv. 4. þm. Norðurl. e. og hv. 1. þm. Norðurl. v. vil ég benda á það, sem reyndar kom fram í framsöguræðu minni, að með því að ekkert í EES-samningunum bannar opinbert forræði og eignarhald á orkufyrirtækjum, er ekkert sem segir að Alþingi Íslendinga geti ekki haldið áfram að hafa það skipulag sem hér hefur verið, þ.e. að fyrirtæki í orkugreininni séu í eigu ríkis eða sveitarfélaga. Með því að bæta svo við, sem ég tel ákaflega mikilvægt, skipulegum reglum um eignarhald almennings á orkulindum á almenningum og virkjunarrétti vatnsfalla á almenningum og á auðlindum í iðrum jarðar, þá tel ég mjög vel tryggt að Íslendingar hafi um alla framtíð óskorað forræði þessara mikilvægu auðlinda. Síðan er það rétt athugað og þörf ábending frá hv. 1. þm. Norðurl. v. að menn þurfa í því sambandi að hyggja að neysluvatnsauðlindinni. Ég tel að það eigi samhliða þessu sem ég hef nefnt að huga að því máli.
    Það er líka að sjálfsögðu rétt að hugmyndir um lagningu sæstrengs til annarra landa til þess að flytja orkuna beint fela í sér mikilvægar spurningar um lagalega stöðu m.a. fjárhagslega stöðu slíks fyrirtækis ef úr yrði gagnvart íslenskum stjórnvöldum. Ég er sannfærður um að hægt er að finna á því lausnir sem virða fullkomlega okkar forræði á auðlindinni sjálfri og á virkjunarréttinum þótt við kynnum að þurfa að leita nýrra skipulagslausna á því risafyrirtæki sem í þessu fælist. Það er hárrétt athugað hjá hv. 1. þm. Norðurl. v. að þing og stjórn munu á næstu missirum þurfa að taka afstöðu til mjög mikilvægra atriða í því máli sem eru ekki tæknilegs eða fjárhagslegs eðlis heldur varða einmitt stjórnskipulag og lagalega stöðu slíkrar starfsemi og ekki síður umhverfisþætti málsins sem eru mjög mikilvægir. Ég tel þarft að það mál skuli koma upp í umræðunni og fagna því að þau sjónarmið skuli vera uppi að við þurfum að gæta þess að ganga ekki út frá því sem gefnum hlut að núverandi orkufyrirtæki annist þá starfsemi, enda yrði hér um að ræða í orðsins fyllstu merkingu landsfyrirtæki sem meta þyrfti á nýjum grundvelli.
    Hv. 7. þm. Reykn. og reyndar aðrir sem hér hafa talað hafa vikið að stöðu bankanna. Þar var innt eftir, eins og um orkufyrirtækin, áformum um einkavæðingu. Því var slegið fram sem staðreynd að ríkisstjórnin stefndi að því að einkavæða orkufyrirtækin og einkavæða bankana. Það er alls ekki svo, t.d. hvað orkufyrirtækin varðar, að ákvörðun hafi verið tekin um það að ríkið ætli að losa sig við sinn hlut í orkuvinnslu eða dreifingu. Hins vegar eru uppi áform um að breyta rekstrarformi Rafmagnsveitna ríkisins og leita að þeirri skipulagslausn sem best svarar þörfum og kalli tímans og þörfum þeirra sem þjónustunnar eiga að njóta. Ég held að hv. þm. sem hér hafa talað séu mér sammála um að æskilegt sé að leita nýrra leiða. Þar kemur m.a. til greina hlutafélagsstofnun um Rafmagnsveitur ríkisins og um önnur orkufyrirtæki. En á þessu stigi hefur ekki verið þar til umræðu að selja úr opinberri eigu hluti í þeim fyrirtækjum. Það er að sjálfsögðu mál sem Alþingi getur hvenær sem er tekið ákvarðanir um en tillögur um það eru ekki á döfinni.
    Um bankana er það vissulega rétt að mikið er um það rætt að finna þeim besta skipulagsform, m.a. hvort ekki sé skynsamlegt sjónarmið að rekstur allra fyrirtækja á því sviði atvinnulífsins lúti sömu reglum, sömu lögum, sömu skattakjörum og sömu starfsskilyrðum. Ég tók einmitt eftir því að á flokksþingi Framsfl. í nóvember í fyrra var ályktað um þetta efni mjög í þeim anda sem ég hef nú talað, þ.e. að æskilegt sé að fyrirtæki sem fást við sama viðfangsefni, hvort sem þau eru í opinberri eigu eða einkaeigu, starfi við sömu rekstrarskilyrði og það megi mjög vel huga að formi opinbers atvinnurekstrar og þar undir tel ég að sjálfsögðu bankana sem eru atvinnufyrirtæki og eiga að starfa sem slík fyrst og fremst. Ég tel ekki hættu í því fólgna að opna okkar bankamarkað með þeim hætti sem þegar hafa verið lögð að drög með samhljóða samþykkt Alþingis á nýjum ákvæðum um starfsemi erlendra útibúa á Íslandi og sem hér er gerð tillaga um að frá og með árinu 1996 sé erlendum aðilum heimilt, að sjálfsögðu undir sömu reglum og kröfum, eftirlitskröfum, og eignarhaldstakmörkunum sem kunna að gilda um bankahlutafélög hér á landi að taka þátt í bankastarfsemi á Íslandi. Ég teldi það feng að fá áhættufé, erlent áhættufé, í hlutafélagabanka á Íslandi. Slíkri þátttöku fylgir einatt markaðsþekking og kunnátta og ég vil taka það fram að ef um þátttöku í íslenskum hlutafélagsbanka er að ræða, þá lýtur hann að sjálfsögðu íslensku bankaeftirliti. Það er eingöngu ef hér kæmi til starfa erlendur banki sem væri algerlega í eigu erlends bankafyrirtækis, að þá mundu bankaeftirlitsreglur heimalandsins gilda. En það er einmitt mjög ör samræming á ferðinni innan hins Evrópska efnahagssvæðis. Nú tala ég að sjálfsögðu ekki með upphafsstöfum um svæðið heldur um þann veruleika í okkar efnahagslega umhverfi sem er mikilvægi Evrópuviðskiptanna fyrir alla Íslendinga og þjóðlífið yfirleitt.
    Ég vil svo aðeins víkja að því sem hv. 7. þm. Reykn. kom hér að sem varðaði fjárhæðarmörkin og ég tek það aftur fram að ég tel að það sé ekki skynsamlegt að vera með þau fjárhæðarmörk sem voru og eru í lögunum frá 1991. Upplýsingaskylda um fjárfestingu erlendra manna hér í atvinnurekstri er áfram ótvíræð í 6. gr. laganna og mun verða fylgt eftir af gjaldeyriseftirliti Seðlabankans. Síðan spyrja bæði hv. 18. þm. Reykv. og hv. 7. þm. Reykn. í raun og veru sömu spurningarinnar. Hv. 18. þm. Reykv. spurði: Er hér gengið lengra en strangt tekið er nauðsynlegt vegna EES-samningsins? Þetta er svona önnur myndbirting þeirra spurninga sem í máli hv. 7. þm. Reykn. komu fram á forminu: Af hverju liggur svona mikið á? Þurfum við að aflétta þessum takmörkunum svona fljótt eins og hér er gerð tillaga um? Það varðar nú reyndar fyrst og fremst þátttöku erlendra manna í flugrekstrarfélögum á Íslandi. Það er gert fyrr en aðlögunarfresturinn krefst. Ég sagði deili á því í minni framsöguræðu að ég teldi það gagnlegt og nauðsynlegt vegna þess að við hefðum mjög mikið af vel hæfu og þjálfuðu fagfólki í flugi og flugþjónustu og það væri ótvíræður hagur okkar atvinnulífs að fá erlent fjármagn inn í félögin. Þetta er sjónarmið sem ég veit að menn skilja. Og það er í raun og veru líka svar við spurningu hv. 7. þm. Reykn.: Af hverju liggur svona mikið á? Það er af því að við þurfum að efla atvinnulífið. Það er af því að við þurfum að glæða nýsköpun. Það er af því að leiðin til þess að skjóta undir það fleiri stoðum og stofna til nýjunga er í samstarfi við erlenda aðila einfaldlega vegna þess hversu okkar markaður er smár vöxtum eins og kom nú mjög víða fram í ræðum manna hér áðan. Og eins og kom fram í máli hv. 7. þm. Reykn. og reyndar í framsöguræðu minni, þá leggja nú grannlönd okkar og þau lönd sem við helst lítum til um samanburð mjög að sér að laða að sér erlenda fjárfestingu. Vandamálið er ekki að við séum að opna hér allt upp á gátt. Vandamálið er að fá menn til þess að taka þátt í okkar atvinnulífi með áhættufé. Þar er að sjálfsögðu alls ekki rasað um ráð fram né sjálfstæðið selt fyrir baunadisk því að hér er mjög gætilega fram farið í öllum greinum.
    Ég tek undir það með hv. 7. þm. Reykn. að það er mjög mikilvægt að byggja á þekkingarauðlindinni, að byggja á okkar hæfileikaríka fólki, sköpunargáfu þess, menntun og listrænum hæfileikum í okkar atvinnustefnu. Það er einmitt þess vegna sem ríkisstjórnin lagði mikla áherslu á í sínum atvinnueflingaraðgerðum núna um ármótin að efla rannsóknir og þróunarstarf, að efla markaðssókn, að leggja fjármuni til þessara þarfa í meira mæli en áður. Þess vegna er ég alls ekki sammála hv. 7. þm. Reykn. að þar sé um afturför að ræða eða lægri fjárveitingar. Þvert á móti er verið að leggja til að tvöfalda framlögin til Rannsóknasjóðs á næstu tveimur árum, að færa til rannsókna og þróunarstarfa fimmtunginn af því sem fæst fyrir sölu á hlutum ríkisins í atvinnufyrirtækjum einmitt til þess að byggja upp nýja þekkingu, bæta við þá sem fyrir er og virkja nýsköpunarmáttinn sem býr með þjóðinni.
    Ég tók eftir því að hv. þm. vitnaði í heimsókn sína til Alþfl. á Möltu sem ég veit að hafði um hríð afskipti þar af landsstjórninni, reyndar nú ekki um sinn. Ég veit að þeir Maltverjar hafa verið að reyna að kynna sitt land, m.a. höfða til hæfileika fólksins sem það land byggir. Það eigum við sannarlega líka að gera og það gerum við.
    Ég tek það fram að það er einfaldlega rangt að lítið hafi heyrst frá markaðsskrifstofu iðnrn. og Landsvirkjunar um annað en ál. Hún hefur þvert á móti lagt sig mjög eftir því að taka upp samstarf við fólk í hinum dreifðu byggðum, bæði á Austfjörðum og Norðurlandi og víðar, að hafa samband við fyrirtæki, stór og smá í orkufrekum iðngreinum hvort sem þau fást við málmbræðslu eða annað. Það eru vonir við það bundnar að það starf skili senn árangri. En auðvitað varðar þar mestu að það hefur verið almennur andbyr sakir efnahagslægðar í heiminum sem við vonum öll að fari senn að létta. En tækifærin til nýsköpunar eru ótal mörg og eins og ég vék að í minni framsöguræðu, þá eru hátæknigreinarnar, hugbúnaðargreinarnar, mjög vænlegir kostir til þess að sækja fram og ég heyri að hv. 7. þm. Reykn. er mér sammála um það að við þurfum að efla eins konar söluskrifstofu atvinnutækifæra á Íslandi gagnvart erlendum þátttakendum í okkar atvinnulífi. Ég heyri það að þar er góðs samstarfs að vænta um breytingar sem

ég tel að sé skynsamlegt að byggja á grunni markaðsstarfs iðnrn. og Landsvirkjunar og tengja það öðrum slíkum störfum.
    Hv. 7. þm. Reykn. nefndi líka Bláa lónið sem dæmi um sóknarmöguleika í ferðaiðnaði en reyndar tengist það annarri starfsemi líka. Ég vil taka það fram að það er í undirbúningi mjög myndarleg þátttaka Íslenskra aðalverktaka í undirbúningsfélaginu. Þar er þegar stuðningur frá iðnrn. og Iðntæknistofnun við þróun á vörum með lækningamátt úr örverunum í Bláa lóninu. Þar eru nú á ferðinni áform og áætlanir sem ég vona að breyti orðræðum margra ára í verklega framkvæmd. Þar held ég að sé nú einmitt að rætast það sem ég veit að bæði hv. 7. þm. Reykn. og ég höfum lengi talað fyrir að taka þar á myndarlega.
    Hv. 7. þm. Reykn. nefndi líka heilbrigðisþjónustuna sem hugsanlega útflutningsgrein. Ég get staðfest að heilbrrh. og heilbrrn. hefur undirbúið það mál. Það hafa komið um það fyrirspurnir hvort hægt sé að veita sérhæfða læknisþjónustu á Íslandi vegna nágrannalandanna. Það er mjög ánægjulegt að hv. 7. þm. Reykn. nefndi einmitt hjartaaðgerðirnar og hjartasjúkdómana því að það er ekki mjög langt síðan ýmsir framámenn í íslensku þjóðlífi gerðust mjög til þess að efast um að hjartalækningar á Íslandi væru heppilegasti vettvangurinn ef þeir sjálfir fengju fyrir hjartað. Um það ætla ég nú ekki að segja fleira en ég fagna þessum sinnaskiptum og endurmati manna á því hvað það er sem við getum best og þar er hjartalagið alveg áreiðanlega það sama hjá mér og hv. 7. þm. Reykn. Það er ánægjuleg þróun.
    Ég kem þá nokkrum orðum, virðulegi þingforseti, að því sem kom fram í máli hv. 1. þm. Norðurl. v. umfram það sem ég hef þegar nefnt. Ég er honum sammála um það að við eigum ekki að hyggja eingöngu að Evrópu og Evrópusamstarfi. Það virðist oft vaka í máli hv. 1. þm. Norðurl. v. að aðild okkar að væntanlegu Evrópsku efnahagssvæði girði á einhvern hátt fyrir það að við ræktum samband okkar við Vesturheim eða löndin í fjarlægu austri við Kyrrahaf. Ég get fullvissað hann um að svo er ekki. Það er ekki stefna ríkisstjórnarinnar heldur hefur hún þvert á móti lagt mikla áherslu á og meiri en fyrri stjórnir að taka þátt í samningaumleitunum á vettvangi GATT, að leita hófanna um fríverslunarsamstarf við Norður-Ameríkuríkin. Ég vil taka það mjög skýrt fram að ég tel það rétta skoðun hjá hv. 1. þm. Norðurl. v. að við þurfum einmitt þegar við hugum að stöðu Íslands í viðskiptakerfi heimsins að hugleiða yfir hverju framtíðin kann að búa og hvert við viljum stefna. Sjálfstæðisbaráttan má ekki verða til einskis. Og það er nákvæmlega það sem liggur í því að treysta sem best stöðu Íslendinga í viðskiptakerfi heimsins. Sjálfstæði okkar byggist á efnahagslegu sjálfstæði. Því höldum við helst ef við stundum frjáls viðskipti við sem flestar þjóðir. Og af því að hv. þm. fór hér hátíðlegum orðum um okkar sjálfstæðisbaráttu og sögu sem ég er sammála honum um að megi mjög oft og gjarnan vitna til og sker alls ekki í eyru eins og hann virtist halda að mundi gera, vil ég minna á að okkar helsti sjálfstæðisbaráttumaður á öldinni sem leið talaði einmitt um það að versluninni á Íslandi væri eins háttað og annars staðar, að hún væri þá landinu hagfelldust þegar hún væri frjálsust. Það er gjörsamlega fjarstæðukenndur málflutningur að þetta frv. eða þau frumvörp sem tengjast hinu Evrópska efnahagssvæði séu á einhvern hátt vitnisburður um vilja til þess að framselja stjórnarfarslegt eða efnahagslegt fullveldi þjóðarinnar. Það styðst ekki við nein rök, hvorki formleg né efnisleg, en vegna þess að upp á þessu var hér fitjað vil ég taka það alveg skýrt fram að það er ekki unnt að halda fram af viti þeirri tvískiptu skoðun að í senn sé mjög æskilegt að laða erlent fjármagn að landinu til þess að efla og treysta íslenskt atvinnulíf og neita um leið að taka þátt í því samstarfi sem við erum hér að ræða. Auðvitað þarf að setja um þetta samstarf allt skynsamlegar og sanngjarnar leikreglur. Það er tilgangurinn með þessu frv. og ég vil með þessum orðum, hæstv. forseti, ljúka máli mínu og þakka fyrir þá umræðu sem hér hefur farið fram. Ég veit að hv. efh.- og viðskn. mun sinna þeim málum sem hér hefur borið á góma með ágætum eins og hún hefur gert í öðrum málum.