Samkeppnislög

114. fundur
Þriðjudaginn 23. febrúar 1993, kl. 17:19:30 (5376)

     Frsm. efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson) :
    Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Kristínu Ástgeirsdóttur fyrir ágætt samstarf í efh.- og viðskn. varðandi þetta mál eins og svo mörg önnur, en eins og hún segir, þá er þetta mikið framfaramál og ég vil enn fremur ítreka þakklæti mitt til annarra nefndarmanna í efh.- og viðskn. og allra þeirra sem hafa að málinu komið, þar á meðal starfsmönnum í viðskrn. og ráðherranum sjálfum fyrir einstaka lipurð í meðferð málsins.
    En ég ætla að mæla hérna fyrir brtt. á þskj. 655 frá nefndinni en hún er þannig, með leyfi forseta:
    ,,Aftan við frumvarpið bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða er orðist svo:
    Samkeppnisráð skal á árunum 1993 og 1994 gera úttekt á stjórnunar- og eignatengslum milli fyrirtækja er starfa á íslenskum markaði. Skal þetta gert í því skyni að kanna hvort í íslensku viðskiptalífi sé að finna alvarleg einkenni hringamyndunar, óæskilegra tengsla eða valdasamþjöppunar sem takmarkað geti samkeppni eða hindrað frjálsa þróun viðskipta og skapi þar með hættu á brotum á lögum þessum.
    Samkeppnisráð skal skila niðurstöðum sínum til viðskiptaráðherra er síðan leggi þær fyrir Alþingi í skýrslu.``
    Meiningin með þessu er að hið nýja samkeppnisráð hefji sín störf á því að kanna markaðinn og gera sérstaka könnun á því í hvaða umhverfi íslensk fyrirtæki starfa og hvaða aðstæður og atburðir geta helst orðið til þess að ráðið þurfi að grípa inn í mál sem tengjast brotum á lögunum. Um þetta er samstaða í nefndinni og ég legg þetta því fram.