Samkeppnislög

114. fundur
Þriðjudaginn 23. febrúar 1993, kl. 17:46:18 (5379)

     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
    Herra forseti. Varðandi það sem hv. þm. sagði um XI. kaflann, þá tek ég fullt mark á því að þetta sé skoðun hv. 3. þm. Reykv. að þetta geti staðið svona. En ég minni á að það var líka skoðun hæstv. utanrrh. að það þyrfti eingöngu að gera minni háttar tæknilegar lagfæringar á samningnum um Evrópskt efnahagssvæði, skoðun sem hann er nú fallinn frá. Annað hefur komið á daginn. Það hefur æðioft orðið niðurstaðan í þessu máli. Ég bendi á að í þessum lagagreinum, þó það sé ekki endilega orðanna hljóðan hér sem skiptir þar máli, er verið að vísa í samninga EFTA-ríkjanna, fylgisamninga með samningnum um Evrópskt efnahagssvæði milli EFTA-ríkjanna sem Sviss var aðili að en er nú farið út úr, samanber það sem segir t.d. í 44. gr. og vísar þar í bókun 4 um samning milli EFTA-ríkjanna. Þar var Sviss í hópnum en er nú ekki lengur þar. Það eru slík atriði sem ég tel að hljóti að koma til greina þegar forsendurnar hafa breyst sem bak við lagagreinarnar standa.
    Varðandi brtt. á þskj. 655, þá er ég algerlega ósammála hv. 3. þm. Reykv. um hana að hún sé óþörf. Hún hefur bein efnisákvæði í sér fólgin sem eru óháð lögunum sem eru um sérstaka vinnu, úttekt sem skilað verði til Alþingis í formi skýrslu og hefur þess vegna sjálfstætt gildi til viðbótar 1. gr., markmiðsgrein og öðrum ákvæðum þessara laga sem að sjálfsögðu fela samkeppnisráði ýmsar skyldur í þessum efnum sem ráðið mun sinna gegnum tíðina að breyttu breytanda og hefur á sinni könnu, en það breytir ekki hinu að hvenær sem er getur Alþingi ef því sýnist svo mælt fyrir um sérstaka úttekt eða vinnu í þessum efnum. Fyrirmæli koma hér frá löggjafanum í formi þessarar tillögu og ég treysti því að hún hafi hér öruggan meiri hluta á Alþingi, enda flutt sameiginlega af allri efh.- og viðskn. og ég vona að þessi ummæli hv. 3. þm. Reykv. eigi ekki að vísa á það hér að það verði einhver samblástur í gangi gagnvart þessari tillögu sem við í efh.- og viðskn. töldum að samstaða væri um.