Samkeppnislög

114. fundur
Þriðjudaginn 23. febrúar 1993, kl. 17:54:51 (5381)

     Jón Helgason :
    Herra forseti. Ég mætti í forföllum í efh.- og viðskn. í dag þar sem fjallað var aðeins um þetta frv. og lýsti ég þar yfir stuðningi mínum við þá tillögu, sem hér er komin fram á þskj. 653 og ég stend að ásamt þingmönnunum Kristínu Ástgeirsdóttur og Steingrími J. Sigfússyni, um að XI. kafla frv. verði frestað. Hér hefur verið bent á rök fyrir því og ég skal ekki endurtaka þau í löngu máli en vitna fyrst til þess sem hefur komið fram að hæstv. utanrrh. sagði tvívegis á opnum fundi í síðustu viku að ekki væri hægt að fullyrða neitt enn um það hvernig samningi um Evrópska efnahagssvæðið reiddi af. Ég býst við að við séum flest þeirrar skoðunar að fyrr eða síðar muni sá samningur verða að veruleika í einhverju formi. En úr því að hæstv. utanrrh. setur fram þessa efasemd og hefur gert það opinberlega finnst mér fáránlegt að samþykkja ákvæði þessa kafla nú á Alþingi. Ef frv. verður samþykkt svona mun forseti Íslands staðfesta það sem lög og þau birtast í Stjórnartíðindum með þessum kafla. Og segjum svo að efi utanrrh. rætist þannig að af samningnum verði ekki þá stendur þessi kafli og á að koma í íslenskt lagasafn, hvenær sem það verður gefið út, þó fyrirvari sé um gildistöku þangað til Alþingi er búið að gera lagahreinsun og koma þessu út úr lögum. Lögin verða ekki felld úr gildi með einhverju pennastriki. Alþingi hlýtur að verða að gera það.
    Mér finnst að lagasetning á Alþingi sé svo alvarlegur hlutur að ekki eigi að setja lög með þeim hugsunarhætti að við breytum þeim bara seinna. Það gildir að sjálfsögðu sama um það sem m.a. hv. 3. þm. Reykv. benti hér á, þ.e. orðalagið ,,EFTA-ríkjanna``, sem stendur í 44. gr. eins og frv. er orðið núna. Það tekur ótvírætt til þeirra allra. ( Gripið fram í: Það stendur EFTA-ríkja.) Ríkjanna. ( Gripið fram í: Ekki eins og frv. er orðið eftir 2. umr.) Ég vænti þess að hv. 3. þm. Reykv. hafi lesið þetta rétt. Ég vildi líka benda á hitt að merkingin í eftirlitsstofnun EFTA og dómstóli EFTA verður a.m.k. önnur en hún var þegar frv. var lagt fram. Þ.e. þessar stofnanir taka ekki til EFTA-ríkjanna allra eins og ekki var neinn vafi um að þessi orð þýddu þegar þau voru sett fram.
    Ég varpaði fram þeirri spurningu í efh.- og viðskn. í dag hvaða ástæða væri fyrir því að knýja fram samþykkt á þessum kafla í þessari óvissu um það hvernig samningurinn mun endanlega líta út. T.d. hefur hæstv. utanrrh. sagt að ítalska þingið var lengi vel ekki búið að fullgilda nærri öll ákvæði Rómarsáttmálans og samt virtist hann vera í gildi. Af hverju þurfum við á Alþingi Íslendinga að flýta okkur til að setja lög sem hugsanlega þarf að setja vegna samnings sem hæstv. utanrrh. hefur ekki enn þá sett stafina sína undir? Af hverju þurfum við að samþykkja þau áður en slíkur samningur liggur fyrir? Mér finnast slík vinnubrögð ekki sæmandi Alþingi. Eins og ég sagði tel ég að samþykkt laga sé það alvarleg athöfn að þar eigi ekkert að setja nema að vel yfirveguðu ráði og það sem menn eru vissir um að þeir geti staðið á en ekki eitthvað sem svífur í jafnlausu lofti.