Hlutafélög

114. fundur
Þriðjudaginn 23. febrúar 1993, kl. 18:09:28 (5383)

     Flm. (Kristinn H. Gunnarsson) :
    Virðulegi forseti. Ég vil leyfa mér að nota örfáar mínútur til að mæla fyrir frv. sem ég flyt ásamt hv. þm. Eyjólfi Konráð Jónssyni um breytingu á lögum um hlutafélög, nr. 32/1978. Þau lög voru vissulega á sínum tíma mjög merkileg lagasmíð og hafa staðist tímans tönn nokkuð vel. Sérstaklega þegar tillit er tekið til hversu mikil þróun hefur verið á því sviði sem lögin taka til. Engu að síður hafa verulegar breytingar orðið hafa á viðskiptalífinu frá þeim tíma og nauðsynlegt að mati okkar flm. að leggja til breytingar á þeim lögum.
    Frv. fjallar í raun og veru allt um einn ákveðinn þátt, þ.e. breytingar sem lúta að því að hlutafélög verði í ríkari mæli almenningshlutafélög en verið hefur. Markmið frv. er að auka trú almennings á hlutafélögum sem fjárfestingarkosti. Það má spyrja sig: Er það markmið sem er eftirsóknarvert? Við svörum því að við teljum svo vera af eftirgreindum ástæðum:
    Í fyrsta lagi stuðlar það að auknum áhrifum og aðhaldi almennings á rekstri fyrirtækja.
    Í öðru lagi. Með því að hlutafélög sæki meira fé með sölu á hlutabréfum en verið hefur er verið að draga lánsfjárþörf þeirra og þar með að stuðla að lækkun vaxta.
    Í þriðja lagi, sem leiðir af öðru atriðinu, er verið að efla hlutabréfin sem fjárfestingarvalkost sem í sjálfu sér veitir bönkunum aðhald í samkeppninni um sparifé.
    Í fjórða lagi er með því að hlutabréf eru gerð að valkosti sem fólk hefur trú á verið að veita einkaneyslunni aðhald en að mínu viti er mjög mikilsvert atriði að binda löggjöf þannig að hún stuðli sérstaklega nú um mundir eins og staðan er í íslensku atvinnulífi að því að fólk flytji fé frá einkaneyslu yfir í atvinnulífið.
    Þá vil ég draga fram sem rökstuðning fyrir þessu markmiði að með því að styrkja hlutafélög eigum við þar frekari kosti en áður að treysta fyrirtæki á landsbyggðinni og treysta þar með byggðina.
    Um hlutafélög má segja að samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef munu um 8 þús. hlutafélög skráð um þessar mundir og þar af um 4--5 þús. sem eru virk eða í rekstri. Af þessum fjölda, 4--5 þús., eru hins vegar ekki nema um 300 hlutafélög sem eru með hömlulaus viðskipti á sínum hlutabréfum. Það er því ljóst að valkosturinn almenningshlutafélag er ekki mjög stór í hlutafélagaflórunni.
    Í upplýsingum sem ég hef um fjármagnsmarkaðinn eins og hann leit út við árslok 1991 kemur fram að hlutabréf eru einungis um 13,5% af fjármálamarkaðnum samanborið t.d. við spariskírteini og ríkisvíxla sem eru 18,3%. Sparifé landsmanna virðist að mestu leyti ávaxtað í bönkum og sparisjóðum en það er um 48,6% af fjármálamarkaðnum. Ég tel nauðsynlegt að reyna með löggjöf að stuðla að því að hlutur hlutabréfa á fjármálamarkaði aukist frá því sem nú er og að sú aukning komi fram í almenningshlutabréfum.
    Leiðin til að ná þeim markmiðum sem ég gat um í upphafi kemur fram í greinum frv. en þar eru lögð til eftirfarandi atriði:
    Í fyrsta lagi er lagt til að gerðar verði frekari kröfur en nú eru um hömlulaus viðskipti með hlutabréf.
    Í öðru lagi að stjórn hlutafélags verði öll kosin á sama hluthafafundi og víxlkosning afnumin.
    Í þriðja lagi að það verði víðtækari skylda en nú er að hlutafélag hafi löggiltan endurskoðanda.
    Í fjórða lagi að stjórn hlutafélags verði gert skylt að senda þeim hluthöfum er þess óska ársreikning og ársskýrslu stjórnar inna sex mánaða frá lokun reikningsárs.
    Í fimmta lagi að almenningi verði heimill aðgangur hjá hlutafélagaskrá að ársreikningum þeirra hlutafélaga sem leggja engar hömlur á heimild hluthafa til meðferðar á hlutabréfum.
    Það er skoðun flm. að með þeim efnisatriðum sem er að finna í frv. náist fram það markmið sem stefnt er að --- að auka trú almennings á hlutafélögum sem fjárfestingarkosti.
    Um 1. gr. frv. vil ég segja að þar er gert ráð fyrir að breyta 18. gr. núv. laga um hlutafélög þannig að í stað þess sem segir í lagagreininni að hömlur megi ekki leggja á viðskipti með almenn hlutabréf milli íslenskra aðila að hlutafélögum þar sem hluthafar eru 200 eða fleiri verði miðað við hluthafafjöldann 25

eða fleiri. Það er meginhugsunin í hlutafjárlögunum að viðskipti með hlutabréf séu frjáls. Hins vegar eru mörkin í þessari grein gildandi laga svo há að þetta snýst við og hömlur verða meginreglan. Það er nauðsynlegt að færa þennan hluthafafjölda niður til þess að ná fram því markmiði sem menn ætluðu sér með lögunum á sínum tíma, að meginreglan verði sú að viðskipti með hlutabréf séu frjáls. Talan 25 er valin með hliðsjón af ákvæðum laga nr. 9/1984, þar sem er að finna ákvæði sem veitir mönnum skattaívilnun við það að fjárfesta í atvinnurekstri og þar með er reynt að tengja þessi tvenn lög saman einmitt í þeim tilgangi að ýta enn frekar undir það að almenningur leggi fram fé í hlutabréf.
    Í 2. gr. eru breytingar tvíþættar. Annars vegar er gert skylt að kjósa alla stjórn hlutafélags á sama hluthafafundinum og leggja þannig niður svokallaða víxlkosningu. Það hefur tíðkast a.m.k. sums staðar að kjósa stjórnina í tvennu lagi þannig að á einum fundinum er hluti hennar kosinn og á næsta fundi afgangurinn. Það gefur þeim sem hafa ákveðinn atkvæðastyrk tvisvar sinnum tækifæri til að beita honum á kostnað þeirra sem hafa minni atkvæðastyrk. Með þessu er leitast við að styrkja réttindi þeirra sem eru minni hluti í hlutafélögum.
    Seinni breytingin í 2. gr. fjallar um að rýmka þau mörk sem nú eru í lögum til að krefjast margfeldiskosningar eða hlutfallskosningar. Þar er lagt til að lækka þann þröskuld sem er í lögum til að menn megi beita hlutfallskosningu og þannig treysta og tryggja rétt sinn samkvæmt hlutfalli atkvæða.
    3. gr. fjallar um að skylda í fleiri tilvikum en nú er fyrirtæki til að hafa löggiltan endurskoðanda. Hugsunin er sú að treysta áreiðanleika upplýsinganna.
    Í 4. gr. er nýrri málsgrein bætt við 93. gr. laganna sem er á þann veg að gera stjórn hlutafélags skylt að senda hluthöfum ársreikninga og ársskýrslur ef þeir óska þess sjálfir. Þarna er verið að lögfesta ákvæði sem á að tryggja aðgang hluthafa að upplýsingum.
    Í 5. gr. er lögð til sú breyting á núgildandi lögum að skylt verði að veita almenningi aðgang hjá hlutafélagaskrá að ársreikningum hlutafélaga sem ekki leggja hömlur á meðferð hlutabréfa. Samkvæmt núgildandi lögum er það einungis heimilt en ekki skylt. Þarna er verið að undirstrika mikilvægi þess að upplýsingar liggi fyrir.
    Í 6. gr. er lagt til að lög þessi öðlist gildi um næstu áramót, 1. jan. 1994. Verði þetta frv. að lögum þurfa hlutafélög af augljósum ástæðum ákveðinn tíma til að breyta sínum samþykktum til samræmis við ákvæði þess.
    Ég vil svo, virðulegur forseti, ekki orðlengja frekar um þetta frv. sem tekur á einum þættinum í nauðsynlegum breytingum sem verða að eiga sér stað og eru að eiga sér stað, m.a. með löggjöf sem unnið hefur verið að á þinginu í vetur um samkeppnislög og Verðbréfaþing Íslands, til að stuðla að því að fjárfesting í atvinnulífinu verði valkostur til jafns við sparnað í bönkum því að íslensku atvinnulífi er mjög nauðsynlegt að fá fjármagn til að bæta sína eiginfjárstöðu sem er ekki góð, a.m.k. að miklu leyti, eins og landsmönnum er kunnugt.