Fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri

114. fundur
Þriðjudaginn 23. febrúar 1993, kl. 18:39:11 (5386)


     Steingrímur Hermannsson :
    Herra forseti. Ég vil sömuleiðis þakka hæstv. viðskrh. fyrir svör hans. Ég held að hann hafi leitast við að svara þeim eftir föngum. Ég þakka hæstv. viðskrh. alveg sérstaklega fyrir að leiðrétta þann misskilning hjá mér að frv. gerði ráð fyrir að hleypa mönnum nokkuð óheft í frumvinnslu sjávarafurða. Ástæðan fyrir því að ég lagði þann skilning í þessar breytingar er einfaldlega sú að í athugasemdum með frv. segir að það sé flutt til að laga þessi lög að samningi um Evrópskt efnahagssvæði. Með leyfi forseta stendur hér:
    ,,Frumvarp þetta er flutt til að laga reglur um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri hér á landi að ákvæðum samningsins um Evrópskt efnahagssvæði.``
    En um rétt ríkisborgara annarra ríkja til þess að fjárfesta hér í fyrirtækjum sem eiga aftur í sjávarútvegi segir í fskj. IV í g-lið 1. tölul. XII. viðauka við samninginn um Evrópskt efnahagssvæði, með leyfi forseta:
    ,,Þrátt fyrir 40. gr. samningsins og ákvæði þessa viðauka er Íslandi heimilt að beita áfram þeim höftum sem eru í gildi við undirritun samningsins um eignarrétt erlendra aðila og/eða eignarrétt aðila sem ekki eru búsettir á Íslandi á sviði fiskveiða og fiskvinnslu.`` En síðan segir: ,,Þessi höft skulu ekki koma í veg fyrir fjárfestingar erlendra aðila eða ríkisborgara sem eru ekki með lögheimili á Íslandi í félögum sem taka aðeins á óbeinan hátt þátt í fiskveiðum eða fiskvinnslu. Þó hafa innlend yfirvöld rétt til að skuldbinda fyrirtæki sem hafa að hluta eða öllu leyti verið keypt af erlendum aðilum eða ríkisborgurum sem ekki eru með lögheimili á Íslandi til að losa sig við fjárfestingar í starfsemi á sviði fiskvinnslu eða í fiskiskipum.``
    Hér er ,,haltu-mér-slepptu-mér``-ákvæði sem vakið hefur a.m.k. furðu mína. Í fyrstu setningu er beinlínis sagt að ekki megi koma í veg fyrir svona fjárfestingu en síðan er ráðherra veitt heimild til að skylda slíkt fyrirtæki að losa sig við fjárfestingu í fiskvinnslu. Það er að vissu leyti mjög athyglisvert að hæstv. viðskrh. hefur fundið leið til þess að fara fram hjá þessu, textinn hér er ekki í samræmi við þennan viðauka, og ég vil óska honum til hamingju með það. Ég vona sannarlega að við getum gert þetta á miklu fleiri sviðum. Fróðlegt væri að vita hjá hæstv. ráðherra hvernig hann fær þetta skýrt gagnvart hinum háu herrum í Brussel.
    Að öðru leyti í sambandi við svör ráðherrans er mér ekki enn ljóst hvernig hann hyggst komast fram hjá eignaraðild erlendra aðila í orkulindum. Hann sagði að vísu að hann væri að undirbúa frv. um eignarrétt Íslendinga á orkulindum en, með leyfi forseta, segir í 3. lið 2. gr. frv.:

    ,,Íslenska ríkið, sveitarfélög, íslenskir ríkisborgarar sem eiga lögheimili hérlendis og lögaðilar sem eiga heimili hér á landi og eru að öllu leyti í eigu íslenskra ríkisborgara sem eiga lögheimili hérlendis mega einir eiga virkjunarréttindi vatnsfalla og jarðhita önnur en til heimilisnota. Sama á við um fyrirtæki sem stunda orkuvinnslu og orkudreifingu.`` En síðan segir:
    ,,Frá og með 1. janúar 1996 skulu ríkisborgarar aðildarríkja Evrópska efnahagssvæðisins og lögaðilar með heimili á svæðinu hafa sama rétt til fjárfestingar á þessu sviði og íslenskir ríkisborgarar og lögaðilar.``
    Mér sýnist satt að segja að hér sé verið að opna frá 1996. Að vísu er gefinn nokkur frestur, sem er ekki í sambandi við flugið t.d. en ætlun er að veita ríkisborgurum hins Evrópska efnahagssvæðis öll sömu réttindi. Ég spurði áðan að því hvernig menn hygðust koma í veg fyrir að þessir ríkisborgarar fengju á grundvelli þessa jafnréttis ríkisborgaranna sömu heimildir og íslenskir til að kaupa hlutabréf í þeim hlutafélögum sem ætlunin er að stofna á sviði orkugeirans.
    Nú vil ég taka það skýrt fram að ég geri mikinn greinarmun á því að breyta rekstrarformi í hlutafélag ef ríkið á öll hlutabréfin og þau eru bundin í ríkisins höndum og á hinu að selja hlutabréfin til einkaaðila. Einkavæðingin er ekki orðin nema hlutabréfin séu boðin til einkaaðila. Breytingin í hlutafélag út af fyrir sig er engin einkavæðing að sjálfsögðu og ég vona að við séum sammála um það.
    Ég spurði sömuleiðis hvort ekki væri ætlunin samkvæmt hinni hvítu bók ríkisstjórnarinnar að breyta orkufyrirtækjunum í hlutafélag. Nú upplýsir hæstv. ráðherra að um það sé ekkert ákveðið. Mér þykir vænt um að heyra það. Hann segir sem sagt að framkvæmd ákvæða hvítu bókarinnar sé ekki ákveðin og það var gott að heyra. Hann upplýsti að eingöngu væri verið að leita að öðru rekstrarformi fyrir Rafmagnsveitur ríkisins.
    Ef ætlunin er að breyta t.d. Landsvirkjun í hlutafélag, þó að ekki sé gert ráð fyrir að selja hlutabréfin, þ.e. einkavæða fyrirtækið og eins og ég sagði greini ég þar á milli, þá spyr ég jafnframt: Hvernig verður hægt eftir að búið er að breyta þessu fyrirtæki í hlutafélag að meina Akureyrarbæ eða Reykjavíkurborg að selja sín hlutabréf? Jú, það væri vitanlega hægt með forkaupsrétti ríkisins t.d. Mér er það ljóst. Því vil ég spyrja: Er ætlunin að breyta Landsvirkjun í hlutafélag og er ætlunin að setja þar inn ákvæði sem tryggja að þessi bæjarfélög geti ekki selt hverjum sem er sín hlutabréf? Ef það er ekki gert gætu þau að sjálfsögðu selt aðilum á hinu Evrópska efnahagssvæði sín hlutabréf. Þau gætu ekki komið í veg fyrir það ef þau settu hlutabréfin í almenna sölu.
    Spurningin er því í fyrsta lagi: Er ætlunin að breyta Landsvirkjunin í hlutafélag? Ef það er ætlunin er þá ætlunin að setja þar inn ákvæði sem tryggja einkarétt ríkisins? Reyndar hlýtur maður að spyrja hvort slíkt ákvæði héldi gagnvart jafnrétti allra aðila til að kaupa hlutabréf.
    Við í síðustu ríkisstjórn vorum fullvissaðir um að svo lengi sem ríkið hefði einkarétt á virkjun fallvatna og væntanlega jarðhita, sem hefur verið boðað lengi að eigi að innleiða, yrði því ekki mótmælt af háum herrum í Brussel. Ég vildi því gjarnan fá þetta upplýst eitthvað nánar ef hægt er.
    Svör hæstv. ráðherra um bankana þóttu mér dálítið loðin. Ég tók ekki eftir því að hann svaraði þeirri spurningu minni hvort hömlur yrðu settar á sölu hlutabréfa eða hvort eingöngu væri ætlunin að breyta bönkunum í hlutafélög, þ.e. breyta rekstrarforminu sem er, eins og ég sagði áðan, allt annað en einkavæða banka. Ég hef nefnilega heyrt því fleygt að jafnvel sé verið að tala um að selja í upphafi stóran hluta af hlutabréfum bankanna til stórra aðila í þjóðfélaginu, jafnvel 25%, og það séu nýjar hugmyndir frá því sem áður var að selja aðeins í smáhlutum, 1% eða minna. Ég vil því spyrja beint út: Er einhver fótur fyrir þessum flugufregnum að einkavæðingarhugmyndin sé nú að selja jafnvel 25% í upphafi til stórra aðila? Þeir verða þá að vísu væntanlega í höndum innlendra aðila fram til 1. jan. 1996. Þó er erlendum aðilum heimilt samkvæmt lögum nú að kaupa allt að 25% í hlutafélagabönkum. Er þetta kannski við það miðað að erlendur aðili geti keypt þessi 25%?
    Ef hæstv. ráðherra hefur lesið það í samþykktum flokksþings framsóknarmanna að Framsfl. væri því hlynntur að einkavæða bankana, þ.e. að gera þá að hlutafélögum og selja síðan, bið ég hann að lesa miklu betur. Framsfl. er ekki á móti einkavæðingu ýmissa ríkisfyrirtækja sem hann telur ekki þörf á fyrir ýmsa þá þjónustu sem við og a.m.k. jafnaðarmenn lengi töldu nauðsynlegt að ríkið hefði viss tök á til að jafna lífskjör í landinu og jafna aðstöðu bæði einstaklinga og atvinnuvega. Við teljum ríkisbanka í þeim hópi og teljum nauðsynlegt að ríkið geti haft viss áhrif á starfsemi ríkisbanka til jöfnunar í þjóðfélaginu, þ.e. til að jafna aðgang einstaklinga og fyrirtækja að fjármagni, að sjálfsögðu innan viðskiptamarka, þ.e. fyrirtæki sem hafa nægar tryggingar o.s.frv. En við vitum mætavel að víða á landsbyggðinni er ástandið þannig að fyrirtækjum þar hefði reynst erfitt að fá fjármagn ef ríkisbankar hefðu ekki sinnt þeim. Það er vitanlega ekkert leyndarmál í þessu sambandi.
    Ég get að vísu spurt ýmislegt fleira um þessar hugmyndir að einkavæða ríkisbankana en ætla ekki að gera það hér.
    Hæstv. ráðherra minntist á nokkrar greinar sem ég tel æskilegt að styðja með beinni þátttöku ríkisvaldsins eða óbeinni á einhvern máta. Ég minntist m.a. á hjartalækningar. Það er rétt hjá hæstv. ráðherra að ég hafði miklar efasemdir um það á sínum tíma að Íslendingar gætu sinnt því svo vel færi og byggði þær efasemdir á skýrslum frá World Health Organisation, WHO, sem taldi óráðlegt að leggja í slíkt þar sem ekki væru yfir 200 tilfelli á ári og þau voru ekki svo mörg hér þá. Ég er hins vegar með þeim eiginleika

að ég viðurkenni mín mistök en það eru ekki allir sem gera það. Þetta var rangt hjá mér og mér er satt að segja mjög annt um að viðurkenna þetta því að það sýnir hvað íslenskir læknar í þessu tilfelli eru færir og í raun og veru afsanna þær reglur sem alþjóðastofnanir telja að eigi að gilda um þetta svið. Mér er mjög ljúft að fá tækifæri til að leiðrétta að mér skjátlaðist svo sannarlega í þessu. Og ég vona að mér skjátlist ef ég hef efast um aðra slíka hæfni íslenskra fagmanna.
    Í ágætu riti sem ég var að lesa áðan, Vinnunni, er vakin athygli á því að hér í landi eru 600 gwst. ónotaðar þar sem búið er að fjárfesta í mjög dýrum framkvæmdum, þ.e. í vatnsaflsveri. Það er held ég á vitorði okkar beggja að kostnaður við slíka raforkuframleiðslu er líklega um 85% fjárfestingarkostnaður svo þarna glatast mjög mikil fjárfesting og fer mikið fjármagn til sjávar. Ég held að það væri afar athyglisvert að bjóða þessa orku á hagkvæmu verði, ekki bara erlendum aðilum en þó má gera það líka heldur innlendum aðilum sem geta aukið sína orkunotkun og alveg sérstaklega þeim sem geta nýtt hana nokkuð jafnt yfir sólarhringinn og ekki síður hinum sem geta þolað að orkan sé rofin á toppnum. Nú held ég að varla geti verið þeir toppar til nú sem krefjast þess að orkan sé rofin. Þarna er vitanlega fundin leið til þess t.d. að lagfæra fyrir útflutningsiðnað okkar landsmanna og gera hann samkeppnisfærari. Það getur enginn haft neitt á móti því, jafnvel ekki háu herrarnir í Brussel því að það er fundið fé að selja orkuna og mætti t.d. lagfæra þarna nokkuð fyrir fiskvinnsluna. Ég vil skjóta þessu hér inn í.
    Að lokum er það Malta. Það er rétt að mér var boðið af krötum á Möltu, af Mintoff gamla sem var þar forsætisráðherra í 17 ár. Það var afar fróðleg heimsókn. En það sem vakti ekki síst athygli mína hjá þessu smáríki, sem er einnig í útjaðri Evrópu, var hvernig kratarnir þar líta á þessi mál og, ég verð að segja að mér þykir það leitt, allt öðruvísi en kratarnir hér. Það er svo ólíkt að þar er engu saman að jafna. M.a. eru þeir uppteknir af því að finna leiðir til að taka þátt í þessu evrópska samstarfi án þess að verða gleyptir og segja beinlínis að þeir sem smáþjóð hljóta að hafa allan varann á. Þeir staldra sérstaklega við tvö atriði. Það er frjáls innflutningur vinnuafls og frjáls fjármagnsflutningur þar sem þeir telja að smáríkinu Möltu sé mikil hætta búin. Þeir kunni að verða gleyptir eins og þeir orðuðu það. Ég get lánað hæstv. ráðherra athuganir þeirra á þessu og mjög fróðlega greinargerð sem þeir skrifuðu með. Það er ekki síður athyglisvert að hálærður hagfræðingur, dr. Sant frá Harvardháskóla, er formaður í þessum flokki og virðist hafa lært vestur í Bandaríkjunum það sem ungu hagfræðingarnir þar eru að kenna á þessum sviðum. Ég má ekki fara að teygja lopann út af þessu þó að það væri satt að segja afar fróðlegt. Ég vil gjarnan upplýsa hæstv. viðskrh. um þetta ef hann tæki þessa ágætu ,,flokksbræður sína`` á Möltu að einhverju leyti til fyrirmyndar.