Heilbrigðismál

115. fundur
Miðvikudaginn 24. febrúar 1993, kl. 15:23:28 (5397)

     Ingibjörg Pálmadóttir :
    Virðulegur forseti. Hæstv. forsrh. gaf tóninn áðan og kallar þá sem gagnrýna hæstv. heilbrrh. vini eyðslunnar. Hann talaði um hæstv. heilbrrh. sem hetju.
    Virðulegi forseti. Ríkisstjórnin hrósar sér af stöðugleika. Stöðugleiki þessi finnst ekki í heilbrigðiskerfinu. Í heilbrigðismálum er mikill verðbólgudraugur á ferðinni. Það þekkja þeir sem þurfa á lyfjum og læknishjálp að halda. Þeir hafa þurft að taka á móti í það minnsta átta breytingum á síðustu missirum. Ein reglugerð er ekki komin til framkvæmda þegar önnur birtist. Engin heildstæð stefna er í heilbrigðismálum önnur en sú að sjúklingurinn borgar meira og meira, meira í dag en í gær. Um hvaða stöðugleika eru menn að tala? Þegar þetta gerist á sama tíma og atvinna minnkar og kaupmáttur rýrnar skulu þeir borga

sem hingað til hefur verið sátt um að hlífa.
    Ýmsar kenningar eru uppi hjá hæstv. ríkisstjórn um að auka kostnaðarvitund sjúklinga. Ég segi það fyrir mig að ég gef lítið fyrir kostnaðarvitun hjartasjúklinga og krabbameinssjúklinga. Hér hefur verið áður rætt um það hvað þessir sjúklingar þurfa að borga í dag. Umbætur til almannaheilla kallar Jafnaðarmannaflokkur Íslands þessar ,,umbætur`` og sjálfstæðismenn eru ekki með hávær mótmæli, langt frá því.
    Í gær kom það fram á fundi hjá Alþfl., sem var að kynna þessar ,,umbætur til almannaheilla`` að að jafnaði færi aðeins um 1% af heildartekjum heimilanna til læknisþjónustu. Hvað segir slíkt meðaltal okkur? Akkúrat ekki neitt. Jú, að að meðaltali eru Íslendingar heilbrigðir. En þegar einstaklingur þarf að leita læknis og er með langvarandi sjúkdóma getur það farið svo að allt að 100% af heildartekjum sama einstaklings fari til læknishjálpar. Það gerist æ oftar að sjúklingur hringir í apótek og spyr hvað ákveðið lyf kostar sem hann á að sækja og síðan er lyfið ekki sótt því sjúklingurinn á einfaldlega ekki fyrir lyfinu þrátt fyrir að þessi lyf séu lífsnauðsynleg sjúklingnum. Það gerist í æ ríkari mæli að mæður hringja sem eiga að fara með börn sín í ýmsar rannsóknir eða aðgerðir, t.d. setja rör í eyra sem er mjög algeng aðgerð, og spyrja hvað aðgerðin kostar. Hún kostar um 4.000 kr. Þessar mæður mæta oft ekki í þessar aðgerðir vegna þess að eftir aðgerðin þarf sjúklingurinn einnig að kaupa lyf sem kosta jafnvel jafnmikið og aðgerðin.
    Virðulegur forseti. Hvernig líður móður sem ekki hefur efni á að leysa út fúkkalyf fyrir barnið sitt? Ég held, virðulegur forseti, að það þurfi ekki að örva kostnaðarvitund þessa fólks.
    Lítum á áhrif reglugerðarbreytinga sem átt hafa sér stað undanfarið. Ég hef t.d. dæmi um barn sem fékk sýkingu í fót rétt eftir áramót og hefur nú þegar borgað 25.000 kr. fyrir fúkkalyf. Þessi lyfjameðferð hefur ekki gagnað þannig að grípa þar til enn dýrari lyfja. Foreldrarnir hafa ekki efni á að borga þessi lyf og læknirinn hefur engin önnur ráð en að leggja barnið inn á sjúkrahús því sjúkrahúsvist kostar ekkert fyrir sjúklinginn en kostar aftur á móti 18 þús. kr. á sólarhring fyrir ríkið. Það er ekki læknisfræðileg nauðsyn að leggja barnið inn en það er nauðsyn vegna þess að foreldrarnir hafa ekki efni á að greiða fyrir lyfið. Það er orðið mjög algengt að læknar grípi til þess að leggja inn sjúklinga sem hafa ekki efni á að fara í þær aðgerðir sem þeir þurfa að fara í en geta farið í á göngudeildum.
    Skoðum nýlega reglugerð um svokölluð ferliverk. Það hefur ekki verið rætt hér um svokölluð ferliverk. En ég ætla í fáum orðum að segja hvernig þetta fer fram. Það fer þannig fram að læknir á sjúkrahúsi sem er á fullum launum, 100% launum frá sjúkrahúsinu, tekur að sér svokallað ferliverk. Inn kemur sjúklingur sem fer í aðgerð. Aðgerðin kostar sjúklinginn 10--14 þús. kr. Síðan getur læknirinn fengið laun eftir sérstökum taxta fyrir þetta verkefni þó hann sé á 100% launum. Við hliðina á þessum sérfræðingi sem rukkar sjúklinginn er hjúkrunarfræðingur og annað starfsfólk sem aðstoða lækninn en hafa auðvitað ekki neinar sérstakar aukagreiðslur fyrir. Það er ekki verið að spara neitt fyrir sjúkrahúsið heldur fá sérfræðingar þarna aukaborgun. Var það ætlunin, hæstv. heilbrrh.? Það er meira að segja svo langt gengið að á meðan hjúkrunarfræðingur svæfir sjúklinginn er læknirinn jafnvel að reikna út hvað hann fær mikið fyrir þetta ferliverk. Var þetta ætlunin hæstv. ráðherra? En það vill svo til að það eru margir læknar sem hafa svo mikla andstyggð á þessari reglugerð að þeir nýta hana ekki.
    Ég er hér með dæmi um t.d. sjúkling sem fór í aðgerð sem flokkast undir svokallað ferliverk. Hann fór á sjúkrahús, borgaði fyrir aðgerðina 14.000 kr. en lagðist síðan inn. Það er allt í lagi samkvæmt þessari reglugerð. Það er hægt að liggja inni einn sólarhring. Það er eðlilegt. Þrátt fyrir það rukka læknar á fullum launum extra fyrir þessa aðgerð. Það er óeðlilegt.
    Í hvítbókinni er talað um að skilja á milli einkareksturs og starfa lækna á sjúkrahúsum. Þetta eru mikil öfugmæli því hér er verið að rugla þessu saman, hæstv. heilbrrh. Ég vona að í þeirri endurskoðun sem enn á eftir að fara fram skoði hæstv. heilbrrh. þetta.
    Mig langar að spyrja hæstv. heilbrrh. hvað það hefur sparað að loka Fæðingarheimilinu og hvað örtröðin á fæðingardeildinni hefur kostað. Hvað hefur hún kostað í aukavöktum o.s.frv.? Það er rétt að hæstv. heilbrrh. skoði það.
    Að vísu sagði hæstv. heilbrrh. að hann hefði ekki búist við svo mörgum fæðingum sem orðið hefur. Það fannst mér nokkuð merkilegt en hann lokaði eins og menn muna Fæðingarheimilinu til að koma í veg fyrir tvíverknað í fæðingum.
    Tíma mínum er að ljúka hér en það er margt ósagt.
    Virðulegi forseti. Ég fullyrði að enginn málaflokkur er jafnviðkvæmur fyrir sveiflum og illa ígrunduðum breytingum eins og heilbrigðismálin. Það hefur hingað til verið sátt um það í þjóðfélaginu að allir geti nýtt sér heilbrigðisþjónustuna án tillits til efnahags. Þessi mikilvæga samtrygging hefur verið brotin á bak aftur. Verkefni dagsins er að kveða þennan verðbólgudraug niður sem skapast hefur í heilbrigðismálum með vandaðri og faglegri vinnubrögðum en hér hafa átt sér stað undanfarið.