Heilbrigðismál

115. fundur
Miðvikudaginn 24. febrúar 1993, kl. 15:41:50 (5399)


     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Það er út af fyrir sig ástæða til þess fyrir þingmenn og ráðherra Alþfl. að gagnrýna þjóðina um þessar mundir og flytja ræður um það að þjóðin sé sérstaklega vanþakklát einmitt í dag. Það er alveg óhætt að sjá því föstu að þjóðin er ekki sérlega þakklát í garð Alþfl. samkvæmt skoðanakönnun Félagsvísindastofnunar. Það er fróðlegt finnst mér að hlýða á ræður hv. þingmanna og hæstv. ráðherra Alþfl. með hliðsjón af því að maður hefði kannski haldið að þessir þingmenn og ráðherrar hefðu eitthvað lært af þeim niðurstöðum sem nú birtast um viðhorf þjóðarinnar til vinnubragða þeirra. Ég er ekki í nokkrum vafa um það að óvinsældir ríkisstjórnarinnar meðal þjóðarinnar eiga fyrst og fremst rætur að rekja til fyrirgangsins og flumbrugangsins í heilbrigðismálum. Það hefði þess vegna verið eðlilegt að hæstv. heilbrrh. og hv. formaður heilbr.- og trn. hefðu einmitt á þessum degi látið í það skína, þó ekki sé meira sagt, að eitthvað hefði kannski mátt betur fara í örlitlum efnum, þó ekki stór væru, í stjórnartíð Sighvats Björgvinssonar, hæstv. heilbrrh. Það kom hvergi fram. Það er með öðrum orðum bersýnilegt að þeir ætla að halda áfram á sömu braut enda hefur forusta Alþfl. reyndar sagt að eftir því sem fylgi Alþfl. mælist minna sé Alþfl. bersýnilega á réttari braut og samkvæmt því þá óskaði ég þeim velfarnaðar á sömu braut með hliðsjón af fylgi Alþfl. en ekki með hliðsjón af velferð íslensku þjóðarinnar. ( Gripið fram í: Það er ekki mikið eftir.) Það er að vísu ekki mikið eftir, nei.
    Virðulegi forseti. Í þessari umræðu hefur mjög margt komið fram varðandi heilbrigðismál og kostnað þeirra vegna. Ég ætla ekki að bæta þar mjög miklu við en ég ætla að benda á nokkur atriði sem hafa komið fram í málflutningi hæstv. ráðherra og ríkisstjórnar nú og að undanförnu sem hafa reynst vera röng.
    Í fyrsta lagi hefur hæstv. heilbrrh. aftur og aftur sagt á Alþingi að allar áætlanir í þessum efnum hafi staðist. Hér á borði þingmanna er bók sem flytur mikil tíðindi og segir okkur allt aðra sögu heldur en þá sem hæstv. heilbrrh. hefur verið að segja enda er bókin rauð þó hún sé gefin út af hæstv. fjmrh. Í þessari bók kemur það fram á bls. 29 að áætlanir um lyfjakostnað ríkisins á síðasta ári fóru 490 millj. fram úr áætlun. --- 490 millj. Áætlanir um lækniskostnað fóru á síðasta ári 300 millj. fram úr áætlun. Að áætlanir um tannréttingakostnað fóru 140 millj. fram úr áætlun. Að áætlanir um tannlækningakostnað fóru 155 millj. fram úr áætlun og að áætlanir um daggjaldakostnað fóru 200 millj. fram úr áætlun á síðasta ári. Samtals fóru þessir liðir fram úr áætlun 1.087 millj. kr. eða 12%. Og hvað segir fjmrh. í þessu riti, þessum vitnisburði sannleikans sem er rauður? Hann segir, með leyfi forseta: ,,Árangurinn varð ekki eins og til var ætlast.``
    Með öðrum orðum: Fullyrðing heilbrrh. að áætlanir hans og hans starfsmanna hafi staðist er hrakin í þessu riti fjmrn.
    Í öðru lagi er það fullyrt af heilbrrh. aftur og aftur, m.a. í ræðum í dag, að heilbrigðiskerfið á Íslandi sé eitt það dýrasta í heimi. Það hefur aftur og aftur verið hrakið, m.a. af landlækni sem í grein í Morgunblaðinu í síðustu eða næstsíðustu viku benti á að kostnaður við heilbrigðisþjónustu á Íslandi væri stórkostlega ofmetinn af því að inni í tölunum er hvers konar kostnaður sem erlendis er færður sem félagslegur kostnaður. Þessar upplýsingar heilbrrh. sem hann tönnlast á og endurtekur í þessum bæklingi eru líka rangar.

    Það er í þriðja lagi fullyrt af hæstv. heilbrrh. að sérstaklega mikill árangur hafi náðst í sparnaði á lyfjum. Hv. 4. þm. Suðurl., Margrét Frímannsdóttir, hrakti það mjög eftirminnilega áðan. Það var sérstaklega eftirminnilegt vegna þess að sú ræða var flutt beint ofan í ræðu hæstv. heilbrrh. Í ræðu hæstv. heilbrrh. kom fram að sparnaðurinn hefði verið hvorki meira né minna en 1.200 millj. kr. á tveimur árum --- niður í hvað og frá hverju? Jú, frá því sem ella hefði verið ef ekkert hefði verið að gert. Samkvæmt þessari hundalógík má auðvitað fullyrða á sama hátt að kostnaður við lyf að óbreyttu yrði um aldamótin ekki 3 milljarðar heldur 10 milljarðar. En auðvitað lá það fyrir, m.a. í tíð fyrrv. hæstv. heilbrrh. að á þessum málum var tekið og niðurstaðan er sú að kostnaður við lyf hækkaði á síðasta ári en lækkaði ekki. Samkvæmt upplýsingum Ríkisendurskoðunar sem hv. þm. Margrét Frímannsdóttir flutti áðan, þá fer kostnaðurinn á árinu 1991 úr 2.501 millj. kr. í 2.764 millj. kr., hann hækkar í rauntölum um 10,5%. Þar með er fyrsta síðan sem ég hef skoðað í þessum bæklingi frá heilbrrn. dæmd röng. Ef bæklingurinn er allur svona þá skora ég á heilbrrh. og aðstoðarmann hans sem situr hér til hliðar að afturkalla þennan snepil sem er væntanlega gefinn út á kostnað almennings og væri reyndar fróðlegt að reikna það út hvað allt bröltið, útgáfan, fundirnir, auglýsingarnar og annað hefur kostað í yfirvinnu og prentunar- og auglýsingakostnaði í heilbrrn.
    Í fjórða lagi er rangt staðið að þessum vinnubrögðum öllum af hálfu ráðuneytisins. Í stað þess að laða heilbrigðisstéttirnar til samstarfs er ráðist að þeim. Dæmi má nefna í því sambandi einstakar stofnanir eins og St. Jósefsspítala. Muna menn eftir atlögunni að St. Jósefsspítala? Muna menn eftir atlögunni að Kristnesspítala? Muna menn eftir atlögunni að Landakoti? Muna menn eftir atlögunni að forstöðumönnum elliheimilanna í landinu sem væru allir saman þjófar ef taka mætti það trúanlegt sem hæstv. heilbrrh. hafði sagt? Það er rangt að þessu staðið og þess vegna er árangurinn með öðrum hætti en ella hefði getað orðið, vegna þess að það er rangt hjá hæstv. heilbrrh. að þjóðin vilji út af fyrir sig ekki spara í þessum efnum. Menn vilja spara en menn vilja að það sé tekið á því með allt öðrum hætti.
    Það er í fimmta lagi rangt sem kom fram hjá hæstv. heilbrrh. og hæstv. forsrh. sem hafði svo mikið við að tala um heilbrigðismál. Og fjallið tók jóðsótt og það fæddist mús. Það fæddist mús, óskaplega ræfilsleg. Vegna þess að auðvitað er það þannig, virðulegi forseti, að það hefur dregið úr þjónustu og þjónustan hefur versnað. Vita menn ekki hvernig þjónustan er á fæðingardeildinni á Landspítalanum um þessar mundir? Vita menn ekki að ástandið þar er þannig að þar gerist það í stórum stíl að það verður að leggja konurnar á ganga eftir fæðingar og það hefur ekki gerst um langt árabil? Auðvitað hefur þjónustan versnað. Auðvitað hefur þjónustan versnað þó svo það fólk sem hér um ræðir hafi lagt mjög mikið á sig til þess að gera hlutina eins góða og mögulegt er.
    Hæstv. heilbrrh. nefnir tölur um það að aðgerðum hafi fjölgað. Já, þeim hefur fjölgað. En af hverju hefur þeim fjölgað? Fyrst og fremst vegna stórfelldra tæknibreytinga af ýmsu tagi. T.d. er fyrirsjáanlegt að aðgerðum á Landspítalanum mun á næsta ári fjölga verulega, ekki vegna þess að heilbrrh. sé svo snjall að reka fólkið áfram. Nei, heldur vegna þess að þar verður tekin upp ný tækni, tæki sem heitir steinbrjótur og verður notað með sérstökum hætti og með fjölda aðgerðum. Aðgerðum hefur líka fjölgað vegna þess að það hafa verið teknar upp svokallaðar fimm daga deildir í verulegum mæli. Aðgerðum hefur líka fjölgað vegna þess að nú nota menn allt aðra tækni en áður var við gallsteinauppskurði svo að ég nefni dæmi. Og staðreyndin er sú að ef litið er yfir nokkurra ára sögu heilbrigðisþjónustunnar á Íslandi hefur aðgerðum jafnt og þétt verið að fjölga og legutími hefur jafnt og þétt verið að styttast. Þess vegna er þetta ekki vegna aðgerða ríkisstjórnarinnar heldur þrátt fyrir þær að menn hafa getað haldið þjónustunni sæmilegri víða þó hún sé lakari víða í heilbrigðiskerfinu. Því miður er það þannig og það vita þeir sem eru að veita þjónustuna, hjúkrunarfræðingar, sjúkraliðar, læknar, sjúkraþjálfarar.
    Að lokum er það auðvitað svo, virðulegi forseti, að það er rangt að ætla sér að reka stefnu í heilbrigðismálum núna sem tekur mið af sömu forsendum og gert var fyrir mörgum árum, fyrst og fremst vegna þess að efnahagsstefna ríkisstjórnarinnar hefur haft það í för með sér að hér er um að ræða stórfellt atvinnuleysi. Það er rangt sem hæstv. forsrh. sagði að enginn þyrfti að neita sér um þjónustu vegna lélegs efnahags, það er rangt. Ég veit sjálfur um fjölmörg dæmi um einstaklinga, t.d. einstæðar mæður, reyndar svipað tilvik og hv. þm. Ingibjörg Pálmadóttir nefndi, einstæðar mæður sem hafa ekki haft efni á því að fara með börnin sín í þá aðgerð sem nauðsynleg er vegna eyrnasjúkdóma. Ég gæti nefnt fleiri slík dæmi. Það liggur þannig að það eru þúsundir Íslendinga í dag sem hafa ekki efni á því að fara til læknis jafnvel þó að þjónustan kosti í hverju viðviki ekki nema 500 kr. eða 1.000 kr. eða 2.500 kr. Það er til svo fátækt fólk á Íslandi í dag að það hefur ekki efni á þessum hlutum. Þess vegna er það auðvitað umfram allt rangt að reka stefnu í heilbrrn. sem er ekki heilbrigðisstefna heldur ríkisfjármálastefna í þrengsta skilningi þess orðs. Það vantar stefnu í heilbrigðismálum sem ver það kerfi sem við höfum verið að byggja upp á undanförnum árum. ( Forseti: Þingmaðurinn er búinn með þann tíma sem Alþb. var úthlutað.)
    Virðulegi forseti. Ég vil ekki ganga á tíma annarra. Ég hélt að klukkan yrði sett hér á mig og ég sá að hún var unaðslega róleg, en ég skal senn fara að ljúka máli mínu og segja það að lokum að á undanförnum áratugum hefur verið góð samstaða um stefnu í heilbrigðismálum á Íslandi í grófum dráttum. Í heilbrrn. hafa setið ráðherrar úr öllum flokkum nema frá Samtökum um kvennalista og í rauninni hafa menn haft samstöðu um grundvallaratriði stefnunnar þangað til núna. Nú er ekki verið að reka stefnu á sömu forsendum velferðar og jafnaðar og áður. Það er það hættulega. Nú þarf að mynda samstöðu um nýja stefnu

í heilbrigðismálum sem byggist á forsendum jafnaðarstefnunnar og það er bersýnilegt að núv. heilbrrh. er ekki fær um að framkvæma þá stefnu þó hann komi frá flokki sem kennir sig við hana.