Flutningur á rekstri grunnskóla til sveitarfélaga

116. fundur
Fimmtudaginn 25. febrúar 1993, kl. 10:40:42 (5409)

     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) :
    Virðulegi forseti. Ég hef kannski ekki verið nógu skírmæltur að fyrirspyrjandi taldi sig ekki hafa fengið svör við spurningum sínum. Varðandi það hvernig sveitarfélögunum, og þá kannski einkum hinum fámennari, verði gert kleift að standa undir þeim kostnaði sem fylgir yfirfærslu grunnskólans til sveitarfélaganna, þá er það auðvitað alveg augljóst mál að það verður að yfirfæra tekjustofna til sveitarfélaganna. Tekjustofna sem duga til þess að standa undir rekstri grunnskólans eins og hann verður ákveðinn með nýrri löggjöf. Í dag eru þetta rúmir 5 milljarðar kr. og ég hef tekið það skýrt fram á fundum sem ég hef setið um þessi mál með sveitarstjórnarmönnum og skólamönnum að að sjálfsögðu verði hlutdeild sveitarfélaganna í tekjuskattinum að aukst sem því nemur sem áætlað er að þessi yfirfærsla muni kosta þegar hún á sér stað. Ég hef nefnt þá tölu sem núna er og sem við vitum að dugar ekki til þess að framkvæma lögin eins og þau eru. Til að þetta sé alveg ljóst: Sumir telja að það verði að vera forsenda fyrir þessari yfirfærslu til sveitarfélaganna, að samruni eða sameining sveitarfélaga eigi sér stað og tillögur eru uppi um það hjá nefnd félmrh. um sameiningu sveitarfélaga.
    Það er ekki mín skoðun að það sé endilega nauðsynleg forsenda en ef samruni sveitarfélaga á sér ekki stað þá held ég að það sé alveg ljóst að samstarf hinna fámennari verður að koma til. Mér er vel ljóst að hin allra fámennustu verða ella í erfiðleikum en það kann að vera að hægt sé að leysa það með ákveðnum jöfnunaraðgerðum sem þarna yrðu tekin upp.
    Varðandi prófin og fleira sem hv. þm. nefndi þá hef ég ekki tíma til að ræða það en það er ekki rétt að verið sé að leggja til að próf í fornum stíl, eins og hv. þm. orðaði, verði tekin upp.