Samkeppnislög

117. fundur
Fimmtudaginn 25. febrúar 1993, kl. 11:34:19 (5415)

     Kristín Ástgeirsdóttir (um atkvæðagreiðslu) :
    Virðulegi forseti. Með brtt. 653, sem nú kemur til atkvæða, er lagt til að XI. kafli samkeppnislagafrv. verði felldur niður auk tveggja annarra breytinga sem tengjast þessum kafla. Í XI. kaflanum eru veittar heimildir til eftirlitsstofnunar EFTA og EFTA-dómstólsins til að fylgjast með framkvæmd fjórfrelsisins og svo sem kunnugt er, þá erum við flm. á þeirri skoðun að þar sé um ákveðið valdaafsal að ræða sem við erum andvíg.
    Þessi tillaga er flutt af fjórum ástæðum:
    1. Til að full samstaða megi nást hér á Alþingi Íslendinga um samkeppnislagafrv., enda felur það í sér margar mjög þarfar og góðar breytingar ef undan er skilið það sem er að finna í XI. kafla frv.
    2. Það leikur vafi á að það valdaafsal sem í XI. kaflanum er standist íslensku stjórnarskrána.
    3. Allt er í óvissu um það hvort hið Evrópska efnahagssvæði verður að veruleika og því óskynsamlegt að samþykkja lagabálka sem síðar þarf að taka upp að nýju til að hreinsa úr þeim þau ákvæði sem tengjast EES. Verði samningurinn að veruleika verður létt verk og löðurmannlegt að setja fram nýtt frv. í samræmi við þann veruleika sem við þá stöndum frammi fyrir.
    4. Við höfum fengið ólíkar túlkanir ráðuneytanna á því hvort orðalag XI. kafla stenst eftir að Svisslendingar felldu EES-samninginn. Því er einfaldasta leiðin að fella þennan kafla út úr frv. og skapa þannig samstöðu um ný samkeppnislög.