Samkeppnislög

117. fundur
Fimmtudaginn 25. febrúar 1993, kl. 11:49:35 (5421)

     Jóhannes Geir Sigurgeirsson :
    Virðulegi forseti. Ég vil benda virðulegum forseta á það að í atkvæðaskýringu sinni áðan staðfesti hv. 5. þm. Norðurl. v. það álit okkar í minni hluta nefndarinnar að XI. kaflann þurfi að bera aftur fram í formi nýs frv. og fara í gegnum þrjár umræður á Alþingi. Ég þakka hv. þm. fyrir að staðfesta þetta við atkvæðagreiðsluna. Þó ekki verði annað en það að taka þurfi út ákveðna greininn eða taka út EFTA-ríkin og setja í staðinn nöfn þeirra sem standa að samningnum þá þýðir það lagabreytingu sem þarf þrjár umræður í þinginu.
    Þetta undirstrikar að mínu mati það sem ég sagði í umræðu í fyrradag að það er ekki hægt að skýra þessa afstöðu stjórnarmeirihlutans og ríkisstjórnarinnar nema sem einhvern misskilinn metnað og það að stjórnarmeirihlutinn vilji ekki á nokkurn hátt koma til móts við stjórnarandstöðuna um breytt vinnubrögð þegar um samstöðumál er að ræða.
    Að öðru leyti þakka ég hv. þm. og formanni efh.- og viðskn. fyrir kveðjurnar til okkar nefndarmanna og ég tek þetta sem þakklæti fyrir það að við höfum verið, eins og ég sagði áðan, tilbúin til þess að mæta á nefndafundi nánast á hvaða tíma sem er. Ég tek þetta sem hug stjórnarmeirihlutans til þess og þakkir fyrir þau störf.