Skaðabótalög

117. fundur
Fimmtudaginn 25. febrúar 1993, kl. 12:23:35 (5425)

     Anna Ólafsdóttir Björnsson :
    Virðulegi forseti. Þar sem ég á sæti í allshn. þarf ég ekki að hafa mjög langt mál um þetta frv. Ég tek undir með hæstv. ráðherra að frv. útheimtir eðlis síns vegna ítarlega og vandaða umfjöllun vegna þess að hér er verið að gera grundvallarbreytingu á skaðabótalögum og í rauninni að taka upp nýjan hátt. Í þeirri vinnu þarf að líta til margra atriða er miklu máli skipta og afla upplýsinga. En nú þegar liggja fyrir umsagnir og ýmsar ábendingar og ég sé ástæðu til þess að fagna flestum þeim breytingum sem gerðar hafa verið á þessu frv. frá því það var seinast lagt fram. Ég tel þær til bóta. Það eru atriði varðandi meiri sveigjanleika, meiri möguleika á mati vegna sérstakra aðstæðna og einnig vegna aldurs sem ég tel til bóta.
    Það er alveg ljóst að hér munu verða verulegar og umtalsverðar breytingar á greiðslum bóta. Það þarf að gera sér grein fyrir hvernig þessi dæmi munu líta út og bera þau saman við núverandi mat þar sem að með þeirri grundvallarkerfisbreyting að miða ekki við læknisfræðilegar ástæður heldur við það tjón og þann tekjumissi sem gert er ráð fyrir að menn verði fyrir eftir slys eða annan skaða er að sjálfsögðu verið að taka upp allt annan hátt. Það er spurning hvernig matið verður á því hvað ætlað er að fólk tapi í tekjum. Viðmiðunin við tekjur á þeim tíma sem slys eða skaði verður hlýtur að vera dálítið varasöm. Það er undir aldri komið og meira að segja kynferði og því hvaða stétt fólk tilheyrir hverjir tekjumöguleikar þess eru á mismunandi aldri. Þarna er því ákveðin gildra ef gert er ráð fyrir því að í framtíðinni verði ástandið í launamálum nákvæmlega eins og það er nú. Sá grundvöllur er kannski það eina sem menn hafa en það hlýtur að koma til ákveðinnar kröfu um samræmingu og ákveðinnar réttlætiskröfu varðandi það að tekið sé tillit til fleira en tekna nákvæmlega á þeim tíma sem menn verða fyrir skaða. Eftir því sem ég best fæ séð er nokkur sveigjanleiki í frv. en ég tel álitamál hvort hann þurfi ekki að vera meiri.
    Það er einnig álitamál ef svo fer sem fyrirsjáanlegt er talið að það verði mjög mikil lækkun bóta vegna minni háttar áverka vegna þess að það hlýtur alltaf að vera matsatriði hvað er skaði hverju sinni og það þarf að taka ákveðið tillit til læknisfræðilegra atriða ekki síður en tekjumissis. Vissulega fer þetta eftir því hvernig ákvæði um miskabætur verða túlkuð og hvernig vinnureglur muni skapast. Einnig hlýtur að mega draga nokkurn lærdóm af því hvernig þessum málum er háttað í nágrannalöndum okkar en þetta frv. er vissulega skref í átt til samræmingar við þau kerfi sem þar eru notuð.
    Ég held að það séu einkum þessi atriði sem mér finnst ástæða til að geta við 1. umr. málsins. Mér finnst eðlilegt og rétt að það verði fyrst og fremst innan hv. allshn. sem tekist verður á um þessi mál og aflað upplýsinga og reynt að ná því réttlæti og þeirri kerfisbót sem hér er verið að reyna að leiða í lög. Út af fyrir sig sé ég ekki ástæðu til að andmæla því að tekjumöguleikar framtíðarinnar séu allt eins góður ef ekki betri grunnur þegar ákvarðaðar eru örorkubætur en læknisfræðilegt mat. En ég held þó að full ástæða sé til að skoða hvernig einstök dæmi verða og í þeim lauslega áætluðu dæmum sem liggja fyrir eru nokkur atriði sem sérstaklega þarf að athuga.
    Ég veit að hæstv. ráðherra er þetta jafnljóst og mér og ég sé ekki betur en þær breytingar sem gerðar hafa verið á frv. hafi verið nokkuð í þá átt þótt þeirri meginhugsun sé haldið að nú sé verið að breyta um kerfi og taka upp nýjan grunn í örorkumati.
    Ég tel að það komi vel út að greina á milli örorku og miskabóta og verði það framkvæmt með skynsamlegum hætti sé það eðlileg breyting. Ég reikna með því að í frv. séu mjög mörg atriði sem snúi til betri vegar á okkar kerfi í skaðabótarétti. Eins og hæstv. ráðherra gat um í framsögu sinni er þetta mál mjög margslungið og full ástæða til að kanna nokkur atriði, sérstaklega kanna betur hvað liggur að baki umsagna. Það er ekki hægt í þingræðu að rekja það frá einum lið til annars en að því loknu sé ég ekki annað en það ætti að vera hægt að gera sér grein fyrir því nákvæmlega hvað frv. felur í sér, hvaða breytingar og til hvers þær leiða.
    Það hefur verið haft á orði að tryggingafélögin hafi haft töluvert mikið að segja um það hvernig þetta frv. lítur nákvæmlega út. Ég heyrði á máli hæstv. ráðherra að það er vissulega tekið með í reikninginn að það hafa verið tiltölulega mikil útgjöld í þjóðfélaginu fyrir minni áverka. Þetta er atriði sem er ekkert sjálfgefið að þurfi að lagfæra með þeim hætti sem gert er í frv. en það er sjálfsagt að skoða það. Vissulega vilja allir borga lægri tryggingaiðgjöld en spurningin er þegar á reynir hvort menn eru almennt reiðubúnir og sáttir við það í okkar samfélagi að fá tiltölulega lítið bættan skaða sem er alla vega tímabundið býsna mikill þó hann komi kannski ekki þannig út í mati.

    Það hlýtur alltaf að orka tvímælis þegar verið er að gera kerfisbreytingar. Eitthvað er hægt að læra af því sem reynsla annarra landa sýnir en jafnframt verðum við að taka tillit til þess hvernig þessum málum hefur verið háttað hér og það jafnvel þó við séum að gera umtalsverðar kerfisbreytingar eins og með þessu frv.
    Þetta er vert að taka fram við þessa umræðu en ég ítreka það að innan nefndar munu e.t.v. fleiri álitamál koma upp og vera má að 2. umr. verði fróðlegri en sú fyrsta núna.
    Ég tek undir það að í sjálfu sér voru ágætar umræður um þetta mál í fyrra en ég held að þær hafi ekki verið neitt umfram það sem eðlilegt er með svo margslungið mál. Það getur vel gerst að þetta mál muni verða áfram til umræðu hér því það hlýtur alltaf að koma nálægt mörgum og gæta þarf að mörgum sjónarmiðum.