Skaðabótalög

117. fundur
Fimmtudaginn 25. febrúar 1993, kl. 12:34:29 (5426)

     Páll Pétursson :
    Frú forseti. Ég ætla ekki að hafa mörg orð um þetta þingmál að þessu sinni en ég vil koma örfáum atriðum á framfæri.
    Þegar ég blaða í frv. sýnist mér satt að segja að það sé samið af tryggingafélögunum. Mér sýnist hagsmuna tryggingafélaganna ágætlega gætt í þessu frv. og ég er ekki hissa á því að þau séu áhugasöm um að þetta verði lögfest því hagsmuna þeirra er áreiðanlega vel gætt.
    Ég geri líka ráð fyrir því að hagsmuna ríkissjóðs sé gætt en ég er í meiri vafa um að hagsmuna neytenda, þ.e. hagsmuna tjónþola, sé gætt með svipuðum hætti. Það liggur fyrir að samkvæmt þessu frv., ef að lögum verður, dregur mjög úr bótagreiðslum. Það telur hæstv. ráðherra að hljóti að leiða til lækkunar á tryggingaiðgjöldum. Betur að svo væri. En reynslan hefur kennt okkur að það er ekki einhlítt. Það er alls ekki einhlítt að þjónusta eða útgjöld lækki þó því sé haldið fram þegar verið er að setja hér lög. Ég hygg að vöruverð í landinu t.d. hafi ekki lækkað til muna við það að aðstöðugjaldið var afnumið fyrir jólin og þó ber verslunin mjög stóran hluta af aðstöðugjaldinu. Og ekki lækkaði kostnaður bifreiðaeigenda við einkavæðinguna á Bifreiðaeftirliti ríkisins þó því væri haldið fram og lagðir fram ítarlegir útreikningar þar um við meðferð þess máls á árum áður. Ég trúi því varlega að tryggingaiðgjöld lækki. Ég tel víst að bótagreiðslurnar lækki hins vegar.
    Nú liggur það fyrir að þetta frv. var sent til umsagna og nokkurt mark hefur verið tekið á a.m.k. sumum þeirra og frv. er í breyttri mynd. Það tel ég allt í rétta átt en því stend ég fyrst og fremst upp hér að ég tel nauðsynlegt fyrir hv. allshn. að fara ítarlega yfir þetta mál og senda það aftur til umsagnar til þess að fá álit umsagnaraðila á málinu í þeim búningi sem það er nú, láta ekki nægja, eins og oft er gert þegar frv. eru lögð fram þing eftir þing, að hafa í höndum umsagnir sem borist hafa á fyrri tíð. Málið er breytt og kann að vera að aðrar umsagnir komi um það nú.
    Ég vona að þetta mál fái ítarlega meðferð í hv. allshn. og treysti henni prýðilega til að vinna það ef henni er gefinn til þess eðlilegur tími. Það er mjög viðkvæmt og vandasamt mál að ræða og almennt séð held ég að það sé gott vinnulag að flýta sér hægt með svona mál og reyna að vinna þau þeim mun vandlegar. Það eru fjöldamörg dæmi þess að frv. sem mönnum þóttu góð þegar þau voru lögð fram og lögðu mikla áherslu á að fá afgreidd í hvelli hafa stórbatnað við ítarlega meðferð í nefndum þingsins.
    Ég læt þetta duga að þessu sinni, frú forseti. Ég ítreka tilmæli mín til hv. allshn. að hún fari vandlega yfir frv. og afli ítarlegra umsagna, bæði frá þeim aðilum sem umsagnir hafa gefið áður og e.t.v. fleiri aðilum. Ég tel að fyrst og fremst þurfi að líta á hliðina sem snýr að tjónþolanum, að hún sé sanngjörn og eðlileg.