Skaðabótalög

117. fundur
Fimmtudaginn 25. febrúar 1993, kl. 12:40:07 (5427)

     Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson) :
    Frú forseti. Hv. 1. þm. Norðurl. v. hélt því fram í ræðu sinni að það væri augljóst að frv. væri samið af tryggingafélögunum. Nú hefur komið fram, bæði við umræður um þetta mál nú og á fyrra þingi, að frv. er samið af Arnljóti Björnssyni prófessor, sem viðurkenndur er sem færasti sérfræðingur okkar Íslendinga í skaðabótarétti.
    Upphafleg gerð frv. var í öllum meginatriðum sniðin eftir sambærilegri danskri löggjöf og í samræmi við þá réttarþróun í skaðabótarétti sem átt hefur sér stað á Norðurlöndum á undanförnum árum og mætti frekar víkja að því að horft hefði verið til Danmerkur en sérstaklega til tryggingafélaganna.
    Það er rétt og hefur aldrei verið dregin dul á það að í heild er gert ráð fyrir því að bótagreiðslur muni lækka samkvæmt þessari nýju skipan. En við verðum að hafa í huga í því sambandi að sú lækkun á sér einvörðungu stað í þeim tilvikum þar sem um minnst tjón er að ræða. Á hinn bóginn gerir frv. ráð fyrir mjög verulegri aukningu þegar um meiri háttar tjón er að tefla. Ég hygg að flestir geti verið sammála um að það er einkum í þeim tilvikum sem menn þurfa sérstaklega að gæta að hagsmunum þeirra sem af einhverjum ástæðum lenda í slysum eða verða fyrir tjóni og eiga af þeim sökum rétt á bótum.
    Þarna er með augljósum hætti verið að bæta stöðu þeirra sem helst þurfa á að halda. Hitt er spurning hvort verja á stöðu hinna í ríkari mæli en þörf krefur á kostnað alls almennings sem verður að greiða iðgjöldin til tryggingafélaganna í samræmi við þær reglur.
    Vegna ummæla hv. þm. er rétt að upplýsa það hér að eftir að ný gerð af frv. hafði verið samin að tilhlutan ráðuneytisins, og það verk vann prófessor Arnljótur Björnsson, var það sent til umsagnar tryggingafélaganna og Tryggingaeftirlitsins og ýmissa annarra aðila. Ráðuneytið fékk bréf frá tryggingafélögunum um þessa nýju útgáfu af frv. Með leyfi forseta ætla ég að lesa niðurlag þess, en þar segir svo:
    ,,Stjórn Sambands íslenskra tryggingafélaga skorar á yður, herra dómsmálaráðherra, að leggja ekki fram á Alþingi frv. til skaðabótalaga í þeirri mynd sem það liggur fyrir nú.``
    Svo kemur hv. þm. og segir augljóst að frv. sé samið af tryggingafélögunum og með hagsmuni þeirra í huga. Það er samið af Arnljóti Björnssyni prófessor með hagsmuni þeirra sem hér eiga hlut að máli og verða fyrir slysum og hagsmuni þeirra sem eiga að greiða bótagreiðslurnar í huga.
    Við starfrækjum sérstakt tryggingaeftirlit í landinu sem hefur eftirlit með tryggingafélögunum og gætir hagsmuna þeirra sem eiga rétt á bótum og eiga að greiða iðgjöld og er sá aðili í þjóðfélaginu sem við hljótum að reiða okkur helst á í aðhaldi með tryggingafélögunum. Tryggingaeftirlitið mælti með fyrri gerð frv. í meginatriðum en gerði athugasemdir við 15%-regluna. Nú hefur það skrifað á ný umsögn og niðurstaðan í bréfi Tryggingaeftirlitsins, sem ég ítreka að hefur það hlutverk að veita tryggingafélögunum aðhald og gæta hagsmuna almennings, er svohljóðandi, með leyfi forseta:
    ,,Með tilliti til framanritaðs hvetur Tryggingaeftirlitið yður til þess að stuðla að því að afgreiðslu frumvarps til skaðabótalaga verði hraðað á Alþingi eftir því sem kostur er.``
    Telur hv. þm. að Tryggingaeftirlitið sé með þessu að ganga gegn því lögboðna hlutverki sem það hefur? Ég met það svo að það sé að rækja sitt eftirlitshlutverk gagnvart tryggingafélögum og hagsmunagæslu sína í þágu almennings í landinu, bæði tjónþola og þeirra sem iðgjöld eiga að greiða. Og þess vegna hafi Tryggingaeftirlitið komist að þeirri niðurstöðu eftir að frv. hafði verið breytt að skrifa ráðuneytinu sérstakt bréf og hvetja til þess að frv. verði afgreitt frá Alþingi í þeirri mynd sem það er nú svo fljótt sem nokkur kostur er á.
    Ég hygg, frú forseti, að með þessu hafi ég eytt öllum efasemdum sem upp gætu komið vegna ummæla hv. þm. sem ég efa ekki að hafa frekar verið látin falla af ókunnugleika um aðdraganda málsins en óvilja í garð þeirrar réttarbótar sem hér er á ferðinni.