Skaðabótalög

117. fundur
Fimmtudaginn 25. febrúar 1993, kl. 12:48:08 (5429)

     Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson) (andsvar) :
    Frú forseti. Það er mikilvægt í umræðu um svo veigamikið málefni sem samið er af fremsta sérfræðingi okkar í skaðabótarétti að menn standist þá freistingu að gera því skóna að verið sé að draga taum ákveðinna aðila í þjóðfélaginu. Enda væri það skrýtið ef öll Norðurlöndin hefðu tekið einhverja sérhagsmuni tryggingafélaga fram yfir almannahagsmuni við mótun réttarreglna á þessu sviði. Við skulum líka hafa það í huga að samkvæmt gildandi lögum eru tryggingafélögin aldrei í neinni hættu. Þeim ber að innheimta iðgjöld í samræmi við þær reglur sem gilda um bótagreiðslur. Þeim er óheimilt að hafa iðgjöldin lægri þannig að því hærri sem bótagreiðslurnar eru þeim mun hærri eru iðgjöldin. Tryggingafélögin hafa þess vegna allt sitt á hreinu. Það sem hér þarf að fjalla um eru fyrst og fremst hagsmunir þeirra sem fyrir slysum verða og hvernig best verða tryggðir hagsmunir þeirra sem mest þurfa á aðstoð að halda og hvernig almannahagsmunir eru tryggðir gagnvart iðgjaldagreiðslum í þjóðfélaginu. Ég tel að á þessu sviði hafi tekist vel til með frv. sem hefur verið unnið af okkar fremsta fræðimanni á þessu sviði og er í fullu samræmi við þá réttarþróun í skaðabótarétti sem hefur orðið á Norðurlöndum og við hljótum að hafa til viðmiðunar bæði vegna almannahagsmuna og samkeppnisstöðu okkar.