Samfélagsþjónusta

117. fundur
Fimmtudaginn 25. febrúar 1993, kl. 13:31:29 (5438)

     Margrét Frímannsdóttir :
    Virðulegi forseti. Frv. sama efnis og það sem hér er til umræðu hefur eins og fram kom hjá hæstv. ráðherra verið lagt fram tvisvar áður en var ekki afgreitt. Meginástæða þess var sú að mönnum þótti fulllangt gengið að heimila samfélagsþjónustu við fullnustu dóma um allt að tíu mánaða refsivist. Einnig að í stað eins mánaðar refsivistar kæmi aðeins 20 klukkustunda samfélagsþjónusta en það er að 20 tíma vinna jafngilti því að sitja einn mánuð í fangelsi. Þá voru gerðar athugasemdir við það hvernig skipa ætti í samfélagsþjónustunefnd sem taka á ákvörðun um hvort, hvernig og á hve löngum tíma samfélagsþjónusta skal

innt af hendi. Í þeim frumvörpum sem áður hafa verið lögð fram var lagt til að dómsmrh. skipaði þessa nefnd en í engu kom fram hvaða skilyrði þeir þyrftu að uppfylla sem sæti tækju í nefndinni. Þar var gert ráð fyrir að dómsmrh. hverju sinni hefði algerlega frjálsar hendur um skipan þeirra.
    Þá voru að sjálfsögðu skiptar skoðanir um það hvort samfélagsþjónustan væri dómstólaúrræði eða fullnustuákvörðun á vegum stjórnvalda. Þetta voru helstu atriðin sem fram komu í þeim athugasemdum sem bárust við þau frumvörp sem áður voru lögð fram. Í þeirri nefnd sem hæstv. dómsmrh. Þorsteinn Pálsson skipaði í október sl. til þess að fara yfir frv. eins og það var og gera tillögur að breytingum var farið mjög vandlega yfir allar umsagnir sem bárust um frv. sem lagt var fram á 115. löggjafarþingi en einnig þær sem bárust á 113. löggjafarþingi. Einnig ræddu nefndarmenn við ýmsa þá aðila sem komu að þessum málum, svo sem lögmenn og dómara. Full samstaða var í nefndinni um þær breytingar sem gerðar voru á frv. og þá afstöðu að leggja hér fram frv. til sjálfstæðra laga um samfélagsþjónustu í stað viðauka við almenn hegningarlög eins og áður var gert.
    Það er von mín þar sem þetta frv. er nú lagt fram í þriðja sinn að það fái fljóta og jákvæða afgreiðslu. Það er að vísu mjög breytt frá því sem var en þær breytingar eru nær allar í samræmi við þær umsagnir og athugasemdir sem gerðar voru við fyrri frumvörp. Þá má ekki líta fram hjá því að forstjóri Fangelsismálastofnunar átti sæti í þeirri nefnd sem hæstv. dómsmrh. skipaði til þess að fara yfir málið. Fangelsismálastofnun fær til sín alla dóma sem koma til fullnustu og sér um framkvæmdina. Þar er saman komin á einum stað vitneskja um fullnustuúrræði og framkvæmd þeirra og sú vitneskja og reynsla nýtist vel í starfi nefndarinnar. Fangelsismálastofnun mun fara með framkvæmd laga ef frv. þetta verður samþykkt.
    Samfélagsþjónustan er nýmæli hér á landi. Hún er nútímalegt og heppilegt fullnustuúrræði ef vel tekst til um framkvæmdina. Því er nauðsynlegt að fara varlega af stað og undirbúa gildistöku laganna mjög vel. Því voru nefndarmenn sammála um að gildistími laganna verði aðeins tvö og hálft ár frá 1. júlí 1994 að telja. Hins vegar verði, ef frv. verður afgreitt, samfélagsþjónustunefndin skv. 5. gr. skipuð strax og starfi til 1. júlí 1994 að undirbúningi að gildistöku laganna.
    Ég sé ekki ástæðu til að rekja nánar þær breytingar sem gerðar voru eða nefndin lagði til enda yrði þar aðeins um að ræða endurtekningu á því sem hæstv. dómsmrh. sagði en vil aðeins að lokum hvetja hv. þm. til að kynna sér þetta frv. fljótt og vel þannig að það megi hljóta afgreiðslu á þessu þingi.