Kaup á björgunarþyrlu

117. fundur
Fimmtudaginn 25. febrúar 1993, kl. 14:10:49 (5441)

     Guðrún Helgadóttir :
    Hæstv. forseti. Það mál sem hér er loksins á dagskrá, og þó fyrr hefði verið, fjallar fyrst af öllu um hvert gildismat hv. alþm. hafa, hvernig menn meta kostnað eða hvort menn meta kostnað eftir einhverjum lögmálum eða engum. Hér er verið að fara fram á að hafnir verði samningar um kaup á þyrlu til að bjarga fólki í neyð, bæði fólki til sjós og jafnframt fóki sem býr í fjarlægum byggðum. Það er ekki verið að biðja um mikla fjármuni hér og nú þannig að það er í raun og veru fullkomlega óskiljanlegt hvers

vegna þetta mál þarf að velkjast svo mjög í þinginu. Það hvarflar að manni að sú gæti verið ástæðan að mönnum líkaði ekki 1. flm. frv., kysu frekar að sjá þar einhvern annan. Ég kann enga aðra skýringu á þessu og ég tek það fram að ég er sjálf meðflm. að þessu frv.
    Hv. 5. þm. Vestf. gerði hér ítarlega grein fyrir afstöðu sinni í hv. allshn. og ég ætla ekki að endurtaka það sem hann sagði. En við sem höfum búið við sjóinn og átt allt okkar undir þeim sem hann stunduðu þurfum ekkert að láta segja okkur hvers virði öflug björgunartæki eru. Ég býst við að fólk í hinum dreifðu byggðum landsins hafi oft fagnað því mjög að til skyldi vera þjónusta sem gat bjargað þegar ekkert annað gat komið til bjargar.
    Það sem hér hefur verið sagt gegn þessu máli er satt best að segja málalengingar. Ég leyfi mér að fullyrða að það er ekkert verið að gera í alvöru í þessu máli og ég hef enga ómerkari fyrir mér í þeirri fullyrðingu en þá menn sem þessa vinnu vinna. Þannig vildi til að við nokkrir hv. þm. fórum á fund flugmanna Landhelgisgæslunnar ekki alls fyrir löngu og spurðum að því hvort verið væri að vinna þetta mál í samvinnu við þá og svarið var nei. Ósköp einfaldlega nei, það væri ekkert verið að því. Það er bara ekkert talað við þá.
    Við töluðum við flugmennina Pál Halldórsson og Benóný Ásgrímsson. Þeir menn og þeirra lið björguðu svo óumdeilanlegt er 19 manneskjum úr lífsháska á sl. ári fyrir utan alla þá sjúklinga sem þeir komu milli staða og enginn veit hvernig farið hefði ef þessi þjónusta hefði ekki verið fyrir hendi. Ég held að allir hv. þm. ættu að fara og skoða vélina sem þetta var gert með. Ég verð að játa að ég hafði ekki með öllu mínu hugmyndaflugi ímyndað mér hvað þetta er lítil vél og mér er satt að segja óskiljanlegt hvernig læknir og hjúkrunarfólk geta komið þarna jafnvel fjórum slösuðum manneskjum fyrir. Það yfirgengur minn skilning. Og hafi ég haft áhuga á málinu áður, þá margefldist ég í þeirri trú við þessa heimsókn að við yrðum og það væri skylda okkar að kaupa öfluga vél sem boðleg væri. Ekki þarf að endurtaka það enn einu sinni hér að það getur skipt máli þegar um er að ræða t.d. áhöfn í neyð á sjó úti hvort fara verður þrjár ferðir eða hægt er að taka 12 manns í einu eins og er í þeirri vél sem þessir menn hafa mestan áhuga á. Ég veit ekki hvort menn gera sér grein fyrir hvernig þessi þjónusta er skipulögð og hvernig fólk hættir lífi og limum til að bjarga meðbræðrum og systrum. Ég veit ekki hvort menn hugsa oft til lækna sem taka að sér fyrir sáralitla greiðslu aukalega að síga niður í vitlausum veðrum úr þessari litlu vél til að hlúa að fólki sem þarf að draga upp í vélina. Ég held að það hljóti að vera skylda okkar að sjá um að lífi þess fólks sé ekki bókstaflega hætt með því að hafa ekki sómasamlegt björgunartæki. Það mætti nefna þar mörg nöfn, konur og karla úr læknastétt, sem hafa unnið þetta verk. Flugmenn sem við töluðum við minntust einmitt á það að þeir hefðu stundum ekki skilið hvað ræki þetta fólk til að stunda þetta starf því að ekki væri greiðslunni fyrir að fara þannig að nokkrum manni dytti í hug að vinna þetta verk hennar vegna.
    Ég er alveg sammála hv. 5. þm. Vestf. um að það er alger óþarfi að vera að rugla hér saman viðræðum við varnarliðið í Keflavík. Það er allt annað mál. Við höfum átt við það ágætt samstarf sem mér finnst nú eiginlega ekki þurfa að semja um. Það hefur verið til siðs í hinum siðmenntaða heimi að menn geri það sem þeir geta til að bjarga mannslífum og flugmenn þar suður frá hafa svo sannarlega oft brugðist vel við hafi verið til þeirra leitað og jafnvel án þess. En fyrir hefur líka komið að sú þjónusta hafi ekki nægt og það hefur margsinnis verið lögð á það áhersla að fyrir því séu ýmsar ástæður. Vélarnar sem þeir nota hafa t.d. ekki afísingarbúnað sem er alger nauðsyn fyrir vélar sem eiga að vera í þjónustu á Íslandi. M.a. sögðu þeir okkur flugmennirnir Páll Halldórsson og Benóný Ásgrímsson að oftlega komi það fyrir að þeir verða að taka stóran krók meðfram ströndinni af því að þeir hafa ekki afísingartæki og lengja þannig leiðina margfalt. Annað er það sem þeir minntust á og ég býst við að hv. 5. þm. Reykv. geri kannski nánari grein fyrir hér á eftir en það er að sú vél sem þeir hafa farið fram á að fá er þeim eiginleikum búin að hún getur staðið kyrr í loftinu sem er ómetanlegt. Hún hefur sjálfstýribúnað sem getur haldið henni kyrri hvað sem á dynur í loftinu og þannig auðveldast mjög að láta menn síga niður til þeirra sem hjálpar þurfa.
    Við höfum því miður óþægileg dæmi um það í nánasta umhverfi okkar að menn hafa jafnvel misst lífið vegna þess að hjálp barst ekki nógu fljótt. Það kom einmitt fram sem er auðvitað þvert ofan í það sem verið er að tala um að hafa alla þessa þjónustu á einum stað að þeir menn sem best þekkja til þessara hluta telja afar mikilvægt eins og hér kom fram í máli hv. 5. þm. Vestf. að þyrla sé líka til staðar á hinum enda landsins vegna þess að oft er auðvitað óþarflega langt að fara þegar neyðin kallar.
    Menn bera sjálfsagt fyrir sig kostnað eins og hv. 6. þm. Reykv. gerði hér áðan sem mér finnst nú persónulega satt að segja næstum ekki við hæfi. Auk þess er það misskilningur. Ég veit ekki hvort þetta góða fólk hefur reiknað út þann sparnað í grjóthörðum peningum sem vinnst við hvert mannslíf sem bjargist. Menn ættu að tala við tryggingafélög, Tryggingastofnun ríkisins og aðra slíka og vita hvort ekki hefði nú verið töluverður sparnaður í að þeir sem látnir eru hefðu fengið að halda lífi. Ég held að það geti aldrei verið kostnaður af því að bjarga mannslífi, það er hreint óhugsandi og satt að segja er ekkert tæki of dýrt sem keypt yrði í því skyni. Það er sama hvert maður lítur til að sjá hver áhugi Íslendinga er á þessu máli. Bara í morgun þegar ég opnaði Morgunblaðið sá ég litla klausu sem ber yfirskriftina, með leyfi hæstv. forseta: ,,Gjafir til þyrlusjóðs. Kvenfélagið Aldan, Félag eiginkvenna skipstjórnarmanna á íslensku fiskiskipunum, gaf nýlega 100 þús. kr. til þyrlusjóðs, björgunarsjóðs Stýrimannaskóla Íslands, en tilgangur hans er að safna fé til kaupa á fullkominni björgunarþyrlu til landsins.`` Ég er reyndar ekki í nokkrum vafa um að það yrði auðvelt að safna talsverðu fé frá einstaklingum og félagasamtökum í þessu skyni en fyrst af

öllu ber okkur hér á hinu háa Alþingi að hafa frumkvæði um að þetta verði gert. Í fjárlögum, bæði nú í ár og raunar í fyrra líka, stendur skýrum stöfum í 6. gr. að ríkisstjórninni sé veitt heimild til að ganga til samninga um kaup á björgunarþyrlu fyrir Landhelgisgæslu Íslands og taka til þess nauðsynleg lán.
    Nú vill svo til að á þessu ári tel ég að þó að gengið væri til samninga hér og nú þyrfti engin lán að taka þannig að hér er ekki um að ræða nein mikil fjárútlát á þessu ári en þolinmæði manna er þrotin. Við viljum ekki láta fleira fólk farast við strendur landsins af því að við eigum ekki nógu öflug björgunartæki. Það má ekki gerast og það getur ekki nokkur manneskja með samvisku sætt sig við að hér sé verið að hafa í frammi alls kyns nefndarskipanir og orðhengilshátt um það hvort lög væru bindandi fyrir ráðherra. Þetta frv. er sett fram í því einu skyni að ýta á að þál. þeirri sem samþykkt var hér árið 1991, verði framfylgt. Það er nú svo með þingsályktanir að þær eru ekki bindandi fyrir ráðherra þó að það ætti nú að vera almennir mannasiðir vil ég segja að ráðherrar sæju sóma sinn í að hunsa ekki vilja þingsins. En hvað um það. Ráðherra getur svo sem ráðið því hvort hann framkvæmir þál. eða ekki. En hafi nú verið samþykkt lög um að hann skuli gera það, þá held ég að sé mjög erfitt að fara ekki að þeim vilja. Og satt að segja verð ég að segja alveg eins og er þó að ég vogi mér ekki að draga í efa hæfni Sigurðar Líndals í sínum fræðum, þá er ég hreinlega ekki sammála túlkun hans sem birtist hér í fskj. II því að það er ekki verið að binda neina tvo aðila með þessu frv. 1. gr. frv. hljóðar einfaldlega svo, með leyfi forseta:
    ,,Ríkisstjórnin skal á árinu 1993 gera samning við framleiðendur eða seljendur . . .  `` Þeir eru ekkert tilgreindir. Það eru þeir framleiðendur og seljendur sem niðurstaða fæst við.
    Ég treysti því að þegar þetta frv. kemur til atkvæðagreiðslu, ég vænti þess að það gerist þegar þingheimi verður næst hóað saman, að forustumenn verkalýðssambanda og Farmanna- og fiskimannasambandsins, Sjómannafélags Reykjavíkur og fleiri félagasamtaka láti ekki sitt eftir liggja til þess að þetta frv. hafi meiri hluta í þinginu. Ég skora á hv. þm. að taka nú einu sinni höndum saman um svo brýnt mál sem þetta er og gleyma öllum flokkadráttum. Það getur ekki verið pólitískt mál að fólk missi lífið hér á landi sakir veðra, vinda og hvers kyns óláns vegna þess að við höfum ekki ráð á að eiga hér boðlega björgunarþyrlu. Slíkt og annað eins getur ekki átt sér stað. Ég vil mælast til að allt verði gert til þess að þetta mál nái fram að ganga og þegar í stað verði teknir upp samningar og ekki síst í samráði við það fólk sem mest og best hefur unnið að þessum málum og þá fyrst og fremst Landhelgisgæsluna og þá flugmenn sem eiga að stjórna þessum tækjum. Með allri virðingu fyrir þeim ágætu deildarstjórum í forsætis- og utanrrn. þá treysti ég Páli Halldórssyni og Benóný Ásgrímssyni betur til að vita hvað hentar í þessum efnum hér í okkar landi en þeim.