Kaup á björgunarþyrlu

117. fundur
Fimmtudaginn 25. febrúar 1993, kl. 14:27:31 (5443)

     Guðrún Helgadóttir (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Það vill svo til að það hefur margsinnis komið í ljós og verið látið í ljós af þeim sem best vita að þyrlurnar sem notaðar eru á Keflavíkurflugvelli henta alls ekki. Það er ástæða fyrir því. Slíkar þyrlur eru herþyrlur og þær eiga að þjóna allt öðrum markmiðum en við ætlum að nýta þær til. Þær hafa oft komið að góðum notum hér og það skal aldrei vanþakkað en þessi tæki eru til allt annarra hluta gerðar og á þetta hefur margsinnis verið bent. Að það geti skipt öllu máli, þó hægt væri að halda úti einhverju sameiginlegu viðhaldi, held ég að séu smámunir. Þeir flugmenn hjá Landhelgisgæslunni töldu að breytingarnar sem gera þyrfti á slíkri þyrlu yrðu mjög dýrar og alls ekki til þeirra bóta að jafnaðist á við þá þyrlu sem þeir hyggjast kaupa. Ég held og vil ítreka að best væri unnið að þessu máli í sem allra mestu samráði við þá. Þeir hafa lengst af unnið á þessum tækjum, þeir vita hvað til þarf ásamt læknum sem hafa farið í ferðir með þeim og ég held að stjórnvöld ættu að taka mið af því sem þetta fólk hefur lært af reynslunni og haga sér í samræmi við það heldur en að fela þessi verk annars ágætum ungum mönnum sem aldrei nokkurn tímann hafa komið hvorki á fiskibát né upp í þyrlu.