Kaup á björgunarþyrlu

117. fundur
Fimmtudaginn 25. febrúar 1993, kl. 14:30:29 (5445)

     Anna Ólafsdóttir Björnsson :
    Virðulegi forseti. Það þarf ekki að hafa mörg orð um þetta mál sem nú hefur verið afgreitt úr allshn. með jákvæðri umsögn meiri hluta nefndarinnar. Það er í rauninni ekki eftir neinu að bíða að ganga frá því að samþykkja þetta frv. og það er það eina sem Alþingi gæti verið fullsæmt af. Ástæðan fyrir því að kostnaður hefur verið gerður að umtalsefni er einfaldlega sú að meðal annars er verið að kanna leiðir til þess að nýta einhvers konar samstarf við varnarliðið á Keflavíkurflugvelli. Í því tilviki hefur þessi athugun leitt til tafa. Það er sárgrætilegt þar sem þetta mál þolir enga bið. Vilji Alþingis liggur fyrir og þar að auki er þetta sárgrætilegt einfaldlega vegna þess að það er mikið óraunsæi að halda að það sé hægt að ganga til þessa samstarfs. Annað tveggja mun gerast samkvæmt því: Ef öllum kröfum um sómasamlega björgunarþyrlu er fullnægt þá er þarna um mun dýrari grip að ræða en ýmislegt af því sem hefur verið kannað áður og ég sé í rauninni ekki til hvers það mundi leiða að fara að halda áfram að reyna að finna einhvers konar niðurstöðu í því dæmi sem ætti að verða kostnaðarminni og hagnýtari. Það sem nú liggur fyrir af upplýsingum bendir ekki til þess að þetta sé gerlegt né æskilegt. Ef hins vegar á að spara einhvern kostnað þá sitjum við uppi með grip sem er ekki það sem okkur vantar. Okkur vantar fullkomna, góða björgunarþyrlu sem svarar grundvallarkröfum. Annars vegar þeirri kröfu að hægt sé að nota hana við allar þær veðurfarsaðstæður sem upp koma í þessum erfiða heimshluta og hins vegar að það sé í rauninni hægt að fara um þau svæði sem þarf, það sé hægt að fara yfir land ekki síður en lög, afísingarbúnaður sé í lagi og að þyrlan geti verið kyrr fyrir ofan slysastað því venjulega eru þetta slys sem eiga sér stað við erfiðar aðstæður. Það er alveg ljóst að við erum ekki að komast nær því að sjá einhverja niðurstöðu þarna ef við höldum áfram þessum viðræðum við varnarliðið sem einhverjar eru nú. Við getum ekki sætt okkur við að það verði annað tveggja, eytt meiri tíma sem er það mikilvægasta í þessu og meiri peningum, bara vegna þess að þetta virðist vera orðið eitthvert sáluhjálparatriði að ná þarna einhverri tengingu eða hins vegar að það verði slegið af kröfum þannig að við séum ekki að tryggja okkar fólki á sjó og landi bestu mögulega björgun ef á reynir.
    Þetta er í rauninni það sem skiptir máli. Tafir á þessu máli eru orðnar slíkar að það er þyngra en tárum taki að ræða það. Ég held að það sé alveg óþarfi að fara út í þá sögu, við þekkjum hana flest og fyrir þá sem ekki gera það, þá breytir í rauninni engu hvort þeir kynnast henni eða ekki. Ég held að nú þurfi bara að grípa til aðgerða og ganga í þetta verk og gera sér grein fyrir því með miklu raunsæi að við erum að fara á blindgötu ef við ætlum að bíða eftir því að einhver niðurstaða komist á einhvers konar samstarfi við varnarliðið. Það þýðir tímatöf sem við þolum ekki, frekari tímatöf, og það er ekki útlit fyrir að það leiði til nokkurs.