Kaup á björgunarþyrlu

117. fundur
Fimmtudaginn 25. febrúar 1993, kl. 15:04:44 (5454)

     Ingi Björn Albertsson (frh.) :
    Hæstv. forseti. Ég hyggst ekki halda langt mál í fyrri ræðu minni þó vissulega sé tilefni til og kannski aukast þau tilefni þegar á umræðuna líður. Þá verður hægt að bæta úr lengd ræðunnar.
    Ég vil byrja mál mitt á því að lesa stutta grein sem birtist í Gæslutíðindum, sem út kom í desember 1992, og ber yfirskriftina ,,Þyrlumálið``. Greinin er rituð af Benóný Ásgrímssyni sem er flugmaður á stærri þyrlu Landhelgisgæslunnar. Ég tel að þessi grein lýsi nefnilega ágætlega stöðu málsins og ætla því að lesa hana, með leyfi forseta, en hún er svona:
    ,,Í þessari stuttu grein minni ætla ég að lýsa stöðu þyrlukaupamálsins eins og það lítur út frá mínum sjónarhóli í dag.
    Það var árið 1987 sem fram var lagt á Alþingi tillaga um kaup á fullkominni björgunarþyrlu fyrir Íslendinga. Í framhaldi af því hafa síðastliðin fimm ár verið stanslausar umræður um þessi þyrlukaupamál með tilheyrandi fjölda nefnda sem hver af annarri hafa skilað áliti sínu til ríkisstjórnarinnar.
    Sammerkt með niðurstöðu allra nefndanna var að kaupa þyrfti björgunarþyrlu fyrir Landhelgisgæsluna. Þrátt fyrir þetta og að varla séu til þau sjómannasamtök, björgunarsveitir, ferðaklúbbar, og mér liggur við að segja saumaklúbbar í landinu, sem ekki hafa ályktað þessu máli til stuðnings stöndum við í dag, fimm árum síðar, án ákvörðunar í þessu máli.
    Það var á vordögum 1991 er við, sem barist höfðum fyrir þessu máli, töldum það komið í höfn með samþykkt Alþingis Íslendinga á þáltill. þess efnis að keypt yrði fullkomin björgunarþyrla fyrir Íslendinga á árinu 1991.
    Það er nú svo þegar stjórnmálamenn fyrir kosningar eru að lofa kjósendum hinu og þessu, þá kærum við okkur kollótt og ætlumst jafnvel ekki til þess að þeir standi við þau loforð. En þegar Alþingi Íslendinga samþykkir eitthvað þá viljum við staldra við og ætlumst til að framkvæmdarvaldið fari eftir þeim samþykktum. Þáltill. sem samþykkt var vorið 1991 var skýr og einföld og hljóðaði á þessa leið:
    ,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að sjá til þess að á árinu 1991 verði gerður samningur um

kaup á fullkominni björgunarþyrlu fyrir Landhelgisgæsluna.``
    Í framhaldi af þessari samþykkt skipaði dómsmrh. nefnd sem átti, eins og kom fram í fréttatilkynningu, ,,að undirbúa málið``. Þó að mörgum hafi þótt samsetning nefndarinnar nokkuð sérkennileg trúðu menn því að hún færi eftir fyrirmælum dómsmrh., þ.e. að undirbúa kaup á fullkominni björgunarþyrlu fyrir Landhelgisgæsluna.
    Þessi nefnd var að störfum í sex mánuði. Niðurstaða nefndarinnar var: Nefndin leggur til að formlegar viðræður verði hafnar við bandarísk stjórnvöld um framtíðarskipan björgunarstarfsemi varnarliðsins á Íslandi.
    Ja, þvílík niðurstaða nefndar sem var sex mánuði að störfum til að undirbúa kaup á fullkominni björgunarþyrlu fyrir Landhelgisgæsluna.
    Næst gerist það í málinu að hafnar eru viðræður við Bandaríkjamenn í framhaldi af niðurstöðum nefndarinnar sem enduðu eftir nokkurra mánaða viðræður án sýnilegs árangurs.
    Enn á ný var skipuð nefnd og nú skyldi í eitt skipti fyrir öll komast að niðurstöðu hvaða tegund björgunarþyrlna væri heppilegast að velja til björgunarstarfa hér á landi. Niðurstaðan úr þeirri nefnd kom ekki mörgum á óvart. ,,Super Puma`` var það eins og mælt hafði verið með sl. fimm ár.
    Stjórnmálamenn og aðrir hafa skírskotað til erfiðs árferðis og að þyrlur séu dýrar. Vissulega er hvort tveggja rétt, en þetta hefur ætíð verið svona. Það var ekki verið að tala um að menn þyrftu að veiða hér upp úr vasanum í fyrramálið eða eftir hádegið 600 millj. Það er verið að tala um svipaðar fjárhagslegar skuldbindingar fyrir ríkissjóð eins og það mundi kosta fjölskyldu að kaupa sér eina ryksugu á 20--30 þús. kr. og borga hana á 10--15 árum.
    Að lokum. Eins og fram hefur komið tekur allt að eitt og hálft ár frá pöntun þar til afhending á nýrri Super Pumu þyrlu gæti orðið samkvæmt upplýsingum umboðsmanns Super Puma þyrlna á Íslandi. Eru söluaðilar tilbúnir að samþykkja að engar greiðslur þurfi að inna af hendi við pöntun þyrlunnar eða við afhendingu. Ekki þyrfti að greiða fyrstu afborgun fyrr en eftir að þyrlan væri búin að vera í eitt ár í rekstri hér á landi. Enginn rekstrarkostnaður yrði af þessari vél á fjárlögum fyrir árið 1993 og ekki þyrfti að nota heimild sem nú er í lánsfjárlögum.
    Með vísan til ofanritaðs eru að mínu mati engin efnahagsleg rök lengur fyrir því að slá þessu langþráða máli frekar á frest.``
    Undir þetta ritar Benóný Ásgrímsson þyrluflugmaður.
    Hæstv. forseti. Í rauninni þarf ekki að hafa fleiri orð um þetta mál en eins og ég sagði í upphafi er vissulega hægt að hafa um þetta mörg orð og tala langt mál.
    Árið 1987 lagði ég fyrst fram þáltill. um þetta efni. Loksins árið 1991 fékkst sú till. samþykkt. Þá sat í sæti fjmrh. hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson og má segja honum það til hróss að hann brást strax við og skipaði nefnd í málið. Síðan voru kosningar og ný ríkisstjórn tekur við völdum og heldur betur glaðnaði nú yfir mér sem 1. flm. þessarar till. Af hverju skyldi hafa glaðnað yfir mér? Jú, allir fagráðherrar þessa máls voru þingmenn Sjálfstfl. Við eigum forsrh., við eigum fjmrh., við eigum dómsmrh. Var ekki málið pottþétt í höfn? Var ekki málið bara pottþétt í höfn? Að ég tali nú ekki um þá landsfundarályktun sem hv. þm. Kristinn Gunnarsson rifjað upp og var alveg fortakslaus. Það átti undarbragðalaust að mati landsfundar Sjálfstfl. að gera samning um kaup á fullkominni björgunarþyrlu. En það er auðvitað mál sem landsfundur flokksins á að velta fyrir sér hvert gildi svona samþykktar yfirleitt er og af hverju er verið að kalla hundruð eða þúsundir manna til Reykjavíkur til þess að samþykkja gersamlega marklausar yfirlýsingar.
    Nei, það var ekki lengi ástæða til þess að gleðjast. Málið var sett í þann farveg sem var lýst í þeirri grein sem ég las áðan: Nefnd ofan á nefnd ofan á nefnd. Niðurstaða og óskir þeirra sem nú virðast ráða ferðinni beinast suður á völl. Ég verð að segja það, hæstv. forseti, að ég efast mikið um gildi þáltill. yfirleitt. Hér var alveg skýr og klár samþykkt Alþingis, skýr skilaboð til ráðherra í ríkisstjórn sem þeim ber að fara eftir. Þeir starfa í okkar umboði en ekki öfugt. Það held ég að menn mættu fara að átta sig á. Þessir menn starfa í okkar umboði og þeim ber að hlíta þeim fyrirmælum sem við setjum þeim en ekki öfugt. Tillagan var alveg skýr. Hún var sú að það átti að gera samning um kaup á fullkominni björgunarþyrlu á árinu 1991. Ekki bara gera tillögu sem síðan var hægt að stinga ofan í skúffu af því að hún var ekki tímasett. Það var auðvitað með opnum huga að sett voru tímamörk til þess að þessi vilji Alþingis yrði virtur og það yrði gengið til samninga á þessu ári.
    Og ég leyfði mér að vera bjartsýnn. Að vísu dofnaði strax yfir bjartsýni minni þegar ég sá fyrstu nefndina skipaða. Þá sáu allir í hvað stefndi. Svo kemur einn tiltekinn þingmaður hér upp og talar um traust á ríkisstjórnina, traust á ráðherra. Hafa menn ekki fylgst með ferli þessa máls? Ég var að lýsa vilja Alþingis um að þessi samningur yrði gerður á árinu 1991 og hann var ítrekaður í fjárlögum. Í tvígang lýsti Alþingi yfir vilja sínum í þessu máli en ríkisstjórnin hirti ekki um það.
    Af hverju halda menn að frv. sé lagt fram? Af hverju? Til þess að málið fái eðlilegan framgang af því að það fær það ekki í ríkisstjórninni. Þess vegna er frv. lagt fram. Það var lagt fram líka á síðasta þingi en fyrir orð ráðherra dró ég það til baka út úr nefnd á lokastigi málsins vegna þess að þá var mér tjáð að það yrði klárað innan tveggja, þriggja vikna. Hefur það verið gert? Nei, ekki aldeilis. Og svo koma menn hér upp og tala um traust. Ég held að menn verði að skoða forsöguna áður en þeir gefa svona yfirlýsingar.

    Ég verð að segja það í fullri einlægni við þá sem eru að reyna að hefta framgang þessa máls: Gerið þið ykkur grein fyrir afleiðingunum? Ég vil benda mönnum á að ef þeir hefðu virt vilja Alþingis frá árinu 1991, þá væri ný björgunarþyrla að koma á þessu ári og sennilega um mitt þetta ár. Menn geta þá verið ábyrgir fyrir því sem skeður eftir þann tíma.
    Ég ætla ekki að eyða tíma þingsins í það að ræða tegundir. Það er ekki málið. Málið er fyrst og fremst það að Landhelgisgæslan og íslenska þjóðin eignist öfluga björgunarþyrlu. En þetta Kanadekur þarna suður frá er gersamlega út í hött og það vita allir að það gengur aldrei upp. Það vita það allir. Og ég ætla ekki að eyða tíma þingsins í að tala um svona bull, metnaðarleysi, skort á stolti, að fara suður á völl. Mennirnir sem tala svona eru eins og köttur sem nuddar sér utan í lappirnar á manni. Ég er alveg hissa á þeim mönnum sem svona tala, t.d. formanni þeirrar nefndar sem fyrst var skipuð, að hann skyldi ekki styðja tillögu mína um það að enska yrði hér fyrsta tungumálið sem kennt yrði í grunnskólum. Það er það sem menn vilja. Maður ætti kannski bara að tala ensku við þessa menn. Aronskan svífur hér svoleiðis yfir að það er með ólíkindum. Auðvitað á svona tæki að vera í höndum Íslendinga og engra annarra.
    Hv. formaður allshn. kom inn á að þetta væri mikill kostnaður. Vissulega er þetta mikill kostnaður. En menn heyrðu það tilboð sem gert hefur verið í eina ákveðna tegund án þess að ég ætli að taka afstöðu til tegunda. Þetta er engu að síður sú tegund sem flestir vilja fá, nema þeir sem stefna út á völl, og það tilboð er nú ekki dónalegt. Fyrsta afborgun ári eftir að hún hefur verið afhent. Og ætli greiðslubyrðin sé þá mjög þung? Hvernig keyptum við þá þyrlu sem við eigum í dag? Við tókum langtímalán fyrir henni og borguðum hana út, staðgreiddum hana og fengum hana á því betra verði í staðinn. Greiðslubyrðin dreifist auðvitað eftir lengd lánsins. En andstæðingar björgunarþyrlu fyrir íslensku þjóðina láta alltaf í veðri vaka að hér þurfi að reiða fram u.þ.b. milljarð. Það getur vel verið að það sé rétt ef menn ætla suður á völl. Ef menn ætla þangað getur vel verið að það sé rétt. En það er ekki svo. Þetta er ekki þung greiðslubyrði fyrir íslenska þjóð. Ef menn ætla í þessum sal að setja verðmiða á mannslíf, þá er illa fyrir okkur komið.
    Ein af rökum hv. formanns allshn. fyrir því að fara suður á völl voru að við gætum þá hugsanlega staðsett aðra þyrlu einhvers staðar úti á landi. Hvað ætla menn að gera við þá þyrlu, sem við eigum í dag? Ætla þeir að henda henni? Að sjálfsögðu yrði hún staðsett úti á landi. Það liggur í augum uppi.
    Talandi um kostnað hef ég margsinnis bent á kostnaðarliði sem má skera niður. Ég hef margnefnt það. Það er ferða- og risnukostnaður og bílakostnaður. Hann hátt í 4 milljarða kr. í þessu litla þjóðfélagi. En á það vildi enginn hlusta fyrr en núna allt í einu að Ríkisendurskoðun kemur með úttekt á því. Þá vilja menn allt í einu hlusta. En eru menn tilbúnir að taka á því? Það er hins vegar stóra spurningin eða á bara að láta þetta ganga yfir eins og flest annað?
    Sú tillaga minni hluta allshn. að vísa málinu til ríkisstjórnar er algerlega út í hött og hefur verið rakið hér mjög vel af öðrum þingmönnum í umræðunum í dag. Hverju eru menn að vísa til ríkisstjórnarinnar? Máli sem er hjá ríkisstjórninni? Ég hef aldrei heyrt um svona afgreiðslu áður. Mér þykir það slappur minni hluti sem á ekki betri lausn en þá. Ég man reyndar ekki eftir því að þegar jafnstór meiri hluti er fyrir máli í nefnd að líkur séu á því að málið verði fellt í þinginu. Ég man ekki eftir því. Það eru sjálfsagt til dæmi. En maður hlýtur að spyrja sig: Hver er ástæðan? Hver er hin raunverulega ástæða?
    Það liggur fyrir að þjóðin öll styður þetta mál. Það er mikill minni hluti sem styður Kanadekrið. Hér hafa verið samþykktar yfirlýsingar og fé safnað og ég veit ekki hvað á að nefna það sem fólkið í landinu hefur verið að reyna að sýna þessu máli stuðning. Það er ekki hlustað og ég lýsi mikilli ábyrgð á hendur þeim mönnum sem eru að þvælast fyrir. Allir flokkar í stjórnarandstöðu styðja málið og eftir því sem ég best veit hver einasti þingmaður. Ég veit ekki betur en þingflokksformaður Alþfl. styðji málið. Hann var meðflm. þessa frv. á síðasta þingi og hann hamaðist mikið í mér sem 1. flm. að hafa lagt frv. fram núna án þess að tala við sig. Við erum tveir þingmenn Sjálfstfl. sem flytjum þetta mál og auðvitað styðjum við okkar eigið mál. Ég veit um fleiri sem hafa hugsað sér að styðja það. Það er því vissulega von.
    Ég hvet þjóðina: Fylgist þið vel með atkvæðagreiðslunni, hvernig menn greiða atkvæði og hvernig menn hafa talað áður. Fylgist þið vel með. Er samræmi þarna á milli? Ég hvet þjóðina, fylgist þið vel með og gleymið ekki. Málið snýst um þyrlu fyrir Landhelgisgæsluna en ekki þyrlu fyrir varnarliðið.
    Virðulegi forseti. Ég sagði í upphafi að ég ætlaði ekki að tala langt mál og við það stend ég. En maður hlýtur að spyrja sig í öllu þessu Kanadekri: Hvar ætla menn að enda? Er ekki alveg eins gott að Kaninn taki þá yfir Landhelgisgæsluna yfirleitt og fylgist með miðunum fyrir okkur? Og eru þá ekki björgunarsveitirnar næstar? Þetta er örugglega fjárhagslega hagkvæmt fyrir okkur. Menn með svona hugsunargang eru stórhættulegir.
    Ég óskaði eftir því, virðulegi forseti, að hæstv. forsrh. og hæstv. fjmrh. yrðu viðstaddir umræðuna. Hæstv. forsrh. til þess að upplýsa hug ríkisstjórnarinnar í þessu máli og hvað hún hyggst gera í málinu. Hyggst hún lenda málinu á þessu ári eða ekki? Skýr svör við því óskast. Það er hér með auglýst eftir skýrum svörum um hvað ríkisstjórn ætlar að gera. Ekki hverju hún ætlar að beita sér fyrir. Hvað ætlar hún að gera? Ætlar hún að virða vilja Alþingis eða ekki? Það er málið. Það er spurningin.
    Spurningin til hæstv. fjmrh. er þessi: Ætlar hann að nýta þá heimild sem er í 6. gr. fjárlaga þar sem heimilað er að taka nauðsynleg lán til kaupa á fullkominni björgunarþyrlu? Ég hef heyrt fjmrh. lýsa því yfir að hann hygðist ekki gera það. Ég vona að hann hafi skipt um skoðun. Sé það svo að hæstv. forsrh. sé jafnframt núna starfandi fjmrh. fagna ég því því að þá get ég fengið svör við báðum spurningunum.