Herjólfsdeilan

117. fundur
Fimmtudaginn 25. febrúar 1993, kl. 15:31:12 (5457)

     Árni Johnsen :
    Virðulegi forseti. Ég vil spyrja hvort hæstv. samgrh. sé ekki í húsinu. Ég hafði reiknað með að hann væri viðstaddur. ( Forseti: Forseti skal kanna hvort hæstv. samgrh. sé í húsinu. --- Hæstv. samgrh. mun ekki vera staddur í Alþingishúsinu en það er verið að kanna hvort hann muni vera á þeim stað sem til hans næst og geti e.t.v. komið hingað. Forseti vill biðja hv. þm. að halda áfram máli sínu þar sem ógerningur er að bíða með umræðuna. Það tekur hæstv. samgrh. auðvitað nokkurn tíma að komast hingað.)
    Virðulegi forseti. Stöðvun á siglingum Herjólfs milli lands og Eyja hefur staði í um það bil einn mánuð og hefur mikið vandræðaástand skapast varðandi margvíslega flutninga milli lands og Eyja, einni fjölförnustu ferðamannaleið landsins. Fyrir Vestmanneyinga má segja að neyðarástand hafi skapast, bæði með tilliti til almennrar þjónustu, vöruflutninga og ferðamöguleika. Það vakna óhjákvæmilega spurningar um það hvort ekki sé verulega slösuð vinnulöggjöf þar sem tveimur mönnum líðst að stöðva Herjólf, þjóðveginn milli lands og Eyja. Vöruverð hækkar í Eyjum vegna stöðvunarinnar, fiskur hefur skemmst vegna óstöðugleika í flutningum, mjólkurleysi hefur verið dag eftir dag, svo dæmi sé nefnt, og hundruðum saman hafa farþegar milli lands og Eyja verið tepptir, dögum saman vegna stopuls flugs á sama tíma og verkfallið hefur staðið.
    Herjólfur er aðallíftaugin til og frá Vestmannaeyjum og þegar hún er stöðvuð á svo veikum forsendum sem raun ber vitni er komið að spurningunni um neyðarrétt. Samningaleiðina þarf vissulega að reyna til hlítar og menn reyna að þreyja þorrann en málið er í slíkum hnút að reyndustu samningamenn landsins segjast ekki hafa fengið annað eins mál á borðið, nánast óleysanlegt eins og það stendur í dag. Meira að segja hafa talsmenn sjómanna neitað að ræða við sáttasemjara um hugsanlega breytingu á fyrirkomulagi verktilhögunar um borð án þess að menn hafi orðað kauplækkun.
    Meðal þess sérstæða við deiluna er að stýrimenn eru í rauninni ekki í verkfalli vegna lágra launa heldur vegna þess að þeim finnast laun undirmanna of há. Líklega eru flestir sammála um það að launakerfið um borð sé athugunarvert og rekstraröryggi skipsins er ekki meira en svo að einn maður getur stöðvað það.
    Launaskiptingin sem um er deilt kom til í samningum árin 1981 og 1989 en miðað við stöðugildi í Herjólfi fyrir janúar hefur stöðugildi yfirstýrimanns 259 þús. kr. á mánuði, stöðugildi 2. stýrimanns 227 þús. kr. á mánuði, stöðugildi bátsmanns 247 þús. kr. og háseta 214 þús. Miðað við janúarstöðugildi er bátsmannsstaðan þannig 20 þús. kr. hærri en stöðugildi 2. stýrimanns og þar virðist hnífurinn standa í kúnni.
    Kjaradeilur eru viðkvæm mál og vandmeðfarin og til hins ýtrasta verður að knýja á um að menn fari eðlilegar samningaleiðir. Það hlýtur að vera hagsmunamál skipverja á Herjólfi þegar til lengri tíma er litið að þokkaleg sátt sé í áhöfn. Þess vegna verður að krefjast þess að menn brjóti odd af oflæti sínu og ræði málið a.m.k. með tilliti til þeirrar ábyrgðar sem fylgir slíku þjónustutæki sem Herjólfur er, líftaug stærstu verstöðvar landsins, atvinnulífs, mannlífs 5 þús. íbúa og 60 þús. farþega á ári.
    Það er vægast sagt óþolandi að hið nýja skip, Herjólfur, liggi bundið við bryggju í Vestmannaeyjum um hábjargræðistímann og sinni ekki hlutverki sínu vegna ósamræmis í kjarasamningum. Enn flæktist málið þegar undirmönnum var sagt upp í kjölfar verkfalls stýrimanna. Minni hagsmunir hljóta að víkja fyrir meiri þegar um líftaug heils byggðarlags á hávertíð er að ræða og því vaknar spurningin um hvort og hvenær stjórnvöld landsins eigi að grípa í taumana. Það eru mörg fordæmi um lagasetningu til að stöðva vinnudeilur vegna neyðarástands þótt slíkt hljóti ávallt að vera ill nauðsyn. Ef svo fer sem horfir verður að óska eftir því við ríkisstjórnina að hún kanni möguleika á lagasetningu til þess að leysa málið. Sérstaða þess er slík að með lagasetningu til þess að stöðva verkfall stýrimanna yrði væntanlega að skipa sérstakan gerðardóm til þess að fjalla um alla launaskiptingu um borð hjá þeim fimm verkalýðsfélögum sem eiga hlut að máli. Slík lög yrðu neyðarúrræði en ef ekki rofar til á næstu dögum í samningaviðræðum er vissara að hætti bjargmanna að hafa vaðinn fyrir neðan sig og leysa þessa deilu með þeim ráðum sem duga þótt fordæmi kunni að vera fá.
    Ef sáttasemjari metur málið óleysanlegt er ekki eftir neinu að bíða en það þarf að koma í ljós. Þetta mál varðar samgrh., félmrh. og fjmrh. og reyndar forsrh. þegar um er að ræða líftaug eins öflugasta sjávarpláss í landinu. Bæjarráð Vestmannaeyja hefur hvatt til lausnar málsins og borgarafundur í Eyjum einnig. Mál er að knýja fram lausn. Það er ljóst að lagasetning er síðasta úrræðið og fyrst verður að knýja á til hins ýtrasta hjá viðkomandi verkalýðsfélögum en menn verða að vera við öllu búnir til þess að höggva á hnútinn snarlega. Spurningin til hæstv. ráðherra er: Hvernig horfið málið við ríkisstjórninni?