Herjólfsdeilan

117. fundur
Fimmtudaginn 25. febrúar 1993, kl. 15:40:11 (5459)

     Þuríður Bernódusdóttir :
    Frú forseti. Ég þakka hv. málshefjanda fyrir að vekja máls á því ófremdarástandi sem skapast hefur í Vestmannaeyjum vegna stöðvunar Herjólfsferjunnar. Þessi deila hefur svo sannarlega sett mark sitt á mannlífið og atvinnurekstur í Vestmannaeyjum og það er sorglegt að þetta mál skuli hafa fallið í þann farveg sem það nú er.
    Tilefni þessarar deilu milli stjórnar Herjólfs hf. og stýrimanna virðist vera óánægja með samanburð á launakjörum innan áhafnarinnar. Stýrimenn boðuðu til verkfalls fyrir meira en þrem vikum. Það er orðin mikil óánægja í Vestmannaeyjum með þetta langa verkfall. Það hefur vakið undrun að stjórn Herjólfs hefur lagt meiri áherslu á viðræður við háseta, sem ekki eru í verkfalli, en stýrimenn. Sýnast þau viðbrögð síst hafa orðið til að leysa deiluna. Þá eru margir undrandi á því að bæjarstjórn Vestmannaeyja hefur ekkert látið til sín heyra um þetta mikla hagsmunamál bæjarbúa.
    Þessi deila sýnir glögglega hvað Vestmanneyingar eru háðir góðum samgöngum. Það hefur berlega komið í ljós að nauðsynlegt er að hafa gott og traust skip í ferðum milli lands og Eyja. Menn verða sennilega seint sáttir um það hvort skipið sé of stórt eða of dýrt. Vestmannaeyjaferjan er hins vegar komin í rekstur og svo mun áreiðanlega vera um nána framtíð. Við verðum að gera okkar besta til þess að rekstur hennar verði viðunandi. Ég vona að stjórn Herjólfs beri gæfu til þess að taka á þessum málum þannig að farsæl lausn finnist nú þegar og allir sem tök hafa á leggi því lið. Ég vona líka að þessi kjaradeila og rekstrarstöðvun ferjunnar leiði ekki til varanlegrar röskunar á þeirri þjónustu sem þetta fyrirtæki hefur veitt eða að dregið verði úr þjónustunni. Það má aldrei verða. Það er krafa okkar Vestmanneyinga að þessi deila verði leyst tafarlaust.