Herjólfsdeilan

117. fundur
Fimmtudaginn 25. febrúar 1993, kl. 15:42:31 (5460)

     Anna Ólafsdóttir Björnsson :
    Virðulegi forseti. Ég held að allir landsmenn hafi ríka samúð með Vestmanneyingum og þeirra stöðu í þessu máli en það breytir því ekki að samningar sem eru í gildi og þau ákvæði sem eru í lögum um að verkfallsréttur sé tæki sem menn mega beita í sínum kröfum og deilum um kaup og kjör er mjög dýrmætur og má ekki skerða. Það er dálítið hættulegt viðhorf sem mér fannst örla á í máli hv. fyrsta ræðumanns að það þurfi að breyta vinnulöggjöfinni. Það þarf ekki að breyta vinnulöggjöfinni vegna þess að eitt verkfall er óþægilegra en annað. Það veldur aldrei einn þegar tveir deila og hér er deilan greinilega komin í hnút. Það er mjög sérkennilegt að þarna skuli sú staða vera komin upp, eins og seinasti hv. ræðumaður gat um, að meira virðist rætt við þá sem ekki eiga í deilu en hina sem eiga í deilunni. Það er einnig athyglisvert að undirmönnum er sagt upp en ekki öðrum yfirmönnum í þessari deilu núna. Ég sé ekki að það sé til þess fallið að bæta ástandið en við skulum vona að það muni batna. Ég legg mesta áherslu á að það má ekki á nokkurn hátt skerða þann rétt fólks sem það hefur í vinnudeilum og það verður að leita leiða sem rúmast innan þess réttar. Ég vek athygli á að það verður að fara með gát með þann rétt sem ríkisstjórnin gefur sér. Hún hefur oft verið ávítt, 10 eða 11 sinnum á seinustu 10--12 árum, fyrir að misnota rétt sinn með því að setja lög á frjálsa samninga og vinnudeilur.