Herjólfsdeilan

117. fundur
Fimmtudaginn 25. febrúar 1993, kl. 15:58:49 (5467)

     Jóhann Ársælsson :
    Virðulegur forseti. Mér þykir slæmt að hæstv. samgrh. skuli ekki hafa tekið til máls. Ég nefndi hér áðan að ég hefði upplýsingar um að það væri stefna a.m.k. forráðamanna Vegagerðarinnar og ég vissi ekki betur en það væri stefna samgrh. og þá ríkisstjórnarinnar, að hætta að gera þessa ferju út með sama hætti og gert hefur verið og mannskapnum á henni yrði sagt upp og reksturinn boðinn út. Það hlýtur að skipta verulegu máli þegar menn eru að velta þessari deilu fyrir sér, sem hér er verið að tala um, hvort það á hvort sem er að segja öllum mannskapnum upp eftir tuttan tíma. Geta ekki forráðamenn Herjólfs leyst þessi mál til skemmri tíma ef það er virkilega niðurstaða og stefna ríkisstjórnarinnar að endi verði bundinn á þennan rekstur með þeim hætti sem ég er að lýsa hér. Ég óska eindregið eftir því að hæstv. samgrh geri grein fyrir þessu máli.